135. löggjafarþing — 114. fundur,  30. maí 2008.

staðfest samvist.

532. mál
[00:07]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að við erum búin að taka mörg jákvæð skref í þá átt að jafna réttindi samkynhneigðra og gagnkynhneigðra. Ég kem hingað upp einungis til þess að ítreka að í nefndarálitinu stendur að nefndin telji eðlilegt að næsta skref í þessum efnum verði að endurskoða hjúskaparlög með það að markmiði að fella saman í einn lagabálk lagaákvæði um hjúskap og staðfesta samvist og að sú endurskoðun hefjist hið fyrsta.

Ég tel að það sé afar brýnt að halda þessu til haga og treysti á að ríkisstjórnarmeirihlutinn sem stýrir nefndarstarfi af þessum toga setji þetta það af stað hið allra fyrsta og komi þessu máli í höfn þannig að áður en við vitum af verðum við komin með ein hjúskaparlög sem gildi þá fyrir alla í landinu.

Þetta er mjög mikið réttlætismál að mínu mati og reyndar er sú er hér stendur á máli sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir flytur ásamt fleirum um að það verði hér ein hjúskaparlög í landinu. Ég tel að þetta mál sé nánast í höfn með því að setja þetta svona sterkt inn í nefndarálit.