135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[18:05]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Árni Páll Árnason varaði í þingræðu við einföldunum. Hann sagði að á efnahagsvandanum væru engar einfaldar lausnir. Ég er sammála þingmanninum. Ég velti því fyrir mér hvort við getum orðið sammála um það líka að til sé nokkuð sem heitir einfeldningslegur málflutningur og ég verð að trúa hæstv. forseta þingsins fyrir því að mér fannst ekki alveg frítt við að málflutningur hv. þingmanns, talsmanns Samfylkingarinnar við þessa umræðu, væri einfeldningslegur, einkum þegar hann vék að gjaldmiðlinum, að íslensku krónunni. Vísaði hann þar í ummæli mín frá því í vor leið um að gengissig krónunnar hefði það í för með sér að þjóðin öll tæki áföllum í stað þess að afmarkaðir hópar gerðu það. Það væri ekki góður marxismi eða sósíalismi, fannst hv. þm. Árna Páli Árnasyni.

En hverjir eru valkostirnir við það að þjóðin taki öll við áföllunum, að innflutningurinn verði dýrari fyrir okkur öll? Það eru til aðrar breytur í efnahagslífinu en gengi gjaldmiðilsins, t.d. atvinnustigið. Viljum við það? Viljum við taka áföllum sem íslenska þjóðfélagið verður fyrir með því að gera hluta þjóðarinnar atvinnulausan? Ekki vil ég það. Ég verð að segja að ég fagna þeim yfirlýsingum hæstv. forsætisráðherra í upphafi þessarar umræðu í dag að það væri forgangsverkefni fyrir ríkisstjórnina að tryggja fulla atvinnu á Íslandi. Þetta er ekki sjálfgefið samanber málflutning talsmanns Samfylkingarinnar við þessa umræðu sem gefur það í skyn að hann vilji að aðrar breytur í efnahagslífinu verði þá nýttar eins og væntanlega atvinnustigið. Þegar hann gerir lítið úr því að ég vilji að þjóðin taki áföllum verður hann að horfast í augu við þann veruleika að það er hægt að svara áföllum sem efnahagslíf okkar verður fyrir með því að hluti þjóðarinnar verði án atvinnu og það er nokkuð sem skiptir hvern einstakling miklu máli. Það er mikil ógæfa að missa atvinnuna og snertir ekki einvörðungu þann sem fyrir því verður heldur alla hans fjölskyldu og þá sem nærri honum standa.

Hitt er svo annað mál að hægt er að hafa áhrif á atvinnustigið með mismunandi hætti. Það er hægt að setja fólk til starfa í olíuhreinsistöð. Störf geta orðið til í matvælaiðnaði, ferðaþjónustu, listsköpun, gerð veiðarfæra, velferðarþjónustunni, gróðurhúsarækt, við fiskvinnslu eða í áli. Hér getur stefna stjórnvaldanna skipt sköpum. Olíuhreinsistöð á Vestfjörðum verður ekki til án atbeina stjórnvalda.

Það skiptir líka máli hver aðföng fyrirtækjanna eru og tilkostnaður heimilanna, t.d. hvað varðar verð á raforku. Hvaða stefnu hafa stjórnvöld í þeim efnum? Eiga þar allir að sitja við sama borð eða á stóriðjan að sitja við annað borð en fyrirtækin í landinu almennt gera, eða heimilin? Halda menn að það sé einhver tilviljun að samningum við stóriðjufyrirtækin, fjölþjóðafyrirtækin, er haldið leyndum fyrir íslenskum heimilum og öðrum fyrirtækjum? Það er engin tilviljun. Það er nefnilega verið að mismuna. Og þeim er líka haldið leyndum fyrir Þjórsánni sem aldrei má frétta á hvaða forsendum á að fórna henni (Gripið fram í.) fyrir stóriðjufyrirtækin. Þess vegna segi ég það, hæstv. forseti, að yfirlýsingar og heitstrengingar um fulla atvinnu skipta miklu máli en þær mega aldrei verða að skálkaskjóli til að réttlæta óásættanleg náttúruspjöll og stóriðju á forsendum fjölþjóðarisa sem þegar til lengri tíma er litið er á kostnað íslensks efnahagslífs eða á kostnað íslenskrar náttúru, Þjórsárinnar eða jökulánna í Skagafirði.

Hv. þm. Pétur H. Blöndal bað okkur að gæta að orðanotkun við þessa umræðu. Við skyldum ekki tala um kreppu, hann hafði hitt bankamann í morgun sem sagði að við skyldum frekar tala um samdrátt. En gætum við orðið sammála um að það megi tala um kröpp kjör? Að tilteknir hópar í þjóðfélaginu búi við kröpp kjör, t.d. sá hópur sem á allt sitt undir okkur komið sem erum í þessum sal, fjárveitingavaldinu, löggjafarvaldinu, öryrkjarnir og aldraðir sem eiga allt sitt undir okkur komið? Ég átti í samræðum við einn slíkan í gær og fletti upp í staðtölum almannatrygginga í kjölfarið. Gera menn sér grein fyrir því að lífeyrisþegi sem ekki hefur tekjur úr lífeyrissjóðum er með eftir skatt 121 þús. kr. á mánuði? Öryrkinn 123 þús. á mánuði?

Þetta hlýtur að koma upp í hugann þegar við hlustum á hæstv. forsætisráðherra þjóðarinnar tala um mikilvægi þess að við tökum öll á í sameiningu, séum öll á sama báti. Hann sagði að við hlytum öll að hafa sama skilning á vandanum, vísaði þar til verðbólgunnar. Hann sagði reyndar og bætti því við að við gætum fagnað því að þótt verðbólgan væri mikil í og með vegna aukins kostnaðar við innflutning mundi hún ganga sjálfkrafa niður ef gengið styrktist. Hefur það gerst? Það hefur ekki gerst. Varan hefur hækkað en hún hefur ekki lækkað með þessu gengisflökti á undanförnum mánuðum. Hvers vegna vek ég máls á þessu? Vegna þess að við erum að tala um ábyrgð. Við erum að tala um hverjir það eru sem axla ábyrgð og hverjir eiga að axla ábyrgð og hverjir hafa ekki axlað ábyrgð. Hvers konar skilaboð halda menn að það séu að kjarasamningaborði ljósmæðra eða til löggæslumannsins sem er með uppsagnarbréfið í vasanum þegar hann les um það í blöðum að bankastjórar veita ofan í eigin vasa mörg hundruð milljónum kr.? Voru það ekki 600 millj. núna um daginn? Á kostnað hvers halda menn að það sé? Hvaðan koma þessir peningar? Þeir koma frá fólkinu í landinu og það skiptir mig engu máli þótt gróðinn sé fenginn á kostnað alþýðumanna á Balkanskaga eða annars staðar í heiminum. Þetta eru peningar sem heyra okkur öllum til og við erum að tala um mikilvægi þess að jafna kjörin í landinu. Ef við ætlum að taka sameiginlega á verður að gera það. Hvað er það sem liggur fyrir þessu þingi? Okkur er hótað núna í aðdraganda þingsins að ráðist verði gegn Íbúðalánasjóði. Samfylkingin sem hefur lofað okkur því að ekki verði hróflað við Íbúðalánasjóði er að hóta því að á næstu vikum verði ráðist til atlögu gegn Íbúðalánasjóði. Það er ekki víst, það er ekki alveg víst, segir hæstv. félagsmálaráðherra, að þetta muni koma íbúðalánaþegum í koll, það er ekki alveg víst. En hvað? Er það ekki mjög líklegt?

Hvað er á borði einkavæðingarmálaráðherra heilbrigðismála? Hvað fáum við til umræðu síðar í vikunni eða í byrjun næstu viku? Það eru áform um að búa í haginn fyrir einkavæðingu á heilbrigðiskerfi Íslendinga. Síðan leyfa menn sér að koma hingað upp og tala um sameiginlegt átak. Þá segi ég: Við skulum sameinast í atlögu gegn þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir. En þá gerum við það líka á þeirri forsendu að við jöfnum kjörin í landinu, við bætum kjörin hjá öryrkjanum, hjá hinum aldraða, hjá launamanninum og við setjum út af borðinu öll áform um að skerða félagsþjónustu á Íslandi.