135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[17:07]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er góð spurning hjá hv. þingmanni og við henni er ekkert einfalt svar. Þetta er einfaldlega sú staða sem við stöndum frammi fyrir í dag, þ.e. að við erum með gjaldmiðil sem hentar ekki þörfum íslensks atvinnulífs og efnahagslífs og við þurfum að reyna að koma á stöðugleika með þennan gjaldmiðil sem skoppar þó eins og korktappi. (GÁ: Það er ríkisstjórnin sem er eins og korktappi.) Það er með þann grunn sem við verðum því miður að reyna að vinna út frá.

Hins vegar er ég þakklátur fyrir og glaður að heyra þau jákvæðu viðhorf sem hv. þingmaður hefur hér í frammi til þess að við tökum upp nýjan gjaldmiðil, sem ég held að sé grundvallaratriði fyrir hag almennings í landinu og fyrirtækjanna í landinu. Einungis þannig komumst við til langframa út úr viðvarandi of háu vaxtastigi sem síðustu áratugina hefur verið hærra en í samkeppnislöndum okkar vegna þess að við höfum haft gjaldmiðil sem enginn hefur trú á og enginn hefur viljað halda í ótilneyddur.