135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[19:56]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Hæstv. forsætisráðherra gaf greinargóða lýsingu á stöðu efnahagsmála og orsökum þess þrönga ástands sem hér ríkir og aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við á þessum erfiðu tímum. Eftir skýringar forsætisráðherra og yfirferð á sú innantóma gagnrýni sem hér hefur fram komið um aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar ekki við rök að styðjast og verða þessi málefni ekki rædd frekar á þeim nótum. Það getur vel verið að okkur hv. þingmenn í sal Alþingis greini á um þær aðgerðir — og okkur gerir það — sem beita beri til lausnar þessu vandamáli. En því verður varla haldið fram eftir yfirferð hæstv. forsætisráðherra með trúverðugleika að ekkert sé verið hér að hafast að.

Það sem mér fannst hvað mikilvægast í innleggi forsætisráðherra er mikilvægi þess að efla stoðir atvinnulífs og verðmætasköpunar i samfélaginu. Grundvöllur þess að við byggjum upp það mannsæmandi samfélag sem við höfum byggt upp á undanförnum árum og við viljum halda hér áfram að lifa í er að hér sé trygg atvinna og trygg verðmætasköpun og öflugur útflutningur.

„Framleiðsla, framleiðsla, framleiðsla,“ orðaði hæstv. ráðherra það. Hann sagði jafnframt að ríkisstjórnin hefði engan töfrasprota til snöggra breytinga við þær aðstæður sem eru uppi. En ríkisstjórnin getur vissulega ýtt undir þá atvinnuþróun og uppbyggingu úti um land sem nauðsynleg er til að bregðast við, uppbyggingu sem byggir á nýtingu orkuauðlinda okkar til iðnaðarreksturs á breiðum grunni og fjármögnuð er af þeim erlendu fyrirtækjum sem í hlut eiga, fyrirtækjum sem hafa áhuga á að koma til landsins, nýta okkar umhverfisvænu og góðu orku til þess að skapa hér atvinnu og útflutningstekjur.

Álverin eru ekkert undanskilin í þeirri umræðu og ákveðið ábyrgðarleysi fylgir því hvernig reynt hefur verið að gera þá framleiðslu tortryggilega. Ábyrgð þeirra sem þannig tala er mikil og það er þeirra að koma með einhverjar tillögur um aðra nýtingu, önnur tækifæri sem þeir vilja sjá orkuna fara í, sem hefur þá sömu afleiðingar fyrir efnahagskerfið.

Nýting náttúruauðlinda hafsins hefur skipt sköpum fyrir þessa þjóð í gegnum áratugina. Fiskveiðar og vinnsla og útflutningur sjávarafurða lagði grunninn að því góða samfélagi sem við búum í. Á þeim vettvangi verða engar stórar breytingar. Það verða engar miklar byltingar. Við höfum náð miklum árangri. Við höfum náð þeim árangri að vera fremstir meðal sjávarútvegsþjóða þegar kemur að verðmætasköpun í sjávarútvegi. Við munum vonandi sjá aðgerðir stjórnvalda til þess að reyna að efla hér kvóta, þorskkvóta sérstaklega, bera árangur á næstu árum og við það mun þessi grein náttúrlega eflast enn frekar þjóðinni til hagsældar. En stóriðja er það sem skiptir okkur meira og meira máli og það er það besta sem við eigum við í dag til að bregðast við aðsteðjandi vanda. Engin þjóð hefur efni á því að nýta ekki náttúruauðlindir sínar.

Í eldhúsdagsumræðum í vor sem og nú í þeirri umræðu sem farið hefur fram hér í dag hefur þjóðin verið blessuð og nefnd blessuð vegna þeirrar gnóttar grænnar orku og mikils mannauðs og samstöðu sem við eigum í þessu samfélagi. Við eigum gnótt grænnar orku. Við eigum góðan mannauð. Við eigum vaxandi hóp vel menntaðs fólks. Við eigum dugnaðarmikið fólk út um allt land. Það skortir reyndar aðeins á samstöðuna. Virðulegi forseti. Það er hættulegt öllu samfélagi þegar samstöðu skortir á svo mikilvægum stundum sem nú.

Það er í raun ömurlegt að verða vitni að ráðamönnum sem kvarta yfir því að hafa ekki verkfæri til að geta stöðvað atvinnuuppbyggingu. Það er ömurlegt að heyra frá ráðamönnum að slík verkfæri felist í svokölluðu landsskipulagi. Ég segi að ráðamenn sem tala þannig mega aldrei fá slík verkfæri í hendur sem notuð verða til þess að koma í veg fyrir frekari atvinnuuppbyggingu, í veg fyrir frekari nýtingu náttúruauðlinda landsins. Það er ömurlegt að verða vitni að ráðamönnum sem fagna, standa upp og klappa þegar milljarðafjárfestingu við undirbúning vegna virkjanaframkvæmda er kastað fyrir róða. Þessi óvissa og misvísandi skilaboð hafa þegar kostað okkur stórkostlega atvinnuuppbyggingu á Suðurlandi með tilheyrandi afleiðingum. Við höfum ekki efni á þessu.

Það eru ekki mörg ár síðan við fórum um heimsbyggðina, virðulegi forseti, með logandi ljósi leitandi að fyrirtækjum sem væru tilbúin að koma með öfluga atvinnuuppbyggingu til landsins, atvinnuuppbyggingu sem byggðist á nýtingu náttúruauðlinda landsins. Í dag sendum við því miður misvísandi skilaboð til þessara fyrirtækja sem hafa verið að skoða okkur sem valkost. Afleiðingarnar eru kannski meðal annars þær að stórt norskt fyrirtæki sem hugði á uppbyggingu við Þorlákshöfn hefur horfið frá því og valdi annað land umfram okkur. Við erum þó að tala um frændþjóð sem maður hefði haldið að hefði séð mikla hagsmuni í því að vera með þessa starfsemi ekki fjær heimahögunum en hún er á Íslandi. Slíkt má ekki endurtaka sig. Ein orrusta töpuð við þessar aðstæður er einni of mikið.

Við höfum séð það líka að úrskurður hæstv. umhverfisráðherra um sameiginlegt umhverfismat á Bakka veldur mikilli óvissu. Það er ágreiningur um afleiðingarnar. Því er haldið fram að þetta muni tefja framkvæmdir um allt að 12–15 mánuði og það eru miklir fjármunir í húfi. Þegar er búið að fjárfesta þarna fyrir um 6 milljarða. Þar af eru þátttakendur í þeim fjárfestingum sveitarfélög í nágrenninu sem eru ekkert allt of sterk fjárhagslega og bera mikla vaxtabyrði á hverju ári af þessari framtíðaruppbyggingu sinni. Vegna þeirra óljósu afleiðinga sem þessi úrskurður hefur og þess reynsluleysis sem við höfum af þeirri meðferð sem ákveðin er í þessu tilfelli um sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum vegna álvers á Bakka þá sé ég ekki neina aðra sanngjarna lausn en að þessi úrskurður verði felldur úr gildi og það verði farið eftir niðurstöðu Skipulagsstofnunar sem fyrir lá og menn fari betur yfir það ferli sem felst í svona sameiginlegu mati og geri sér grein fyrir afleiðingum þess fyrir sambærileg verkefni.

Í þessu felast líka skilaboð sem geta verið mjög hættuleg. Hvað ætla menn að gera ef Alcoa tilkynnti okkur að vegna þeirrar óvissu sem um er að ræða hafi þeir hætt við að reisa álver á Bakka og ákveðið að fara með það eitthvert annað? Það er víst að margir ráðamenn eða einhverjir ráðamenn mundu standa upp og fagna því. Ég er ekki í þeim hópi. Ég skal fyllilega taka undir mikilvægi þess að við horfum til breiðrar nýtingar og breiðrar iðnaðarframleiðslu þegar litið er til nýtingar náttúruauðlinda okkar til orkuvinnslu. Ég skal vissulega taka undir þau orð að mikilvægt sé að fjölga eggjunum í þeirri körfu. En það verður þá að vera á borði en ekki bara í orði.

Sóknarfæri okkar til að vinna okkur út úr núverandi ástandi er að tryggja atvinnustig og áframhaldandi hagvöxt og styrkari útflutning sem felst í nýtingu náttúruauðlinda okkar. Við verðum að tala einni röddu og áttum okkur vonandi á því í ljósi reynslunnar núna undanfarinna daga, undafarinna vikna að Ísland er ekkert eini valkosturinn fyrir þau fyrirtæki sem hyggja hér á framleiðslu og starfsemi fyrir sín fyrirtæki.

Ég tek undir þau orð hæstv. utanríkisráðherra, virðulegi forseti, að það ríkir ekki kreppa á Íslandi, ekki enn þá. Kreppa í mínum huga er bundin við það þegar vinnufúsar hendur fá ekki að vinna verk, hafa ekki verk að vinna og að fjölskyldur nái ekki að brauðfæða sig vegna þess að þær hafa ekki atvinnu. Þá er komin kreppa. Sem betur fer búum við ekki enn við þær aðstæður og það má ekki gerast. Það má ekki gerast að þessi dugmikla þjóð sem er vön því að leggja mikið á sig, er tilbúin að leggja mikið á sig til sjávar og sveita, búi við atvinnuleysi. Það er sá versti draugur sem við getum fengið og það er skylda okkar á hinu háa Alþingi, okkar hv. alþingismanna að sjá til þess að svo verði ekki. Til að tryggja það verðum við að tala einni röddu. Það verður að senda héðan sameiginleg skilaboð til þeirra sem horfa til okkar sem valkosts fyrir sína starfsemi. Við verðum að tryggja, virðulegi forseti, að traust ríki við samningaborðið.