135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[15:38]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég bið hv. þm. Grétar Mar Jónsson að hlusta á það sem ég er að segja. Það skiptir verulegu máli. Ég var einmitt að tala fyrir því að á samdráttarskeiði skipti máli að standa vörð um tekjutilfærslurnar, að standa vörð um net velferðarkerfisins. Til að setja þetta í rétt samhengi er það einu sinni þannig að þriðjungur, einn þriðji af ríkisútgjöldunum, liggur í tekjutilfærslunum. Lífeyristryggingarnar eru um 40 milljarðar, sjúkratryggingar 20 milljarðar, félagsleg aðstoð um 10 milljarðar, fæðingarorlof um 6 milljarðar, 10 milljarðar vegna búvöruframleiðslu, afskriftir skattkrafna 10 milljarðar, barnabætur tæplega 10 milljarðar, vaxtabætur 7 milljarðar og ég gæti lengi haldið áfram að telja. En það sem ég er að segja, hv. þm. Grétar Mar Jónsson, er að þingheimur, virðulegur forseti, þarf að gera sér grein fyrir því að á samdráttarskeiði verður þetta net velferðarkerfisins að vera til og við verðum að hlúa að því.

Auðvitað má gott bæta og við höfum talað fyrir því, hv. þingmenn, að standa vörð um velferðarkerfið hér á landi en það má kannski vera svo að þegar einhverjir kalla á það, hvort sem er inni á Alþingi eða úti í atvinnulífinu eða inni á heimilunum, að það eigi að draga úr ríkisútgjöldum vilji menn fara í tekjutilfærslurnar. Það er þá gott að vita til þess að fyrrum jafnaðarmaðurinn hv. þm. Grétar Mar Jónsson ætli sér að standa vörð um tekjutilfærslurnar.