135. löggjafarþing — 117. fundur,  3. sept. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í vaxtamálum.

[13:57]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Hér fóru í gær fram langar og miklar umræður um efnahagsmál og margt fróðlegt kom þar fram. Ástæða er til að þakka fyrir að efnt skuli til slíkra umræðna því að vissulega var full þörf á því.

Hitt er aftur á móti jafnmikið í lausu lofti fyrir mér og öðrum sem hlýddu á þessar umræður hver stefna ríkisstjórnarinnar er og ég kalla eftir svörum frá hæstv. forsætisráðherra um hver hans afstaða er í þeim málum sem hér komu fram sem stjórnarliðar voru í rauninni mjög margsaga um. Sérstaklega voru þeir margsaga um það sem laut að því hvaða efnahagsúrræðum skyldi beita við núverandi aðstæður. Allmargir stjórnarliðar töluðu um að halda yrði uppi háu vaxtastigi til þess að stemma stigu við því að hér færi af stað ofsaþensla og framkvæmdaæði sem Framsóknarflokkurinn lúrði yfir að vilja koma á. Ég benti á að þótt sá flokkur væri göldróttur hefði hann nú ekki yfir því að ráða að geta kveikt slíkan neista í hagkerfinu eins og stendur.

En það er alls ekki svo að allir stjórnarliðar hafi litið þetta þeim augum heldur komu hér líka stjórnarliðar sem töluðu af meiri skilningi um efnahagsástandið. Í raun og veru var ekki hægt að skilja annað á þeim en að þeir teldu, líkt og við framsóknarmenn, að vaxtastigið í landinu væri allt of hátt til þess að atvinnulífið gæti rétt úr kútnum. En ég er jafnnær um það hver afstaða ríkisstjórnarinnar er þegar óbreyttir stjórnarliðar hafa talað um þetta mál í ýmsar áttir og gat ekki merkt á ræðu hæstv. forsætisráðherra, þó að þar hafi margt gagnlegt komið fram, hver afstaða hans er í þeim efnum. Ég kalla því eftir því í fyrirspurn nú.