135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[15:22]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Það er gaman að vera kominn hingað aftur og fá tækifæri til að taka þátt í þessari umræðu. Ég var farinn að sakna þess að vera ekki hér með félögum mínum, hv. þingmönnum, á þinginu, sérstaklega sumum hv. þingmönnum.

Hæstv. forsætisráðherra hefur farið yfir og lýst í mörgum orðum eins konar stöðumati og stöðu Íslands í alþjóðlegu efnahagslegu umhverfi. Hann vék að ýmsum aðgerðum sem bæði Seðlabanki og ríkisvaldið hafa komið að. Rétt er að ítreka það varðandi umræðu um aðgerðaleysi, eins og nokkrir hv. þingmenn hafa talað um, að frá síðustu áramótum má segja að farið hafi verið í nokkuð margar markvissar aðgerðir. Þær aðgerðir allar eiga að skila því að við séum að reyna að endurheimta efnahagslegan stöðugleika.

Vikið var að því að Seðlabankinn hefur rýmkað reglur um verðbréf og þar með bætt aðgengi að lausafé. Umræddur skiptasamningur Seðlabanka við seðlabanka Norðurlandanna um lánalínur mun einnig skila miklu er varðar traust og trúverðugleika Seðlabankans og hagkerfisins í heild sinni. Sú heimild sem Alþingi samþykkti í vor, varðandi 500 milljarða kr. lán, hefur verið nýtt, m.a. með tilkynningu hæstv. forsætisráðherra hér í dag þar sem kom fram að gjaldeyrisforðinn er nú um 500 milljarðar kr. Lækkun bindiskyldu bankanna með tilliti til erlendra útibúa var ákveðin á vormánuðum en það eykur streymi fjármagns á markaðinn. Útgáfa ríkisskuldabréfa til styttri tíma, eða allt að 75 milljarða, styrkir einnig íslensku krónuna og það er trú markaðarins að krónu- eða jöklabréfaútgáfan skipti yfir í slík ríkisskuldabréf. Gjaldeyrisvaraforðinn var aukinn um 10–15% í júlí með víxilútgáfu og líkt og fram kom í ræðu hæstv. forsætisráðherra er gjaldeyrisforðinn fjór- til fimmfaldaður á síðustu tveimur árum.

Hv. þingmenn muna eftir aðgerðum tengdum kjarasamningum í febrúar, persónuafsláttur var m.a. hækkaður og tekjuskattur fyrirtækja lækkaður. Við tókum ákvörðun um flýtiframkvæmdir í samgöngumálum er lúta að Suðurlandsvegi og Vaðlaheiðargöngum. Tekin var ákvörðun um niðurfellingu stimpilgjalda af fyrstu íbúð, sem er fyrsta skrefið í niðurfellingu stimpilgjalda, og boðað nýtt húsnæðissparnaðarkerfi með skattafrádrætti fyrir 35 ára og yngri. Íbúðalánasjóður hefur boðað aðgerðir tengdar frystingu lána og nýlega hefur verið farið fram með aðgerðir til að losa um húsbréf bankanna þannig að fjármagn flæði betur um, sem stuðlar að umbreytingu lána og getur m.a. fjölgað leiguíbúðum, sem skiptir verulegu máli.

Á vetrarmánuðum var nokkur umræða um veikingu krónunnar en í þjóðhagsspánni sem kom út um miðjan janúar var ljóst að miklar sveiflur voru í ýmsum efnahagsstærðum eins og gerðist fyrir nokkrum árum eða í kringum síðustu aldamót. Þá var ljóst að margar forsendur voru fyrir því að krónan mundi veikjast umtalsvert á vormánuðum. Viðskiptahalli hefur verið mikill og með tilheyrandi erlendri skuldasöfnun. Þá hafa háir vextir Seðlabankans haldið gengi krónunnar mjög háu lengi og umrætt verðbólguskot kom í kjölfarið vegna hærra innflutningsverðs.

Veiking krónunnar hefur vissulega komið sér illa fyrir þá sem eru með lán í erlendri mynt en hins vegar hefur hagur þeirra sem stunda útflutning vænkast. Í umræðum hér hefur verið vikið að því að verðbólgan er okkar versti óvinur og sú verðbólga sem þjóðin býr við er ekki viðunandi eftir langvinnt hagvaxtarskeið. Við stöndum því í gættinni á samdráttarskeiði og á því skeiði skiptir miklu máli að með sameiginlegri neyslustýringu náum við verðbólgunni niður. Þar þurfa allir að líta í eigin barm, þetta er sameiginlegt verkefni okkar allra, opinberra aðila, fyrirtækja og íbúa í landinu. Það tengist einnig því að við þurfum markvisst að draga úr viðskiptahallanum. Margir hafa verið uggandi vegna viðskiptahallans og það er ljóst að þegar við skoðum vöruviðskiptajöfnuðinn er það ekki ásættanlegt, miðað við þann samdrátt sem við stöndum frammi fyrir, að í júlímánuði voru vöruskiptin óhagstæð um 15,6 milljarða.

Fyrstu sjö mánuðina á þessu ári voru fluttar út vörur fyrir 241 milljarð en inn fyrir 282 milljarða. Hallinn á vöruskiptum við útlönd nemur því 42 milljörðum, en á sama tíma í fyrra voru þau óhagstæð um 65 milljarða. Ýmsar hagstærðir, eins og til að mynda nýskráning ökutækja, gefa þó til kynna að innflutningur sé að dragast saman og líkt og ég kom að áðan hafa útflutningsgreinarnar styrkt sig með veikingu krónunnar.

Mikið hefur verið deilt um stjórn peningamála en árið 2001 varð breyting á stjórn peningamála hér á landi. Eldra fyrirkomulagi, þ.e. fastgengisstefnu með tilteknum vikmörkum, var breytt og þess í stað var tekið upp svonefnt verðbólgumarkmið eins og hér hefur verið fjallað um. Í því felst að Seðlabankinn beitir vöxtum á skammtímalánum til fjármálafyrirtækja í þeim tilgangi að stuðla að því að almennar verðhækkanir á tilteknu tímabili haldist innan skilgreinds verðbólgumarkmiðs við fljótandi gengi krónunnar. Í vor lýsti hæstv. forsætisráðherra því yfir að tímabært væri að gera fræðilega úttekt á þessu viðfangsefni í góðu samstarfi við Seðlabankann. Ég gat ekki betur heyrt, virðulegur forseti, en að sú vinna færi af stað en í vor var því lýst yfir að það yrði þó brýnast á vor- og sumarmánuðum að taka höndum saman um að komast út úr því ölduróti sem íslenska fjármálakerfið væri statt í.

Margir tala um háa stýrivexti og kalla eftir því að stýrivextir lækki mjög ört. Það er nú hins vegar einu sinni svo að raunvextir eru frekar lágir í hárri verðbólgu ef litið er til stýrivaxtanna.

Ég vil gera að umtalsefni framkvæmd fjárlaga en það skiptir verulegu máli á samdráttarskeiði eins og við stefnum nú í að ríkisreksturinn fari fram af aga og festu, eins og sagt er, og að framkvæmd fjárlaga sé með réttum hætti. Ég beini því til ríkisstofnana að huga að því en við höfum verið að fylgjast með ríkisrekstrinum. Því miður verður að segjast eins og er að bæði Ríkisendurskoðun og fjárlaganefnd hafa þurft að gera allt of margar athugasemdir við ríkisreksturinn. Fjárlaganefnd mun fljótlega verða birt sex mánaða uppgjör í ríkisrekstrinum.

Örlítið var snúið út úr því sem hæstv. forsætisráðherra kom að varðandi net velferðarkerfisins en um er að ræða svokallaðar tekjutilfærslur í ríkisrekstrinum. Tekjutilfærslur eru greiðslur frá hinu opinbera án þess að á móti komi vinnuframlag eða önnur gæði. Þær eru mikilvægt tæki til tekjujöfnunar. Það skiptir verulegu máli á samdráttarskeiði eins og nú er að horfa til slíkra tekjutilfærslna. Um er að ræða lífeyristryggingar, sjúkratryggingar, fæðingarorlof, barnabætur, vaxtabætur og slíkar bætur, en þessar tilfærslur fara oft og tíðum í gegnum Tryggingastofnun ríkisins og njóta heimilin í landinu tilfærslna til annarra aðila. Það er afar mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir því að stór hluti af ríkisrekstrinum fer í gegnum slíkt en á árinu 2007 var um að ræða 156 milljarða.

Virðulegur forseti. Nú reynir á samtakamátt stjórnmálamanna. Verða leiðarlínur þannig að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, ríða á vaðið með auknum framkvæmdum, t.d. í stofnfjárfestingum sem kallar á lántökur? Að framansögðu ítreka ég þó að mikilvægast er að ná niður verðbólgunni, kalla fram stöðugleika að nýju, ná fram jafnvægisástandi og koma fjármagni á hreyfingu á nýjan leik. Það stuðlar að betra fjárhagslegu umhverfi fyrir fólk og fyrirtæki og hið opinbera á að ryðja brautina með aga og festu í rekstri sínum.