135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[20:06]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Gunnarsson talaði um dugmikla þjóð sem væri vön að leggja mikið á sig og það er hárrétt hjá hv. þingmanni. Fyrir tilstuðlan flokks hans er því hins vegar þannig háttað að ef þessi dugmikla þjóð vill leggja eitthvað á sig þarf hún sérstök leyfi. Ekki má róa til fiskjar eða hlaupa fyrir fé nema hafa sérstakt bréf upp á það, og er það nokkur nýlunda í Íslandssögunni og takmörkun á atvinnufrelsi manna sem veldur keðjuverkunum út og suður.

Hv. þingmaður talaði líka um að aðgerðir ríkisstjórnarinnar væru á þann veg að ekki þyrfti að ræða það frekar að hún hefði brugðist við með þeim hætti sem hægt hefði verið að krefjast af henni og ekki frekari þörf á aðgerðum eftir því sem ég skildi hv. þingmann.

Ég spyr því: Hvað hefur ríkisstjórnin gert umfram það að auka skuldir, skuldsetja sig og auka gjaldeyrisforðann, sem hefur ekki aðra þýðingu en þá að hægt sé að henda vondum peningum eftir góðum með því að kaupa krónur fyrir evrur eða dollara? Og hvaða þýðingu hefur það — er það ásættanlegur kostnaður, 100 milljarðar á ári, sem hv. þm. Árni Páll Árnason talaði um?

Í þriðja lagi: Framleiðsla, framleiðsla, framleiðsla. Hvað á að framleiða? Tekur hv. þingmaður undir það með hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni að við eigum að veiða meiri þorsk, leyfa meiri fiskveiðar? Eða hvað vill ríkisstjórnin gera þegar utanríkisráðherra segir nýlega í blaðaviðtali, með leyfi forseta, að hún vilji ekki álver í Helguvík, sé á móti því, og umhverfisráðherra setur álver á Bakka í umhverfismat? Hvað ætlar ríkisstjórnin sér að gera?