135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[18:38]
Hlusta

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum nú skýrslu hæstv. forsætisráðherra um efnahagsmál enda brýnasta verkefni okkar og í reynd allra landsmanna að leysa úr þeim efnahagsvanda sem við okkur blasir. Í nær tvo áratugi höfum við notið hagsældar, hagvaxtar og aukins kaupmáttar. Við reiknuðum með bakslagi um þetta leyti, 2008–2009, en enginn sá fyrir nákvæmlega þá stöðu sem nú er uppi. Staðan í efnahagsmálum er viðkvæm, hún er ströng og erfið.

Í dag höfum við heyrt þingmenn lýsa stöðumati sem einkennist af nokkrum veigamiklum þáttum. Ég ætla að nefna átta þeirra:

Í fyrsta lagi tíðar efnahagssveiflur sem gera fjármálastýringu heimila og fyrirtækja afar erfiða. Í öðru lagi lækkandi gengi krónunnar. Í þriðja lagi gríðarlega háir stýrivextir. Í fjórða lagi alþjóðleg lausafjárvandræði sem hafa orðið til þess að erfitt er að ná í lán á þeim kjörum sem við höfum vanist á undanförnum árum, og ég nefni það að sjálfsögðu eins og aðrir hafa gert að sá lausafjárvandi er ekki síður til staðar beggja vegna Atlantshafsins en hér heima. Ég nefni líka að bankar hafa riðað til falls eins og við þekkjum í Danmörku, í Bretlandi og í Bandaríkjunum svo að dæmi séu tekin. Í fimmta lagi hækkandi hrávöruverð á alþjóðamörkuðum, hækkun matvæla- og olíuverðs. Þetta getur reyndar haft áhrif til góðs fyrir okkur líka en í nútíðinni eru þessar hækkanir alla vega erfið staða. Í sjötta lagi gífurleg skuldsetning bæði fyrirtækja og heimila í landinu. Í sjöunda lagi viðskiptahallinn. Allt leiðir þetta til áttunda þáttarins sem ég ætla að nefna og það er hin hrikalega verðbólga sem við stöndum frammi fyrir. Hún ógnar okkur öllum, heimilum í landinu, fyrirtækjum, fjölskyldum. Það er hætta á frystingu í atvinnulífinu, það er raunveruleg hætta á frystingu, það er hætta á frystingu á húsnæðismarkaði. Þetta er nokkurn veginn í grófum dráttum sú staða sem þingmenn, á þriðja tug þingmanna sem hér hafa tjáð sig, hafa nefnt.

Við þurfum að horfast í augu við þennan vanda og ekki vera hrædd við það vegna þess að í slíkum vanda, ef við horfum á hann raunhæfum augum, búa líka tækifæri, gríðarleg tækifæri, af því að í öllum þrengingum búa tækifæri. Mig langar til að nýta þann tíma sem ég hef til að gera þessi tækifæri að umtalsefni en mig langar líka að nota tímann og undirstrika nokkra þætti úr ræðu hæstv. forsætisráðherra sem mér finnst einhvern veginn að þingheimur hafi annaðhvort ekki heyrt eða ekki tekið nógu sterkt eftir, alla vega ekki gert að umtalsefni. Hvað um það, tækifærin fyrst.

Við verðum að horfa fram á veg og það eru tveir þættir sem ég vil nefna fyrst og fremst. Við þurfum samstöðu, þetta samræmda áralag, við kunnum það, við gerðum þetta 1992, 1993. Við kunnum að kveða niður verðbólguvandann sem við eigum við að etja. Við getum ekki unað við hann, hvorki fólkið í landinu né fyrirtækin í landinu, ekkert okkar getur unað við þann bagga sem verðbólgudraugurinn er. Verkefni númer eitt, tvö og þrjú er að finna þetta samræmda áralag sem við getum fundið og eigum að finna. Þetta er fyrra atriðið.

Hitt atriðið er að efla verðmætasköpun. Þetta hefur líka komið fram hjá fleirum. Við verðum að nýta auðlindirnar. Fyrsta auðlindin sem mér finnst að við verðum að huga að, og þar eigum við helling inni, er menntun og þekking. Við gleymum því oft að fyrir tíu árum voru aðeins 13% þeirra sem voru á atvinnumarkaði á Íslandi með háskólapróf. Í dag höfum við nær tvöfaldað þetta hlutfall. Þetta er með ólíkindum á einum áratug. Þvílíkur sóknarleikur og þvílík djörfung. Við erum því með mjög verðmætan og menntaðan atvinnumarkað sem á að geta skilað sér í nýsköpun og aukinni verðmætaaukningu bæði með því að búa til ný fyrirtæki og sjá sóknarfæri í núverandi fyrirtækjum. Við höfum líka sóknarfæri í rannsóknarvinnu sem hefur stóreflst og á eftir að stóreflast á næstu árum. Ég held að við áttum okkur ekki enn þá á því, Íslendingar, hversu yfirgripsmikil þekking hefur myndast hér á landi og hve mikill styrkur það er að hér skuli vera stundaðar rannsóknir á heimsmælikvarða. Þetta eru auðlindir. Orkan er auðlind, hún er dásamleg auðlind, hún er ólýsanleg auðlind og við eigum að nota hana. Og vitið þið, auðlindin er ekki bara til að selja orku til fyrirtækja, sem við gerum auðvitað, heldur líka að við þekkjum orkunotkun.

Ég er Evrópuráðsþingmaður og nýt þess að koma fram þar fyrir hönd okkar Íslendinga, að fá að taka þátt í því að hlusta á umræðuna í Evrópu. Hvað er Evrópa að segja? Hún segir: Við þurfum að breyta orkukerfum heimila og fyrirtækja í þjóðlöndum okkar. Þá lítur maður í eigin barm. Gerðu Íslendingar það ekki fyrir nær 40 árum síðan, gjörbreyttu því hvernig við nýtum orku frá því að nota jarðefnaeldsneyti í það að nýta sjálfbæra og endurnýjanlega orkugjafa til húshitunar? Þessi þekking auk þess sem það er þekking okkar Íslendinga á því að fara frá því að vera afar fátæk þjóð í að vera með öflugustu og auðugustu þjóðum heims. Það býr svo margt í þekkingu okkar, orkunni okkar, vatninu okkar, matnum okkar. Við eigum endalaus sóknarfæri. Ég vil kalla á okkur að framkalla styrkleika okkar. Þeir eru í sögu okkar og menningu, í menntuninni og orkunni. Við getum séð fleiri tækifæri og við eigum að gera það og þessi tækifæri eiga að nýtast til verðmætasköpunar. Hér sé ég þessi tvö tækifæri sem ég tel vera mikilvægust, annars vegar að mynda þetta samræmda áralag og hins vegar að nýta þennan kraft sem við eigum sem er einstakur.

Tíminn líður hratt og ég sé það af boðskapnum sem forsætisráðherra flutti okkur í byrjun dagsins. Hann fór yfir stöðumatið ekki ólíkt því sem við höfum verið að tala um núna. Hann talaði líka um tækifærin, um það sem einkennir okkur og það sem er gott, að ríkissjóður skuli hafa skilað afgangi á síðasta ári, að lífeyrissjóðirnir okkar eru sterkir, að atvinnulíf okkar er sveigjanlegt og atvinnuleysi er lítið. Hann talaði um aðgerðir og að aðgerðirnar sem þegar hefur verið farið í ættu að vera til eflingar á gjaldeyrisvaraforðanum og hann er nú orðinn 500 milljarðar kr. eins og fram hefur komið. En það skiptir líka máli sem forsætisráðherra sagði, að aðgerðirnar sem þegar hefur verið farið í hafi verið í þrennum tilgangi, að auka aðgengi banka að lánsfé, að efla fjárhagslegan stöðugleika í landinu og að efla framtíðarhagvöxt okkar. Hann minnti okkur líka á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur metið það nýlega svo að við værum vel í stakk búin til að takast á við efnahagsvandann.

Ég held að stóra myndin gleymist stundum, henni á að halda til haga, að við erum mjög sterk. Í boðskap forsætisráðherra kom líka fram að mikilvægast af öllu er að ná niður verðbólgunni og að forgangsverkefnið sé að tryggja atvinnu, tryggja fulla atvinnu hér á landi. Það er enginn smáboðskapur sem forsætisráðherra boðar hér í dag. Ég held að við getum öll í stóru myndinni fallist á að greiningin er til staðar, hana þarf að dýpka, samræma þarf áralagið, og það áréttar forsætisráðherra líka í ræðu sinni, og við þurfum að kalla fram kraftana sem við eigum.

Mig langar að gera lokaorð forsætisráðherra að mínum þar sem hann segir, með leyfi forseta, að við megum ekki gleyma því að á bak við allar hagtölur er fólk.

Það er fólkið okkar. Við verðum að líta til framtíðar, til tækifæranna í þágu fólksins okkar. Íslenska þjóðin á að leggjast samhent á árarnar og sameiginlega ætlum við að búa okkur undir framtíð (Forseti hringir.) sem er þá auðvitað sameiginleg framtíð okkar allra.