135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[15:39]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég lýsi ánægju með það að við ræðum efnahagsmál á hv. Alþingi og þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að hafa efnt til þessarar umræðu. Þetta er það sem allir eru að hugsa um og vissulega ber vel í veiði að einmitt skuli vera kallað til fundar á Alþingi nú þar sem mér heyrist að stjórnmálamenn hafi margt um málið að segja og mælendaskrá er löng.

Það fer ekkert á milli mála að við stöndum frammi fyrir erfiðleikum í efnahagslífinu og ríkisstjórnin er gagnrýnd fyrir að taka ekki á vandanum, grípa ekki til aðgerða. Eins og kom fram hjá hæstv. ráðherra hefur vissulega eitthvað verið klórað í bakkann, ef þannig má að orði komast, en allt hefur þetta verið heldur máttlaust. Það er vissulega búið að styrkja gjaldeyrisvaraforðann þannig að hann er 500 milljarðar í dag — en það er bara ekki nóg. Það þarf að gera miklu betur í þeim efnum ef Seðlabankinn á að geta gegnt því hlutverki sem hann á að gegna, að geta verið lánveitandi til þrautavara.

Sveiflur í hagkerfinu okkar eru svo sem ekki nýtt mál. Við búum við þær sérstöku aðstæður að við erum með fljótandi krónu í þessu litla efnahagskerfi okkar en erum bundin í hinn endann, ef þannig má að orði komast, með því að vera hluti af stærri heild, vera hluti af hinum innri markaði Evrópusambandsins og taka þátt í fjórfrelsinu en síðan bindur íslenska krónan okkur alltaf í hinn endann. Þetta er sú stóra spurning sem mér finnst að við þurfum að velta fyrir okkur og hefur ekki komið mikið til umfjöllunar á þessum fundi: Hvað getum við búið lengi við þessar aðstæður og er framtíð í þeim? Vissulega kom hæstv. utanríkisráðherra örlítið inn á það að gjaldmiðillinn nyti ekki trausts sem er vissulega hluti af vandanum en enginn hefur gengið svo langt í umræðunni að nefna það að til lengri tíma litið gæti það orðið lausn fyrir Ísland að gerast aðili að Evrópusambandinu. Það hefur ekki verið nefnt hér einu orði. En auðvitað er það eitt af því sem þarf að ræða og hæstv. forsætisráðherra lét þau orð falla í vor á fundi í mínu kjördæmi norður á Akureyri að í haust ætlaði Sjálfstæðisflokkurinn að efna til fræðslufunda, eins og ég skildi það, um Evrópusambandið. Það verður mjög fróðlegt að fylgjast með því hvenær sú fundaherferð fer í gang og hversu langt verður gengið í þeirri umræðu.

Auðvitað er þetta allt saman ein umræða. Það er ekki hægt að skipta þessari umræðu upp í efnahagsmálaumræðu, atvinnumálaumræðu og Evrópuumræðu. Þetta er allt sama umræðan. Hún á að fara fram og hún verður að fara fram. En eins og ég segi er skammt stórra högga á milli og auðvitað er það ástand sem nú er að skapast í þjóðfélaginu farið að minna óþægilega mikið á ástandið sem ríkti á árunum 1991–1995 þegar segja má að sömu flokkar hafi verið í stjórn, Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur. Þá var mjög erfitt ástand á Íslandi og það var gríðarlegt vonleysi í landinu, það var vonleysi hjá fólki um framtíðina og það flutti úr landi í stórum stíl. Þá var það náttúrlega Framsóknarflokkurinn sem kom að málum, (Gripið fram í: Nema hvað?) nema hvað, þannig að nú sýnist mér að það gæti farið að styttast í að hann verði aftur kallaður til ábyrgðar. Vissulega er það allt saman tilhlökkunarefni.

Það vill svo vel til að það er alltaf kosið annað slagið í þessu landi og það getur allt gerst í kosningum eins og við þekkjum. Miðað við þær ræður sem komu fram hjá foringjum ríkisstjórnarinnar var svo sem ekkert óskaplega mikið á þeim að græða en engu að síður skil ég þetta þannig að Samfylkingin hafi gríðarlega sterka stöðu í ríkisstjórninni og ráði í raun för. Hæstv. utanríkisráðherra sagði að það væri ekki hagstjórnartæki til styttri tíma að nýta orkuna. Hvað var hún að segja með þessu þegar við vitum að það sem skiptir mestu máli núna er að auka hagvöxtinn? Forsætisráðherra sagði reyndar: „framleiðsla, framleiðsla, framleiðsla“ og þá var hann náttúrlega að tala um að auka verðmætasköpun í landinu. Samfylkingin virðist líta allt öðrum augum á þetta og formaður Samfylkingarinnar segir að það sé ekki hagstjórnartæki til styttri tíma að nýta orkuna. Auðvitað vitum við hvað Samfylkingin hefur verið að gera í þeim efnum núna á þessu sumri, fresta framkvæmdum á Norðurlandi sem skipta gríðarlega miklu máli fyrir Norðurland og fyrir þjóðfélagið í heild vegna þess að það þarf að auka verðmætasköpunina til þess að ná upp hagvextinum. Eru hv. þingmenn búnir að gera sér grein fyrir því að Ísland er á botninum innan OECD hvað varðar hagvöxt? Á botninum. Plús 0,4 í ár og mínus 0,4 á næsta ári, Ísland. Þetta er einkunnagjöfin sem ríkisstjórnin fær frá OECD. Miðað við orð hæstv. utanríkisráðherra sé ég ekki að það sé nein hreyfing í þá átt að auka hagvöxtinn.

Það var líka athyglisvert að heyra hæstv. forsætisráðherra segja að forustumenn ríkisstjórnar hefðu forðast innihaldslausar yfirlýsingar. Ekki veit ég nákvæmlega hvað hann var að fara með því að segja þetta en ég held því miður að það verði að segjast að hann er ekki alveg saklaus af því að hafa komið fram með innihaldslitlar yfirlýsingar eins og þegar hann sagði á vordögum áður en þingið fór heim að botninum væri náð í sambandi við fall krónunnar og annað slíkt. Það var ekkert annað en óskhyggja, hann hafði ekkert fyrir sér í því. Svo hélt krónan áfram að falla.

Eins vil ég nefna þau orð sem hann lét falla á aðalfundi Seðlabankans — það er næstum hálft ár síðan sá fundur fór fram — þá talaði hann um að endurskoða þyrfti peningamálastefnuna og að það eigi að fá færustu sérfræðinga innan lands og erlendis til að fara í þá vinnu. Nú er hann á fullri ferð á flótta frá þessari yfirlýsingu sinni miðað við nýlegt viðtal við hann í einu dagblaðanna. Mér finnst ekki að hann hafi alveg efni á því að tala með þeim hætti að yfirlýsingarnar hafi allar verið svo ábyrgar og hafi haft svo mikið á bak við sig fyrir utan það hversu gríðarlegt samstöðuleysið er á milli stjórnarflokkanna sem er ekki til að auka traust á Íslandi og ekki til að auka traust á fjármálastefnunni eða efnahagsstefnunni. Margt af þessu er heimatilbúið, mjög margt af því sem veldur stöðunni þó að enginn neiti því ástandi sem uppi er almennt á fjármálamörkuðum. Þessi lánsfjárkreppa hefur líka áhrif hér. Talandi um hana er það líka athyglisvert þegar horft er á spá OECD um hagvöxt að þekkt fjármálaþjónustulönd, bæði Sviss og Lúxemborg, eru með bærilegan hagvöxt bæði í ár og á næsta ári. Það er ekki þannig að þetta sé eingöngu út af ástandi á fjármálamörkuðum heimsins.

Ég ætla ekki að draga neina fjöður yfir það að ég tel mjög mikilvægt að auka hagvöxtinn. Það á að vera forgangsmál núna og þess vegna er það skylda ríkisstjórnarinnar að setja ekki fótinn fyrir það sem er þó að gerast í landinu og varðar það að fjölga störfum og auka hagvöxt. Þá er ég að tala um uppbyggingu áliðnaðarins og það á við bæði fyrir norðan og fyrir sunnan. Vissulega kom skoðanakönnun í gær sem sagði að fólk væri ekki áhugasamt um að fjölga álverum en hins vegar var það ánægjulegt að um það að nýta orkuna til atvinnusköpunar var allt annað upp á teningnum og fyrir því er stuðningur í landinu. Það er eitt af leynivopnum okkar í þeirri stöðu sem við erum í í dag að eiga þessa orku sem ekki hefur verið nýtt og er endurnýjanleg og er upplögð til að fjölga störfum þó að vissulega ætli ég ekki að segja að það eigi að ganga eins langt og þeir öfgafyllstu geta hugsað sér. Við þurfum að sjálfsögðu að gæta þess að skerða ekki okkar dýrustu og dásamlegustu náttúruperlur.

Af því að síðasti ræðumaður talaði um agaðan ríkisrekstur ætla ég að ljúka máli mínu með því að segja að auðvitað veit ég ekki hvernig það fjárlagafrumvarp kemur til með að líta út sem kynnt verður eftir mánuð en eitt sem vakti mikla athygli þegar síðasta fjárlagafrumvarp kom fram — þegar þenslan var enn þá mikil — var að þá kom ríkisstjórnin fram með þenslufjárlagafrumvarp. Það voru slæm skilaboð inn í þjóðfélagið eins og ástandið var þá.