135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[18:18]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir greinargott svar og fagna því að hann telji tilefni til að taka slíkar hugmyndir til alvarlegrar umræðu. Það er eins og kom fram hjá hv. þingmanni auðvitað þannig að við höfum öll stutt það að dreifa áhættu lífeyrissjóðanna með því að flytja fjárfestingar þeirra í ríkara mæli út fyrir landsteinana. Það verður hins vegar ekki fram hjá því horft að nú búum við í heiminum öllum við algerlega einstakar aðstæður sem enginn gat séð fyrir. Þegar kallað er eftir því, m.a. af forustunni á vinnumarkaði, bæði launþegahreyfingu og hjá atvinnurekendum, að hér þurfi að tryggja atvinnustigið eins og hv. þingmaður fór vel og rækilega og málefnalega yfir í sinni ræðu hlýtur að vera eðlilegt að þeir skoði á sínum vettvangi þau tæki og tól sem þeir sjálfir hafa yfir að ráða til þess áður en þeir fara að hrópa um aðgerðaleysi annarra aðila í samfélaginu.