135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[17:13]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eru það eðlilegar aðstæður í efnahagslífi að fyrirtæki þurfi að stunda spekúlasjónir með gjaldmiðla til þess að reyna að verja hagsmuni sína? Nei. (Gripið fram í.) Er það eðlilegt að almenningur þurfi nauðbeygður að reyna að flýja íslenska krónu og umhverfi hennar eins og almenningur hefur gert undanfarin ár og sótt í auknum mæli í erlend lán og þarf þá líka að fara að stunda gjaldeyrisspekúlasjónir? Nei. (SJS: Nei, vegna þess að stjórnvöld bregðast.)

Auðvitað hlýtur það að vera meginmarkmið stjórnvalda að hafa gjaldmiðil sem fólk og fyrirtæki hafa trú á, svo einfalt er það. Gjaldmiðill sem fyrirtæki geta átt viðskipti með í öðrum löndum og einhver hefur smátrú á. Þannig er það ekki með íslenska krónu, það er einfaldlega ekki þannig.

Vegna ummælanna um atvinnuleysi — sú fjármálastefna sem keyrð er í dag miðar að samdrætti. Sá samdráttur mun kosta atvinnuleysi, við sjáum þegar glitta í atvinnuleysi nú. Það er ekki eins og íslenska krónan forði okkur frá atvinnuleysi, því miður.