135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[15:57]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Umræðan um efnahagsmál sem fram hefur farið til þessa hefur um margt verið fróðleg og það má segja að af hálfu ríkisstjórnarinnar standi upp úr þau skilaboð að vandinn sé töluverður og við honum séu engar einfaldar lausnir. Það er alveg rétt. Ég er algjörlega sammála þessari greiningu. Það er töluverður vandi. Hann er þó ekki svo að menn þurfi eða eigi að nota stærstu lýsingarorð til að lýsa honum eða mála dekkstu mynd á vegginn sem unnt er. Vegna þess að það mundi engum greiða gera. Íslenskt efnahagslíf er að mörgu leyti sterkt og þó að vandi sé á ferðum um þessar mundir þá er það ekki svo að öll þjóðarskútan sé að farast.

En það sem mér finnst líka standa upp úr er að svörin við því hvernig eigi að vinna sig út úr vandanum eru fátækleg. Forsætisráðherra benti að vísu á það sem ég tek undir að hluti af úrræðunum er að skapa meiri verðmæti í þjóðfélaginu. Nýta auðlindir lands og sjávar og framleiða meiri verðmæti. Það er alveg rétt. Ég er algjörlega sammála því. Það eigum við að gera. Við eigum ekki að gera langt hlé á uppbyggingu orkufreks iðnaðar hér á landi. En við eigum heldur ekki að ráðast í næstu framkvæmdir svo fljótt að þenslan vegna þeirra komi fram áður en náðst hefur jafnvægi í íslensku efnahagslífi. Því þá værum við einfaldlega að kynda undir verðbólguna áður en núverandi eldsmatur verður til þurrðar genginn. Menn verða að gæta að tímasetningum varðandi uppbyggingu orkufreks iðnaðar.

Að öðru leyti var ekki margt sem kom fram og ég held að það sé kannski vegna þess að ríkisstjórnin er ekki búin að koma sér saman um frekari aðgerðir og það kemur mér svo sem ekki á óvart. Í fyrsta lagi þarf að skoða, og ég held að ríkisstjórnin verði að horfast í augu við það að sá vandi sem er uppi verður ekki leystur nema með því að menn taki á ríkisfjármálunum. Það hefur verið umtalsverður vöxtur í ríkisfjármálum á undanförnum árum. Útgjöld fjárlaga jukust frá ríkisreikningi 2006 til fjárlagafrumvarps 2008 um 90 milljarða kr. eða um 26%. Það sýnir líka að ríkisstjórnin var algjörlega andvaralaus fyrir því sem fram undan var þegar hún gekk frá fjárlagafrumvarpi sínu á síðastliðnu hausti.

Það er dálítið merkilegt rannsóknarefni sem menn ættu kannski að kalla eftir svörum við. Hvernig stendur á að ríkisstjórnin flaut svona sofandi að feigðarósi? Það er alveg greinilegt að ríkisstjórnin trúði því fram á síðasta dag, þegar komið var fram að páskum á þessu ári að það væri allt í lagi og að það mundi ekkert gerast. Það væri hægt að sigla skútunni áfram undir fullum seglum þrátt fyrir þá váboða sem þá voru uppi og búnir að vera sýnilegir um langa hríð. Enda féll gengið eins og hendi væri veifað og hér kom fram í umræðunni að gengið hefði lækkað um 40%. Það er mikil lækkun. En við skulum ekki dvelja við það. Það er seinni tíma mál að kalla eftir skýringum á því hvers vegna ríkisstjórnin var svona andvaralaus því í því felst mikil ábyrgð og ráðherrarnir hafa ekki staðið undir ábyrgð sinni hafi þeir ekki, eins og bersýnilegt er, gert sér grein fyrir stöðu mála.

En það hlýtur að koma fram, ekki seinna en þegar næsta fjárlagafrumvarp verður lagt fram eftir réttan mánuð, hvernig ríkisstjórnin hyggst taka á með ríkisfjármálin að vopni til þess að koma á jafnvægi í íslensku efnahagslífi. Ef ríkisstjórnin sýnir ekki neinn dug í þeim efnum í því fjárlagafrumvarpi þá er ríkisstjórninni ekki við bjargandi. Það þýðir ekkert að fresta einhverjum framkvæmdum. Það þýðir ekki að fresta byggingu háskólasjúkrahúss um eitt ár eða fresta einhverjum jarðgöngum um eitt ár til þess að ná fram hagstæðum tölum í fjárlagafrumvarpinu. Það verður að fara inn í ríkisreksturinn sjálfan og lækka hann. Ég hygg að ríkisstjórnin viti þetta því allir fróðir menn á þessu sviði benda á það. Þetta er það sem verður að gera til þess að koma á jafnvægi í íslensku efnahagslífi. Ef það er ekki gert þá ná menn ekki tökum á því. Þá verður áframhaldandi flökt á íslensku gengi og áframhaldandi viðskiptahalli og áframhaldandi verðbólga.

Það stendur allt og fellur með ríkisstjórninni, virðulegi forseti, í þessum efnum. Hvort hún hafi kjark og þor til þess að taka á ríkisfjármálunum sjálfum. Ég tel hins vegar að ríkisstjórnin eigi á næstu árum að stefna að uppbyggingu þjóðfélagsins. Hún eigi að vera djörf í því að byggja upp innviði samfélagsins sem gerir okkur betur kleift að framleiða meiri verðmæti með hagkvæmari hætti en nú er. Það er fjárfesting sem borgar sig rétt eins og fjárfesting í stóriðju og þess vegna á ekki að fresta þannig framkvæmdum. En hún verður að taka niður rekstrarkostnaðinn. Það er engin þægileg leið í þeim efnum, virðulegi forseti. Það er ákaflega þægilegt við þessar aðstæður að tala um að lækka skatta eða bæta við útgjöld í ýmsa málaflokka velferðarkerfisins sem er örugglega vel hægt að rökstyðja með góðum rökum að þörf sé á en hleypi menn sér út í það þá er bara verið að velta á undan sér vandanum og gera hann stærri þegar að því kemur að einhverjir aðrir koma að verkinu og fara að taka á því. Þess vegna verður að taka á málinu strax.

Við þessu finnst mér engin svör hafa komið fram hjá ríkisstjórninni í þessari umræðu. Hvað hyggst hún gera við ríkisfjármálin? Ætlar hún að senda þau skilaboð til íslensku þjóðarinnar að allt geti gengið áfram eins og verið hefur? Menn geti bara bætt í hér og bætt í þar. Það þurfi hvergi að koma neitt við og hægt sé að koma á jafnvægi í íslensku efnahagslífi án þess að það komi við nokkurn mann. Ráðherrarnir sjálfir hafa þó sagt að það sé engin einföld lausn til. Og það er engin einföld lausn til. Þegar bæði núverandi ríkisstjórn og sú sem á undan sat hafa bætt svona miklu við ríkisútgjöldin þá er verið að auka vandann vegna þess að það þarf að taka á þeim. Það kann að vera einhvern tíma síðar þegar verðmætasköpunin í þjóðfélaginu hefur aukist á nýjan leik að þá sé hægt að bæta aftur við reksturinn. En menn hafa á undanförnum þremur, fjórum árum gengið allt of langt í að auka við ríkisútgjöldin miðað við þá verðmætasköpun sem er í þjóðfélaginu. Það hefur einfaldlega ekki verið til fyrir öllum þessum nýju útgjöldum.

Virðulegi forseti. Ég held að ríkisstjórnin þurfi líka að leggja mikið á sig og sýna að hún sé ríkisstjórn en ekki ríkisrekandi. Ríkisstjórn sem stjórnar efnahagsmálunum. Það felst í að koma á jöfnuði í viðskiptum við útlönd. Á meðan viðskiptahallinn er eins og hann er og hefur verið á undanförnum árum er verið að grafa undan íslensku krónunni. Þá er verið að grafa undan þeim lífskjörum sem fólkið býr við í dag. Þá erum við að eyða um efni fram, búa til skuldir sem verður að borga og þær verða ekki borgaðar nema með því að skerða lífskjörin. Viðskiptahallinn á undanförnum árum hefur verið alveg hrikalegur. Hann hefur að vísu mikið til orðið til vegna stóriðjuframkvæmda og við skulum trúa því að það sé hægt að taka þær skuldir til hliðar og segja að tekjur af þeim framkvæmdum muni borga þær skuldir. Ég held reyndar að það sé ekki alveg rétt. Það sé rétt að mestu leyti en ekki að öllu leyti.

Frá 2004 hefur viðskiptahallinn verið og fram á mitt þetta ár 423 milljarðar kr., 423.000 millj. kr. Á þessu ári 42 milljarðar á sjö mánuðum. Það verður að vera jafnvægi. Ríkisstjórnin hefur mörg stjórntæki sem hún getur beitt til þess að ná niður hallanum og koma á jöfnuði og hún hefur stóran þingmeirihluta til að koma fram málum sínum ef þörf er á lagasetningu. Þess vegna er hún að bregðast hlutverki sínu ef hún tekur ekki á þessum vanda sem er einn sá allra stærsti í íslensku efnahagslífi.