135. löggjafarþing — 117. fundur,  3. sept. 2008.

ljósmæðradeilan og leiðrétting launa kvennastétta.

[13:54]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Já, herra forseti. Á vegum mín og hæstv. félagsmálaráðherra eru nú að störfum þrír hópar eða nefndir. Í fyrsta lagi er það hópur sem Jón Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra, fer fyrir. Hópurinn á að kanna, meta og leita úrræða til að bregðast við kynbundnum launamun á almenna vinnumarkaðnum. Í öðru lagi er það samsvarandi nefnd sem kannar sömu atriði á opinbera markaðnum og hv. þm. Ólöf Nordal fer fyrir. Í þriðja lagi er það samráðshópur milli þessara tveggja þátta sem Lára V. Júlíusdóttir lögmaður fer fyrir. Þessir hópar hafa verið að störfum frá því á fyrri hluta ársins og ég geri ráð fyrir því, eins og ég nefndi í fyrri fyrirspurn, að skilað verði áfangaáliti nú á haustdögum þannig að hægt verði að hefja þá vinnu sem við teljum nauðsynlega til þess að bregðast við þessu. Það er auðvitað of snemmt að segja til um hvaða hlutir það eru nákvæmlega sem þarna verður um að ræða en ég geri ráð fyrir því að það séu fleiri þættir en þeir sem snúa að kjarasamningunum. Það séu hlutir sem snúa að stjórnun fyrirtækja og stofnana sem þarf að vera á betri veg en hún er núna.

En auðvitað snýr þetta að kjarasamningum líka. Ég held að við höfum stigið skref í rétta átt í þessum efnum í þeim kjarasamningum sem núna er að mestu leyti náð. Alla vega held ég að það sé alveg klárt að við höfum ekki farið í öfuga átt og hef góða von um að okkur miði nú þegar áleiðis.