135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[21:18]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Langar umræður eru senn að baki um afar mikilvæg mál. Ég vil taka undir með þeim sem hafa sagt hér undir lok umræðnanna að um margt hafa þetta verið mjög góðar og gagnlegar umræður, ég vil segja það fyrir mitt leyti.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði, að athyglisvert er hversu margir þingmenn hafa fundið hjá sér þörf til að taka til máls um þessi mál. Það er líka til marks um að þingskapabreytingin og þingfundir nú í september hafa ákveðnu hlutverki að gegna.

Ég lagði mikla áherslu á það í upphafi máls míns að Íslendingar byggju í opnu hagkerfi, að það sem gerist á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og í öðrum stærri hagkerfum sem við erum tengd hefði mikil áhrif hér á landi. Það verður ekki umflúið og þeirri þróun verður ekki við snúið. En það er líka til marks um það hversu skilaboð berast hratt, m.a. héðan úr þessum sal og úr efnahagslífi okkar, að fréttir voru komnar af þessum umræðum, ekki bara á vefsíðurnar íslensku heldur voru erlendir fjölmiðlar farnir að spyrjast fyrir um það sem hér var rætt, mjög stuttu eftir að þær hófust. Við getum því ekki lokað okkur af hér. Það sem sagt er hér og gert — þau skilaboð sem fara út eru tekin, vegin og metin af þeim aðilum sem leggja mat á ástandið hjá okkur, þar á meðal af þeim sem e.t.v. gætu hugsað sér að lána fjármuni hingað til Íslands, þ.e. af erlendum fjármálastofnunum.

Það litla sem ég hef getað rýnt í það í dag sýnist mér að það sem tilkynnt var í dag, um lántöku ríkissjóðs og hvernig að þeim málum hefur verið staðið, mælist vel fyrir af þeim aðilum. Það skiptir mjög miklu máli og er líka þakkarvert hvernig tekið hefur verið undir það af fulltrúum annarra flokka, þau skref sem stigin hafa verið í þeim efnum.

Eins og ég sagði hér í fyrstu ræðu minni þá erum við öll á sama báti í þessum efnum. Það er sameiginlegt verkefni, og sameiginlegir hagsmunir í húfi, að komast í gegnum þá erfiðleika sem nú er við að fást, og það er málið. Menn geta síðan rætt um ýmis fyrirkomulagsatriði eftir að við erum komin á sléttan sjó um það hvernig við viljum haga umgjörð efnahagsmála í framtíðinni.

Eitt af því sem mönnum verður tíðrætt um er verðtryggingin sem rædd var hér áðan, verðtryggingin sem hefur verið við lýði í næstum 30 ár — var tekin upp árið 1979 af brýnni nauðsyn og er ekki til bölvunar í sjálfu sér ef aðstæður eru þannig. Það er eins með hana og skilyrðin til þess að uppfylla evruaðild, ef þau eru uppfyllt er engin ástæða til að taka upp evruna. Ef verðbólgan er lítil sem engin skiptir ekki máli hvort hér er verðtrygging eða ekki. Hvort tveggja á að vera okkur keppikefli, að uppfylla þessi skilyrði og koma verðbólgunni niður á viðráðanlegt stig.

Ég ætla ekki að fjalla sérstaklega um mörg einstök atriði sem hér hafa komið fram. Ég vil þó svara spurningu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, sem aðrir hafa líka tekið upp undir lok umræðunnar, um hugsanlega endurskoðun laga um Seðlabankann. Ég hyggst ekki beita mér fyrir slíkri endurskoðun á næstunni. En ég hef sagt, og gerði það á ársfundi bankans í vetur, að ég teldi rétt að þegar um hægðist yrði gerð úttekt á okkar vegum og í samstarfi við bankann af innlendum og erlendum sérfræðingum á því hvernig umgjörðin í peningamálastefnunni frá 2001 hefði reynst. Ég tel eðlilegt að við gerum það þegar rétti tíminn er kominn til þess. Ég man ekki betur en að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi komið hér upp í ræðustól á Alþingi stuttu síðar og spurst fyrir um þetta og fagnað þessu.

En þetta er fyrir utan og ofan einhvern daglegan ágreining hér eða átök um einstök atriði í því sem menn eru að glíma við þessa dagana. Það held ég að allir hljóti líka að geta verið sammála um. Hitt er svo annað mál að engum dettur í hug að skilja Seðlabankann, eða stofnanir ríkisins yfirleitt, eftir á berangri í þeirri baráttu sem nú er verið að heyja eða kippa teppinu undan þeim. Það væri auðvitað hið mesta óráð og er ekki hugmyndin með því sem ég hef greint frá og upplýsti á ársfundi Seðlabankans.

Nei, herra forseti. Við erum að mörgu leyti að fást við mjög óvenjulegt ástand. Það stafar af því hvað við erum orðin háð ytri aðstæðum jafnvel enn meira en áður var þegar við áttum allt okkar undir því að geta selt fisk til útlanda. Það er vegna þess að fjármagnsmarkaður okkar er orðinn hluti af miklu stærri heild, íslenskar fjármálastofnanir eru orðnar hluti af miklu stærri heild, og undan því verður ekki vikist. Það er ekki hægt annað en að horfast í augu við þær staðreyndir.

Ef við byggjum enn í litlu lokuðu hagkerfi væri allt öðruvísi umhorfs hvað það varðar að glíma við sveiflur í eftirspurn á Íslandi. Þá væri allt annað að glíma við það að samdráttur tæki við af þensluskeiði, og við höfum auðvitað mikla reynslu af því að fást við slíkar aðstæður.

Við vissum auðvitað að hægja mundi á í hagkerfinu eftir að lotu virkjana og álversuppbyggingar á Austurlandi lyki. Það hefur margoft verið rætt hér í þingsölunum og ég hef margoft talað um það. Ég lagði fram fjárlagafrumvarp í þinginu ár eftir ár sem gerði ráð fyrir því að þegar þessu lyki mundi myndast halli á ríkissjóði. En aðalatriðið var að sjálfsögðu að við notuðum uppsveifluna og afganginn á ríkissjóði til þess að koma okkur upp forðabúri með því að greiða niður skuldirnar og búa þannig um ríkissjóð að hann gæti tekið á sig breyttar aðstæður og sveiflur. Þegar við förum að fjalla um fjárlagafrumvarpið eftir nokkrar vikur mun koma í ljós hvernig sú staða er við þessar aðstæður.

En það sem hefur flækt þessa mynd, og gert þetta allt miklu erfiðara viðfangs, er það að samtímis því sem við erum að fást við þetta, sem við venjulegar aðstæður hefði verið mjög viðráðanlegt mál, er brostin á lánsfjárkreppa í Bandaríkjunum og svo hinar stórfelldu hækkanir á olíu- og hrávörum og öðru sem við höfum verið að ræða í allan dag. Það flækir málið og svo bætist það við, eins og ég sagði í upphafi ræðu minnar, að allt sem sagt er og gert hér er samstundis þýtt og túlkað af öðrum aðilum sem getur líka haft áhrif, bæði til góðs og ills, á það sem við erum að gera hérna. Það er því mikil víxlverkun í gangi milli landa og innan atvinnugreina o.s.frv.

Herra forseti. Að endingu vil ég segja það sem ég sagði í upphafi fyrri ræðu minnar að ég taldi nauðsynlegt að hefja þessar umræður hér. Ég tel mjög eðlilegt að fyrsta degi þinghaldsins við þessar aðstæður sé varið í þetta. Ég held að þátttaka þingmanna, og það sem hefur komið fram í umræðunni, staðfesti það svo sannarlega þó vissulega séu skoðanir skiptar um mörg atriði eins og eðlilegt er. Þess vegna eru fimm flokkar á Alþingi en ekki bara einn.