135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[17:55]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst varðandi svar hv. þingmanns, ég þakka honum fyrir greinargóð svör varðandi Seðlabankann. Hann telur núna óráð að gera lagabreytingar. Þá er rétt að rifja það upp að ekki er eingöngu um að ræða lagaumhverfi. Það er í gildi samkomulag milli ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans um ákveðin markmið í peningamálastefnunni. Telur þingmaðurinn koma til greina að taka það samkomulag að einhverju leyti til endurskoðunar án þess að menn gefi sér endilega fyrir fram að á því yrðu gerðar breytingar? Telur hann það koma til álita? Ber að líta svo á að greinin sem hann ritaði ásamt þingmanninum Bjarna Benediktssyni sé nú marklaus? Og hvað hefur þá breyst?

Varðandi seinna atriðið fagna ég afdráttarlausu svari hans við spurningu minni um gjaldmiðilsmálin. En það undirstrikar auðvitað enn og aftur að ríkisstjórnartungurnar eru að minnsta kosti tvær í þessu máli. Það er ekki býsna sannfærandi til þess að (Forseti hringir.) vinna traust allra þeirra aðila sem þurfa að bera traust til stjórnenda í þessum málaflokki.