135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[16:21]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég skal alveg fara yfir það í góðu tómi með hv. þingmanni hvaða hugmyndir ég og skoðanasystkin mín sjáum fyrir okkur og möguleika á fjölbreyttum sviðum atvinnulífs. Í raun er þar allt milli himins og jarðar og sérstaklega að veðja á framsæknar tækni- og þekkingargreinar, á fjölbreytni, á nýsköpun í litlum og meðalstórum fyrirtækjum sem er yfirleitt á byggðu bóli talin framsækin atvinnustefna og nútímaleg en ekki sú undarlega staða sem uppi er á Íslandi að það er eins og við séum að uppgötva iðnbyltinguna hina gömlu núna og sjáum helst ekkert í því nema bara álbræðslur. Gamla iðnbyltingin gekk þó út á alls konar verksmiðjur og járnbrautarteina og ýmislegt en hér á Íslandi er þungaiðnvæðing 21. aldarinnar að hætti Sjálfstæðisflokksins bara að bræða ál. Það er ekkert annað sem kemst að. Það er alveg með endemum.

Ég hef t.d. fagnað og stutt uppbyggingu aflþynnuverksmiðju á Akureyri. Af hverju? Af því að það er meðalstór iðnaðarkostur sem smellpassar inn í það samfélag, notar hóflegt magn af orku, mikið af heitu og köldu vatni, hrein framleiðsla, hátæknistörf og hefur allt með sér. Það er ósköp einfaldlega þannig að við tökum afstöðu til þeirra hluta sem í boði eru. Viljum stuðla að fjölbreytni og nýsköpun en ekki sitja bara föst í þessari eymd nauðhyggjunnar að Íslendingar eigi enga aðra kosti í stöðunni en að falbjóða orkuna á útsöluverði og leggja íslenska náttúru undir að henni óbættri. Hún er ekki metin á eina einustu krónu eins og erlendir aðilar hafa bent okkur á að vanti inn í útreikninga um þjóðhagslega heildararðsemi þessara framkvæmda.

Af hverju hefur t.d. ekki verið gerð sú breiða úttekt á þjóðhagslegri arðsemi stóriðjufjárfestinganna sem Efnahags- og framfarastofnun Evrópu hefur lagt til við íslensk stjórnvöld í mörg ár? Þolir það ekki dagsins ljós hversu lítill nettóvirðisaukinn er að lokum, sem eftir verður í íslenska hagkerfinu þegar við tökum þarna inn á okkur dýrustu störf í heimi sem það er að byggja þau upp með þessum hætti? Er það álitlegt fyrir skuldsettasta hagkerfi innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar að veðja á þá tegund atvinnuuppbyggingar þar sem hvert starf kostar fleiri hundruð milljónir í fjárfestingu?