135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[20:10]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hafi þingmaðurinn átt við það og þannig framleiðslu liggur fyrir að ríkisstjórnin er ekki samstiga í því efni. Það er alveg ljóst að þar tala ráðherrar Sjálfstæðisflokksins og ráðherrar Samfylkingarinnar hver með sínum hætti eins og ég rakti áðan. Og hvaða ákvörðun á þá ríkisstjórnin að taka og hvaða ákvörðun er líklegt að hún muni taka?

Í annan stað: Varðandi það að það hafi verið rétt ákvörðun þegar tekið var upp kvótakerfið í fiskveiðum — rétt ákvörðun tekin af mikilli skynsemi og rétt leið valin — þá hef ég aldrei skilið hvernig á því stendur að fólk sem telur sig vera markaðshyggjufólk skuli verja þetta kerfi. Verja það að tekið skuli hafa verið upp miðstýrt útdeilingarkerfi þar sem sumir fengu en aðrir ekki í stað þess að gera þá það sem var auðveldast að gera, að láta markaðinn stjórna, útdeila á grundvelli markaðslögmála, að veita öllum sama rétt, sömu heimildir, til þess að nýta sér það hagræði sem markaðurinn býður upp á — sem markaðshyggjufólk bendir á sem auðveldustu leiðina til að nýta þjóðarauðlindirnar. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur ítrekað talað um þetta með miklum ágætum og ég er þingmanninum algerlega sammála um það atriði.

Og þegar hv. þm. Jón Gunnarsson segir að ekki hafi verið hægt að komast að betri niðurstöðu heldur en gert var varðandi kvótakerfið þá er það nú þannig að frá því að kvótakerfið var tekið upp hefur botnfiskafli á Íslandsmiðum verið að minnka og það hefur leitt til margvíslegs óréttlætis. Sumir hafa fengið en aðrir verið útilokaðir. Er möguleiki að verja þau mannréttindabrot sem þar er um að ræða?