135. löggjafarþing — 114. fundur,  30. maí 2008.

efni og efnablöndur.

431. mál
[00:14]
Hlusta

Frsm. umhvn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegi forseti. Varðandi þá fyrirvara sem hv. þingmaður gat um má segja að að vissu marki er hægt að taka undir þá gagnrýni sem lýtur að hinum stjórnskipulega fyrirvara. En í ljósi þess að verulegir hagsmunir eru nú fyrir fyrirtækin að geta skráð efni innan tilskilins tíma í innleiðingu löggjafarinnar á evrópska markaðnum þá var það niðurstaða nefndarinnar að nauðsynlegt væri að fara þessa leið.

Um síðari fyrirvarann má taka undir að hugsanlega hefði mátt ganga lengra almennt í hinni evrópsku löggjöf. En í ljósi þess að hér er um talsvert framfaraskref að ræða og verið að bæta aðhald og eftirlit með efnum og efnablöndum þá er eigi að síður framför að málinu og því er það sameiginleg tillaga nefndarinnar að það verði samþykkt.