135. löggjafarþing — 115. fundur,  30. maí 2008.

þingfrestun.

[02:07]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að taka undir orð forseta og fyrr í kvöld orð hæstv. forsætisráðherra hvað varðar kveðju til allra þeirra sem slösuðust eða urðu fyrir tjóni af völdum jarðskjálftans á Suðurlandi í dag. Það er rétt sem forsætisráðherra sagði að á stundum sem þessum eru Íslendingar sem einn maður.

Nú er komið að því að fresta þessu þingi fram á haustið þótt nefndir komi til með að sinna verkefnum í sumar. Okkur tókst að standa við áætlun og það er mjög mikilvægt. Þetta tókst vegna sameiginlegs átaks okkar allra. Hitt er ljóður á vinnulaginu að of mikill hraði er á síðustu metrunum, enda þingmálafjöldinn mikill, mörg mjög seint inn komin, og fyrir bragðið er hætta á fljótaskrift og þá einnig hinu að þingmenn geti ekki gert nægilega vel grein fyrir sjónarmiðum sínum. Á komandi þingi þarf að færa þetta vinnulag til betri vegar.

Fyrir hönd þingmanna vil ég þakka hæstv. forseta ágætt samstarf á þessu vorþingi og væntum við góðs samstarfs á komandi hausti.

Fyrir hönd þingmanna óska ég forseta og fjölskyldu hans, þingmönnum öllum og starfsfólki Alþingis góðs sumars. Ég bið þingmenn að taka undir orð mín og óskir með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]