135. löggjafarþing — 114. fundur,  30. maí 2008.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

477. mál
[00:15]
Hlusta

Frsm. umhvn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er um að ræða lítils háttar breytingu sem varðar gjald fyrir veiðikort og til þess m.a. gert að hvetja til betri skila á veiðiskýrslum. Nefndin gerir ekki neinar tillögur um breytingar á málinu.

Við umfjöllun þess komu hins vegar fram í umsögnum tillögur um breytingar á öðrum þáttum í þeirri löggjöf sem hér er undir. Á henni hafa verið gerðar fjölmargar breytingar frá því að hún var sett árið 1994 í lögum nr. 64, og það er álit nefndarinnar að eftir þær margvíslegu breytingar sem á þeim hafa verið gerðar og þann langa tíma sem þau hafa gilt sé kominn tími til að fara í heildarendurskoðun á lögunum og rétt sé að taka tillit til þeirra ábendinga sem fram komu í þessum umsögnum við slíka heildarendurskoðun.

Tveir nefndarmenn hafa fyrirvara í málinu og sá lýtur einmitt að þessum þætti hið minnsta, þ.e. því að tímabært sé orðið að lögin komi til heildarendurskoðunar.