135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[17:06]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér grein fyrir því að ríkisstjórnin hefur ekki vald yfir neinum töfrasprota, það hefur svo sannarlega sýnt sig á undanförnum tímum og mánuðum. En það er eitt sem rekst illilega á í málflutningi hv. þingmanns, þ.e. þegar hann talar um að mikilvægt sé að skapa stöðugleika en í dag búum við við 14,5% verðbólgu, þrjá síðustu mánuði rúmlega við 11% verðbólgu. Hv. þingmaður segir: Það er ónýtur gjaldmiðill sem við höfum, varnirnar við gjaldmiðilinn kosta þjóðfélagið 100 milljarða.

Að mati hv. þm. Árna Páls Árnasonar er verið að verja ónýtan gjaldmiðil og nemur kostnaðurinn við það um 100 milljörðum kr. á ári. Hvernig er þá hægt að skapa stöðugleika?