135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[17:03]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki í valdi ríkisstjórnarinnar að veifa töfrasprota og koma á stöðugleika með því í einu vetfangi. Ég vil hins vegar benda hv. þingmanni á það, hafi farið fram hjá honum efnismikil ræða hæstv. utanríkisráðherra hér í upphafi umræðunnar, að þar var nákvæmlega farið yfir þetta í smáatriðum. Þar var greint hversu mikilvægt það væri sem fyrsta skref, án þess að ég ætli nú að endursegja þá ágætu ræðu í smáatriðum, að allir aðilar, aðilar vinnumarkaðarins, fyrirtæki, reyndu að draga sem kostur er úr verðbólguvæntingum til næstu mánaða. Það er eitt mikilvægasta atriðið sem við stöndum frammi fyrir. Í því samhengi vil ég vara sérstaklega við miklum gælum við stórfelldar álframkvæmdir. Ég vil líka vara við innstæðulausum loforðum á borð við þau sem frjálslyndir hafa hér staðið fyrir um aukningu þorskkvóta sem enginn vísindalegur grunnur er fyrir. Ég vil líka vara við að menn kalli um of á taumlausar opinberar framkvæmdir. Markmið stýrivaxtastefnunnar er jú að hægja á. (Gripið fram í.)

Framsóknarflokkurinn má ekki verða svo upptekinn af hinni viðstöðulausu þeytivindu æsingsins að hann geti ekki jafnað sig á (BjH: Þarf að hægja á?) ofurvitleysunni sem hann hefur keyrt í efnahagsstefnu undanfarinna ára. Það lá alltaf fyrir, meira að segja í spám Framsóknarflokksins sjálfs, að neikvæður hagvöxtur yrði á þessu ári. Það er því ástæða til þess að Framsóknarflokkurinn hugleiði aðeins hver var grunnurinn í efnahagsstefnu flokksins.