135. löggjafarþing — 117. fundur,  3. sept. 2008.

svar frá mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna.

[13:49]
Hlusta

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ekki hefur borist neitt svar í mínar hendur frá mannréttindanefnd sem hv. þingmaður var að vísa til þannig að mér er ekki kunnugt um að mannréttindanefndin hafi sent neitt annað erindi til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis. Í sjálfu sér fara þessi mál í gegnum dómsmálaráðuneytið en sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hafði eðli málsins samkvæmt fyrirsvar fyrir því að svara erindinu og niðurstöðunni sem kom frá mannréttindanefndinni. Alveg eins og ég sagði í upphafi var að því stefnt að það yrði gert með fullnægjandi hætti á réttum tíma og við það var vitaskuld staðið. Þetta var mjög vel rökstutt svar þar sem við fórum yfir málin og brugðumst síðan með markvissum hætti við þeim ábendingum sem fram komu frá mannréttindanefndinni.

Ég hafði að vísu fregnað það sem hv. þingmaður var nú að staðfesta að lögmaðurinn Lúðvík Kaaber, sem fór með mál tvímenninganna sem vísuðu þessu máli til mannréttindanefndarinnar, hefði borist erindi frá mannréttindanefndinni. Mér skilst að það hafi falið í sér að hann hefði rétt til að koma frekar fram sínum sjónarmiðum. Mannréttindanefndin hefur komist að niðurstöðu og við henni verður í sjálfu sér ekki haggað. En hins vegar var óskað eftir því af hálfu nefndarinnar að einhver stjórnvöld sendu viðbrögð og kæmu fram með svör um hvernig brugðist yrði við niðurstöðu nefndarinnar. Það var gert á réttum tíma með fullnægjandi hætti.