135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[18:00]
Hlusta

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vísa til fyrri ummæla minna um stjórn peningamálanna og þá umgjörð sem þar er utan um höfð.

Hvað varðar fjárfestingar á Íslandi og það síðara mál sem hv. þingmaður nefndi er ég alveg sammála því að það er og hefur verið vandamál í hagkerfi okkar að þessi niðurgreiðsla, sem ég vil meina að hafi verið vegna hins sterka gengis, olli ekki bara því að peningar hafi runnið út úr landinu. Það gerði það líka að verkum að sjávarútvegurinn og framleiðslan í landinu mátti borga fyrir það. Einhvern veginn varð að borga þetta. Það eina sem kannski má segja að sé jákvætt við gengisfallið núna er það að sjávarútvegurinn og framleiðslan í landinu er þá í sterkari stöðu. Og ég vildi nefna það af því að ég kom því ekki að í ræðu minni áðan að það er eitt af stóru málunum þegar kemur að því að nýta landsins gögn og gæði að sjávarútvegurinn er og verður hryggjarstykkið í efnahagslífi okkar, ég tala nú ekki um í hinum dreifðu byggðum, og það er alveg nauðsynlegt að okkur takist að byggja betur upp þorskstofninn alveg sérstaklega og efla þessa atvinnugrein því að án þess náum við aldrei neinum árangri í byggðamálum.

Hvað varðar orkunýtinguna er ég ekki að stilla því þannig upp að það sé allt eða ekkert. Hv. þingmaður má ekki misskilja mig með það. Að sjálfsögðu verðum við að lúta skynsamlegum mörkum sem snúa að náttúruverndinni. Við viljum ekki ganga um of á náttúru landsins en um leið verðum við líka að nýta þau tækifæri sem þar eru. Okkur ber skylda til þess að gera það vegna þess að hagvöxtur í samfélaginu þýðir auðvitað betri skólar, betri elliheimili, betri sjúkrahús og allt það sem við viljum gjarnan veita. Hvort það síðan rennur til að byggja upp álver eða aðrar framkvæmdir sem hafa verið á teikniborðinu — ég minni á umræðu sem varð um framkvæmdir í Þorlákshöfn sem tengdust orkuframleiðslu á Íslandi sem því miður virðast ekki ætla að ganga eftir — eru það ekki bara álverin sem við erum að tala um. Það er sú almenna stefnumótun að nýta þá orku (Forseti hringir.) sem er í landinu til að byggja upp öflug tækifæri. Þar eru álver ekki undanskilin.