135. löggjafarþing — 114. fundur,  30. maí 2008.

vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

477. mál
[00:17]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. formaður nefndarinnar tók af mér ómakið að gera grein fyrir fyrirvara mínum. Nú hef ég starfað hér á Alþingi í níu ár og ég hugsa að þessum lögum hafi verið breytt annaðhvert ár a.m.k. af þessum níu. Það þýðir að þessi löggjöf er orðin stagbætt og löngu tímabært að fram fari heildarendurskoðun á henni.

Ég fagna því að nefndin skyldi kveða svo skýrt að orði í nefndaráliti sem kom líka fram í ræðu hv. formanns nefndarinnar. Ég vona að umhverfisráðuneytið og hæstv. umhverfisráðherra taki þá brýningu alvarlega og geri gangskör að því að villidýralögin verði endurskoðuð með heildstæðum hætti hið allra fyrsta.