135. löggjafarþing — 117. fundur,  3. sept. 2008.

samningar við ljósmæður.

[13:44]
Hlusta

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra vonast til þess að hægt verði að ná lausn en fyrsta verkfallið frá upphafi blasir við á morgun. Ég tel ljóst að það þurfi að vinna hratt. Ég minni á að ljósmæður eru kannski sú starfsstétt sem hefur ríkt hvað mest sátt um í samfélaginu allt frá upphafi vega. Heimspekingurinn Sókrates kallaði ljósmæðrastarfið göfugustu starfsgrein í heimi og kallaði sjálfan sig ljósmóður þekkingar. Við dagleg störf ljósmæðra eru ljósmæður með a.m.k. tvö mannslíf í höndunum. Ákvarðanataka þeirra getur bjargað eða hætt lífum skjólstæðinga. Þetta eru mjög dýrmæt störf. Ég vil minna á þetta út af tvennu, annars vegar að hér er um leiðréttingu að ræða sem hefur verið viðurkennd af öðrum starfsstéttum og hins vegar að þetta snýst um loforð sem er gefið í stjórnarsáttmála, orð sem féllu bæði fyrir og eftir kosningar. Ég minni á að formaður Samfylkingarinnar sagði í ræðu 1. maí að til að leiðrétta kynbundinn launamun sem hefði staðið í stað í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar væri vilji allt sem þyrfti. Ég minni því ríkisstjórnina á loforð hennar um að bæta kjör kvennastétta. [Lófatak á þingpöllum.]