135. löggjafarþing — 114. fundur,  30. maí 2008.

mannréttindabrot og fangabúðir í Guantanamo.

107. mál
[01:41]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Tillaga utanríkismálanefndar er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi fordæmir ómannúðlega meðferð á föngum í búðum Bandaríkjamanna við Guantanamo-flóa á Kúbu, hvetur til þess að búðunum verði lokað og felur ríkisstjórninni að koma þeirri afstöðu á framfæri við bandarísk stjórnvöld.“

Þetta er afdráttarlaust orðalag. Þingsályktunartillagan byggir á þingmáli sem flutt var af þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs en 1. flutningsmaður var hv. þm. Katrín Jakobsdóttir. Þetta er baráttumál okkar í mörg ár eða allar götur frá því að fangabúðunum var komið á laggirnar í janúarmánuði árið 2002. Það er ánægjuefni að þverpólitísk samstaða sé um þetta mál og ég endurtek að orðalag tillögunnar er afgerandi, ríkisstjórninni ber að koma mótmælum Alþingis eindregið á framfæri. Til þess gefst tækifæri á morgun þegar utanríkisráðherra (Forseti hringir.) Bandaríkjanna verður hér í heimsókn.