135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[21:13]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Stærstu eigendur verðtryggðra skuldbindinga á Íslandi eru lífeyrissjóðirnir. Þeir eiga reyndar mikið af öðrum eignum bæði erlendis og innan lands í hlutabréfum en þeir eru stærstu eigendurnir og þeir eru stærstu kaupendur að húsbréfum og íbúðalánabréfum. Þeir þurfa á verðtryggingunni að halda til að geta borgað verðtryggðan lífeyri og það gleymist oft að lífeyrir frá lífeyrissjóðunum er verðtryggður eins og þessar verðtryggðu skuldbindingar. Ef menn ætla að afnema eitt verða þeir að afnema annað líka.

Varðandi hækkun með handafli. Seðlabankinn er samkvæmt lögum óháður. Hann er óháður ríkisvaldinu og löggjafarvaldinu, hann er óháður okkur hv. þingmönnum, hann er óháður hæstv. ríkisstjórn. Það er einmitt aðall hans að hann tekur ákvarðanir sínar einn og sér, ekki með handafli, ekki með þrýstingi frá okkur. Ef menn ætla að fara að beita því og segja honum að nú eigi hann að lækka stýrivextina, eins og mér heyrðist hv. þingmaður leggja til, þá mundi það vera ákveðið merki um það úti í heimi að við ætluðum að handstýra þessu öllu saman.

Varðandi myntina og það sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur sagt um að taka upp evru og gera samning um það. Til þess þarf að uppfylla ákveðin skilyrði um góða hagstjórn og þegar við verðum búin að uppfylla þau skilyrði dettur engum manni í hug að afneita krónunni og afhenda Evrópusambandinu, ef aðild fengist, allar okkar auðlindir. Ég hef mikla trú á eftirliti með samkeppni og ég hef margoft lagt til að samkeppniseftirlit verði styrkt vegna þess að ég trúi á samkeppni en ekki það að ég viti um innflutningsverðlag og geti því farið að segja fyrirtækjum að þau leggi of mikið á. Ég treysti því að samkeppnin haldi álagningunni niðri.