135. löggjafarþing — 117. fundur,  3. sept. 2008.

svar frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna.

[13:46]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil beina þeirri fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort hann geti upplýst okkur hér á hv. þingi um hvaða svör hann hafi fengið varðandi það erindi eða drög að svari til mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna sem hann lýsti hér á vordögum. Hefur ráðuneytið fengið viðbrögð við þeim svörum sem hann sendi frá sér og í hvaða veru eru þau þá? Mér er kunnugt um að lögmaðurinn Lúðvík Kaaber hefur fengið ákveðið svar við því erindi sem hann sendi til Sameinuðu þjóðanna sem varðar þetta sama mál. Þar kemur fram að þau atriði sem hann benti á verði tekin gaumgæfilega til athugunar.

Ég vil líka láta þess getið að við í Frjálslynda flokknum sendum til Sameinuðu þjóðanna þýðingu á þeirri þingsályktun sem flutt var af okkur og vinstri grænum um réttarstöðuna sem við töldum að væri komin upp í málinu og yrði að leiðrétta. Það mál fluttu þrír þingmenn Frjálslyndra og þrír frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Ásamt því sendum við greinargerð okkar í Frjálslynda flokknum um það hvernig við teljum að þessi mál snúi við íslenskum þegnum að því er varðaði mannréttindi og réttarstöðu Íslendinga til að ná fram lagfæringum á því sem fundið var að í ályktun mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

Eins og menn muna var það m.a. að ekki væri gætt jafnræðis. Þess væri ekki gætt að menn tækju aflaheimildir til sín frá ríkinu heldur yrðu að borga einhverjum öðrum handhöfum aðgang fyrir auðlindina o.s.frv. Þess vegna inni ég hæstv. sjávarútvegsráðherra, sem hefur forræði málsins í sínum höndum, um stöðu málsins.