135. löggjafarþing — 116. fundur,  2. sept. 2008.

skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál.

[21:27]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir ræðu hans og fyrir að vera hér við umræðuna og við lok hennar. Það er alveg ljóst að við erum orðinn hluti af stórum samtengdum heimi, markaðsvæddum heimi. Það er þannig að ef markaðir hnerra í Asíu þá fylgir það snúningi jarðarinnar og menn fara að hiksta í Evrópu nokkrum tímum seinna og ropa svo í Bandaríkjunum í lokin. Þetta er alveg ljóst og við erum tengd þessu og það er líka nýtt fyrir okkur að með okkur er nú fylgst og það hefur áhrif.

Það er þrennt sem ég vil nefna: Í fyrsta lagi um endurskoðun laganna um Seðlabankann. Ég hafði e.t.v. vonast til þess að hæstv. forsætisráðherra mundi gefa hér eða á næstunni yfirlýsingar um að slíkt starf yrði hafið, yrði endurbúið, og vonandi þá á sömu forsendum og lögin um Seðlabankann voru sett á sínum tíma að undangengnu starfi þverpólitískrar nefndar. Ég fagnaði því réttilega þegar forsætisráðherra boðaði fyrir meira en hálfu ári að hann hygðist gera þessa úttekt á því hvernig umgjörðin frá 2001 hefði reynst. En síðan er liðið hálft ár eða um það bil og er ekki bara allt í lagi að fara að drífa sig í þetta?

Ég vil nota tækifærið og spyrja hæstv. forsætisráðherra að einu sem ef til vill hefur ekki borið beint upp í dag og það er spurningin um að endurreisa einhvers konar Þjóðhagsstofnun. Af ummælum manna nú í sumar hefur mátt ráða að fyrir því væri sterkur þingmeirihluti. Nú veit ég ekki nákvæmlega hvernig það stendur í flokki hæstv. forsætisráðherra en ég leyfi mér að fullyrða að talsmenn úr öllum öðrum flokkum hafa lýst því yfir að þeir teldu að það ætti að skoða ef ekki beinlínis ákveða. Menn hafa þá gjarnan séð fyrir sér að hún yrði vistuð í skjóli Alþingis.

Í þriðja og síðasta lagi spyr ég enn og aftur um það hvernig ríkisstjórnin hyggist haga samráði um efnahagsmál á næstu dögum og vikum. Forseti Alþýðusambandsins brást við þessari umræðu í dag með því að rukka enn og aftur um það að verkalýðshreyfingin hefði beðið um slíkt samráð og biði eftir því að fá slík fundarboð. Og ég spyr: Verður stjórnarandstöðunni boðið að því borði? Væri það nú ekki skref sem mætti stíga að ósekju? Að stjórnarandstaðan kæmi inn í samráð ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins. Fyrir hönd stærsta stjórnarandstöðuflokksins á (Forseti hringir.) Alþingi lýsi ég okkur reiðubúna til slíks.