135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[16:57]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er engin þversögn í því annars vegar að vilja styðja við núverandi stýrivaxtastefnu Seðlabankans og þannig stuðla að því að við náum sem fyrst tökum á verðþróun undanfarinna missira og svo hinu að vilja búa til sjálfbæran kost í gjaldmiðilsmálum þjóðarinnar til lengri tíma litið.

Hv. þm. Bjarni Harðarson talar um að það sé eðlilegt að grípa til þensluhvetjandi aðgerða við núverandi aðstæður. Forsenda stýrivaxtastefnunnar, forsendan (Gripið fram í.) sem liggur til grundvallar stýrivaxtastefnunni, er að vaxtatækinu sé beitt til þess að ná tökum á þenslu. Við sjáum í dag að það er mikil verðbólga. Við sjáum í dag að það er 17% viðskiptahalli og við þær aðstæður er grafið undan stýrivaxtastefnu Seðlabankans og grafið undan væntingum um verðhjöðnun ef menn ætla að ástunda mikla framkvæmdagleði á þessum tímapunkti. Það er jafnvitlaust að efna til fjárfestingafyllirís núna eins og til neyslufyllirís. Það er ekki tímabært að gera það í 15% stýrivöxtum, hv. þingmaður.

Það sem ríkisstjórnin hefur hins vegar gert og er hárrétt er að grípa til aðgerða til þess að tryggja eins og kostur er að bankarnir geti haft laust fé undir höndum, að komið sé í veg fyrir frost á íbúðalánamarkaði. Þannig er reynt að tryggja að verðfall á íbúðalánamarkaði verði ekki óhæfilegt og reynt að stuðla þannig að því að hjól efnahagslífsins snúist áfram og að við köllum ekki óþarfa kreppu yfir fólkið í landinu. Það er það sem við erum að gera en að efna til stórfelldrar veislu, þensluveislu að hætti framsóknarmanna, er óskynsamlegt við núverandi aðstæður.