135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[16:33]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér um efnahagsmálin, aðgerðir og aðgerðaleysi í þeim efnum, hverjum er að kenna og hvað og hvar upphófst sá hrunadans sem sumir vilja kalla svo nú á síðustu missirum.

Það er fróðlegt að kíkja stundum á bloggheimana. Þar hefur að undanförnu gengið sú skrýtla að hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde væri einstaklega laginn að finna upp sandhauga til að stinga höfðinu í og þegar talið bærist að efnahagsmálum horfði hann í kringum sig eftir næsta sandhaug. Þetta eru bloggheimarnir og forsætisráðherra hefur reyndar sjálfum verið tíðrætt um þá í kringum umræðuna um efnahagsmál. Og stendur hann nú upp og veltir sjálfsagt fyrir sér hvar hann geti fundið þann næsta.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, komst alveg réttilega að orði áðan þegar hún sagði að hagvöxtur síðustu ára hefði verið drifinn áfram fyrst og fremst af skuldasöfnun, skuldsetningu heimila, skuldsetningu þjóðarbús o.s.frv. Innri verðmætasköpun í samfélaginu hefði verið mjög takmörkuð. Það gefur augaleið að efnahagslíf, efnahagskerfi sem er rekið áfram með þessum hætti hlýtur fyrr eða síðar að komast í þrot.

Þingmönnum Sjálfstæðisflokksins er einkar tamt að kenna alþjóðlegri kreppu um. Vissulega skal ekki gert lítið úr þeim vandamálum sem koma erlendis frá á fjármálamörkuðum en engu að síður er jafnhættulegt að viðurkenna ekki eigin mistök, að viðurkenna ekki hvað fór úrskeiðis og læra af því og breyta.

Seðlabankinn hefur haft verðbólgumarkmið síðastliðin sjö ár. Aðeins eitt ár af þessum sjö árum hafa þau markmið náðst. Það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum sem við stjórnvölinn sátu. Og hvað eftir annað komu aðvaranir frá Seðlabankanum, seðlabankastjórum, um að það væri mikið ójafnvægi í þjóðarbúskapnum. Einu sinni nefndi hann þetta ógnarjafnvægi, það hlyti að springa, og hann varaði við þeirri grimmu stóriðjuþenslu, skattalækkunum og þensluhvetjandi áhrifum sem ríkisvaldið stóð að. Afleiðingin þarf þess vegna ekki að koma stjórnarherrunum og stjórnvöldum hér á óvart.

Það sem ég kallaði að stinga höfðinu í sandinn er að viðurkenna ekki þessi efnahagsmistök. Það held ég að sé hin veika hlið efnahagsstjórnunarinnar núna sem hæstv. forsætisráðherra Geir H. Haarde fer með. Að viðurkenna ekki eigin mistök, viðurkenna ekki hvað hefur misfarist og breyta til. Það verður ekki keyrt áfram á sömu braut. Aðgerðir í efnahagsmálum sem miða að því að halda áfram þessari grimmu misskiptingu, áframhaldandi skuldasöfnun erlendis, áframhaldandi stóriðjuuppbyggingu og stóriðjuæði o.s.frv. geta ekki leitt til annars en að framlengja þetta ógnarjafnvægi sem er ekkert lengur í jafnvægi. Þetta ógnar afkomu íslensks þjóðarbúskapar til næstu ára með verðbólgu upp á 14,5%, með hæstu stýrivexti í heimi upp á sömu tölu. Það getur enginn ábyrgur forsætisráðherra sagt að þetta sé eitthvað „að láta á sér kræla“ eins og hæstv. forsætisráðherra. sagði um verðbólguna áðan. Slíkt er ábyrgðarlaust að mínu mati.

Það sem gerst hefur á undanförnum árum er að auðurinn hefur safnast á örfárra manna hendur og gerir enn og einmitt í þeim tilfærslum sem núna eru gerist það áfram. Og hverjir eiga að taka á sig þennan skell, þennan samdrátt? Jú, það er nefnt hér áfram, launafólk. Launafólkið á að gera það áfram. Við sjáum þann grimma slag nú sem ekki síst kvennastéttir standa í. Var ekki lofað sérstöku átaki í að bæta kjör kvennastétta? Átti það ekki að vera eitt fyrsta verk ákveðins stjórnmálaflokks sem nú er í ríkisstjórn? Kjarabarátta ljósmæðra sýnir hvar sú barátta stendur. Ég sendi ljósmæðrum einlægar baráttukveðjur í baráttu þeirra fyrir bættum kjörum og virðingu fyrir starfinu.

Leggja á þunga áherslu á að styrkja innviði samfélagsins, ekki síst á þeim landsvæðum sem hafa orðið undir í þeirri þenslu sem gekk yfir landið á undanförnum missirum, á þeim svæðum þar sem hagvöxtur var neikvæður. Tökum til dæmis Vestfirði, Norðurland vestra. Það er ekki gert heldur þveröfugt. Birtingarmyndin er t.d. niðurskurður í póstþjónustu á þessum svæðum. Það var þá það sem menn héldu að Vestfirðingar þyrftu helst á að halda, að skera niður og fækka póstburðardögum og fækka póstafgreiðslum. Er það svo? Það eru skilaboðin sem ríkisstjórnin gefur. Og þegar kemur ákall — ég er með bréf frá sveitarstjóra Reykhólahrepps sem sendir ákall til samgönguráðherra, Kristjáns Möllers, um að fresta niðurskurðaraðgerðum Íslandspósts á þjónustu í sveitarfélaginu. Því er ekki svarað það ég veit. Öðruvísi mér áður brá þegar Kristján Möller, hæstv. núverandi samgönguráðherra, var óbreyttur þingmaður og við börðumst hér hlið við hlið fyrir þessari þjónustu, fyrir póstþjónustunni um allt land. Jafnræði þegnanna. Við börðumst fyrir lækkun flutningskostnaðar á landsbyggðinni. Ekkert bólar á því heldur.

Þegar forsætisráðherra kallar eftir vinnuaflsfrekum aðgerðum, að nú þurfi einmitt að styðja slíka starfsemi, hvernig birtist það þá? Í frumvarpi sem á að heimila hömlulausan innflutning á hráu kjöti, innleiða matvælalöggjöf Evrópusambandsins með þeim hætti að hér geti flætt inn hömlulítið eða hömlulaust hrátt kjöt og hráar kjötvörur sem allir vita að munu á mjög skömmum tíma eyðileggja innlenda matvælavinnslu, innlenda kjötvinnslu og verða jafnframt ógn við íslenskan innlendan landbúnað, jafnframt því sem það ógnar matvælaöryggi og sjálfstæði þjóðarinnar hvað það varðar. Það eru þúsundir starfa bundnar í matvælavinnslu í landinu. Þessu finnst ríkisstjórninni allt í lagi að slátra ef marka má áhuga þeirra á að koma umræddu frumvarpi, illræmdu frumvarpi um innleiðingu matvælalöggjafar Evrópusambandsins inn.

Sjálfstæðisflokkurinn kennir Samfylkingunni um að hún píni þetta áfram. Kannski getur hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Sunnlendinga, Suðurlandskjördæmis, vitnað um það hvort það sé Samfylkingin sem er að keyra íslenskan landbúnað út af borðinu með þeim hætti að heimila innflutning á hráu kjöti og stefna þar með heilbrigði dýra og hollustu matvara í hættu. Nei, ég held að Sjálfstæðisflokkurinn verði fá að standa fyrir sínu í þeim efnum þó að allir viti og það liggur á Samfylkingunni að hafa erft landbúnaðarstefnu Alþýðuflokksins gamla sem hugsaði meira um það hvernig stuðla mætti að og efla aukinn innflutning á landbúnaðarvörum en að efla innlenda framleiðslu.

Norðmenn leggja höfuðáherslu á að standa vörð um sinn landbúnað. Það er pólitískt markmið að það sé gert og að tryggja matvælaöryggi og sjálfsforræði þjóðarinnar á þeim vettvangi og allar aðrar aðgerðir taka mið af því. Hjá okkur er þessu öfugt farið. Við hugsum eða af hálfu stjórnvalda, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, er samkvæmt frumvarpinu lögð höfuðáhersla á innflutninginn, markaðinn og íslenskur landbúnaður og íslenskt matvælaöryggi á síðan að laga sig að því.

Ég krefst þess, frú forseti, að þessu illræmda matvælalöggjafarfrumvarpi sem á að heimila innflutning á hráu kjöti verði bara endanlega ýtt út af borðinu og samningar teknir upp á ný við Evrópusambandið með hagsmuni Íslendinga, íslensks landbúnaðar, íslenskra neytenda og íslenskrar þjóðar fyrir brjósti. (Forseti hringir.) Og það verði krafa sem við setjum fram á þessu þingi, frú forseti.