135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

framhaldsfundir Alþingis.

[13:33]
Hlusta

Forseti (Sturla Böðvarsson):

Háttvirtir alþingismenn. Ég býð ykkur velkomna til framhaldsfunda Alþingis, 135. löggjafarþings.

Ég vona að gott sumar hafi verið alþingismönnum — og raunar þjóðinni allri — hamingjuríkt og að sem flestir hafi fengið hvíld og næðisstundir frá starfsönnum og amstri hversdagsins meðan bjartast og blíðast var. Þannig á það að vera.

Ég leyfi mér við þetta tækifæri að gera þá persónulegu játningu að hápunktur sumarsins hjá mér var við hátíðarguðþjónustu í Reykholtskirkju í júlílok þar sem séra Sigurbjörn Einarsson biskup, sem nú hefur kvatt í hárri elli, flutti eina af sínum áhrifaríku predikunum. Þar tvinnaði hann saman af mikilli þekkingu og hugkvæmni sögu Reykholts, Egils sögu, ævi Snorra Sturlusonar, örlagaríka valdakeppni og framandi íhlutanir. Hann fjallaði um íslenska tungu sem fjöregg sjálfstæðis okkar og ekki síst hin sístæðu verðmæti kristinnar trúar.

Um fjörbrot þjóðveldisins og það sem af þeim má læra, fórust honum svo orð:

„En það fór nú samt svo illa. Römm öfl og vond ollu því. Það kemur fyrir að mennirnir blindast og krossfesta sína eigin gæfu, hjálp og blessun. Verst fer þeim ævinlega þegar þeir blindast af ímynduðum glansi af sjálfum sér. — Ég er ekki viss nema einhverjir sperrtir hanar á tildurshaugum samtímans mættu taka þetta til sín. Og það er ekki hættulaust að seljast undir framandi íhlutanir og yfirráð. Hákon konungur reyndist Íslandi óheillavaldur. En verri en Hákon eru þau máttarvöld sum sem menn eru svo aumlega flatir fyrir nú á dögum. Ég nefni aðeins það sjúka yfirlæti sem þykist upp úr því vaxið að gera ráð fyrir neinu æðra sjálfum sér í alheimi, og þann gráðuga mammon sem virðir ekkert, enga helgidóma, engar hugsjónir, engin gildi.“

Þetta voru orð séra Sigurbjörns biskups á Reykholtshátíð. Þau varnaðarorð eiga vissulega erindi til okkar hér á hinu háa Alþingi sem og í samfélaginu öllu og ég hvet þingmenn til þess að kynna sér þessa merku predikun.

Tveir biskupar íslensku þjóðkirkjunnar önduðust á sumardögum, séra Ólafur Skúlason og séra Sigurbjörn Einarsson. Blessuð veri minning þeirra.

Septemberfundir Alþingis eru nýmæli. Þeir eru þáttur í þeirri breytingu sem við gerðum á þingsköpum Alþingis í desember á síðastliðnu ári og miða að því að lengja starfstíma Alþingis og dreifa þingstörfum betur yfir lengri tíma til hagsbóta fyrir alþingismenn, ríkisstjórn og allt skipulag þingsins.

Með septemberfundum Alþingis er ætlunin að skapa svigrúm til að ljúka á yfirstandandi löggjafarþingi afgreiðslu mála sem voru langt komin í vor en ekki vannst tími til að ræða til hlítar þá eða þurftu betri athugunar við í nefnd svo þau gætu orðið að lögum. Með þessu fyrirkomulagi er þess vænst að minnka megi nokkuð þær annir sem ætíð eru og vilja verða við lok þingfunda fyrir sumarhlé. Ýmsar þingnefndir hafa verið á fundum síðustu vikur til undirbúnings fyrir septemberþinghaldið og vænti ég þess að árangur þess starfs skili sér í vandaðri afgreiðslu mála. Þá má búast við að nokkur mál, sem ekki ættu að valda miklum ágreiningi, komi fram og fái afgreiðslu á þessum þingdögum.

Septemberfundunum er enn fremur ætlað að veita tækifæri til almennrar pólitískrar umræðu eftir sumarhlé þingsins.

Svo stendur nú á að blikur eru á lofti í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar þannig að þörf er rækilegrar umræðu um þau hér á Alþingi. Eins og sjá má á dagskrá fundarins hefur forsætisráðherra óskað eftir því að flytja þinginu skýrslu í upphafi þingfundar í dag um stöðu efnahagsmála.

Áætlun um þinghaldið hér í september, bæði er varðar þingfundi og nefndafundi, hefur verið dreift til háttvirtra alþingismanna.

Ég vona að þessi nýbreytni í þingstörfum reynist heilladrjúg og bæti enn vinnubrögðin hér á Alþingi.