135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[20:12]
Hlusta

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að gera stefnuna í sjávarútvegsmálum að sérstöku umræðuefni við þessa umræðu. Ég get þó sagt að þarna er ekki um einfaldan völl að fara, það vitum við. Það hefur heldur betur verið tekist á um fiskveiðistjórnarkerfið gegnum árin. Auðvitað þarf að taka tillit til hagsmuna þeirra sem eru í þessum rekstri, til hagsmuna þjóðarinnar og síðan þeirra einstaklinga sem hafa áhuga á að komast inn í þennan rekstur. Ég vil ekki tjá mig frekar um það.

Hitt, sem er kannski hér til umræðu sérstaklega, eru efnahagsmál og í þessu tilfelli sú atvinnuuppbygging sem ég er að tala fyrir — hún er eitt af verkfærunum til að leysa það ástand sem fyrirséð er og til þess fallin að tryggja hér áfram mannsæmandi lífskjör.

Það er rétt hjá hv. þm. Jóni Magnússyni að ríkisstjórnin talar ekki einum rómi í þessu máli og ég harma það. Í ræðunni sem ég flutti hér áðan felast skilaboð til þeirra sem ráða, þau skilaboð að það sé ákaflega mikilvægt og bráðnauðsynlegt að við tölum einum rómi í þessu máli, að við sendum út þau skilaboð sem við viljum senda út. Það er á okkar ábyrgð að komast að sameiginlegri niðurstöðu í þeim efnum — ekki, eins og hlutirnir hafa litið út, að fagna og leggja þröskuld í veg fyrir þá starfsemi sem fyrirhuguð er og senda þar með þau skilaboð til þeirra sem hafa áhuga á að koma hingað að hér sé ótrygg stefna og kannski ekki fýsilegt að ganga til samstarfs við okkur á þessari stundu.