135. löggjafarþing — 117. fundur,  3. sept. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í virkjana- og stóriðjumálum.

[14:03]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Eins og fram kom heitir þessi umræða eða yfirskrift hennar er stefna ríkisstjórnarinnar í virkjana- og stóriðjumálum, og það er ekki að tilefnislausu.

Það er reyndar rétt að það komi fram að ég beindi umræðubeiðni minni til forsætisráðherra og vonaðist að sjálfsögðu einnig til þess að hæstv. iðnaðarráðherra og hæstv. umhverfisráðherra yrðu viðstaddir. Ástæðan er ekki síst sú að ég hef áhuga á því að reyna að grafast fyrir um það hver er hin raunverulega stefna ríkisstjórnarinnar út frá pólitískum, efnahagslegum og auðvitað umhverfislegum forsendum. En það er að sjálfsögðu hið besta mál að eiga orðastað um þetta við hæstv. iðnaðarráðherra og ekki spillir fyrir að hæstv. forsætisráðherra sé viðstaddur.

Það er þannig að framan af að minnsta kosti voru yfirlýsingar mjög misvísandi og talsverð óvissa ríkjandi um það hver væri hin raunverulega stefna ríkisstjórnarinnar í virkjana- og stóriðjumálum. Samfylkingin gekk til kosninga með fyrirheit um stóriðjustopp og á grundvelli kosningastefnuskrár sem kölluð var Fagra Ísland og á þeirri stefnu voru engir fyrirvarar. Þeirri stefnu er þannig lýst í kosningaplöggum Samfylkingarinnar að vilji hennar standi til að, með leyfi forseta:

„Slá ákvörðunum um frekari stóriðjuframkvæmdir á frest þangað til fyrir liggur nauðsynleg heildarsýn yfir verðmæt náttúrusvæði Íslands og verndun þeirra hefur verið tryggð.“

Þetta útlistaði formaður flokksins í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra 3. október 2006 á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:

„Með þessari stefnumótun um hið fagra Ísland hefur Samfylkingin tekið þá skýru stefnu að sú stóriðjustefna sem ríkisstjórnin hefur fylgt á umliðnum árum og boðar á komandi kjörtímabili eigi ekkert erindi við framtíðina. Hún á ekkert erindi við framtíðina, nú er tímabært að stokka upp spilin, gefa upp á nýtt og gefa náttúrunni betri spil á hendi en hún hefur haft hingað til. Samfylkingin mun fylgja þessu máli fast eftir, þetta verður veganesti hennar inn í nýja ríkisstjórn.“

Svo mörg voru þau orð. Og spurð að þessu enn frekar síðar á sama þingi og nokkru áður en kosið var um stækkun álvers í Hafnarfirði sagði hæstv. núverandi utanríkisráðherra, formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, með leyfi forseta:

„Ég sagði, virðulegur forseti, að það væri mikilvægt að taka í taumana og ég tel að til þess að við getum náð utan um þetta og tekið raunverulega í taumana þurfi að fresta þeim stóriðjuframkvæmdum sem fyrirhugaðar eru á næstu árum“ — þeim stóriðjuframkvæmdum sem fyrirhugaðar eru á næstu árum, ekki einhverjum öðrum — „og þar vísa ég auðvitað til áforma um stækkun í Straumsvík og álver í Helguvík.“

Svona nákvæmlega var þetta orðað samkvæmt skjalfestum heimildum, herra forseti. Nú er það að vísu upplýst á miðju sumri 2008 og virtist koma sumu samfylkingarfólki á óvart að Samfylkingin hafi gert málamiðlun þegar samið var um myndun núverandi ríkisstjórnar. Ef ráðið er í yfirlýsingar ráðherra samstarfsflokksins, hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra að undanförnu, þá tala þeir nú eins og sú málamiðlun hafi gengið út á allt sem í gangi er. Hæstv. forsætisráðherra talar um stuðning við tvö álver, hæstv. fjármálaráðherra sagði á dögunum að hann vissi ekki um neinn ráðherra í ríkisstjórninni sem væri á móti álveri við Bakka á Húsavík. Stækkun álversins í Straumsvík er á fullri ferð og til viðbótar þessu öllu saman er olíuhreinsunarstöð í undirbúningi á Vestfjörðum. Hún þarf að vísu ekki mikla orku úr dreifikerfinu en mundi losa gríðarlegt magn gróðurhúsalofttegunda í viðbót við það sem fyrir er eða í vændum er. Um losunarþátt málsins sem varðar þetta samhengi allt sagði einmitt formaður Samfylkingarinnar 6. febrúar 2006, með leyfi forseta, í ræðu á Alþingi:

„Innan kvótans,“ þ.e. íslenska ákvæðisins margfræga, „rúmast annaðhvort stækkun eða eitt álver fram til ársins 2012. Er ekki rétt að segja það þá skýrt og vera ekki að láta menn gæla við þá hugsun að hér geti komið einhverjar framkvæmdir sem hvorki standast þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum gert né heldur þau markmið sem við höfum í hagstjórn?“

Þá er fyrsta spurningin til hæstv. iðnaðarráðherra: Með hvaða veganesti ætla ráðherrar ríkisstjórnarinnar á loftslagsfundinn í Kaupmannahöfn annað haust, í ljósi skýrra yfirlýsinga formanns Samfylkingarinnar um að það sé ekkert pláss nema fyrir annaðhvort stækkunina í Straumsvík eða eitt lítið álver, fyrri áfangann af fullvöxnu álveri eins og þarna var verið að vísa til?

Í öðru lagi: Er það þá stefna ríkisstjórnarinnar þrátt fyrir ummæli formanns Samfylkingarinnar um hagstjórnarþáttinn að dæla á næstu árum inn í hagkerfið tveimur til tveimur og hálfu álveri í viðbót og jafnvel olíuhreinsunarstöð í kaupbæti? Það verður auðvitað að líta svo á að stækkun álversins í Straumsvík sem er í gangi þrátt fyrir andstöðu íbúa Hafnarfjarðar, upp á fleiri tugi þúsunda tonna í ársframleiðslu sé svo sem eins og þriðjungur eða kvartálver. Er þá ríkisstjórnin algerlega ónæm fyrir efasemdum um að arðsemi þessara fjárfestinga sé bara allt of lítil fyrir þjóðarbúið? Hefur ríkisstjórnin ekkert farið ofan í saumana á því hversu lítill nettóvirðisaukinn af álstarfseminni eða álbræðslunni er hér í hagkerfinu þegar upp er staðið? Hvað segir ríkisstjórnin? Hvað segir Samfylkingin um endurteknar tillögur Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD um að Íslendingar láti fara fram óháða, gagnsæja og breiða arðsemisúttekt á því hvort það sé yfir höfuð skynsamlegt fyrir íslenskan þjóðarbúskap að veðja á meira af því sama? Hvað segir ríkisstjórnin? Hvað segir Samfylkingin um röksemdir sem benda á að frekari og enn aukin álvæðing íslenskra orkumála og þjóðarbúskapar auki á nýjan leik einhæfni íslensks atvinnulífs í stað þess að auka fjölbreytni? Það sér auðvitað hver maður að ef svo fer að ekki bara 80–85% af öllum orkubúskap Íslendinga, raforkubúskap, verða beintengdir þessari einu breytu, heimsmarkaðsverðs á áli, heldur stór hluti þjóðarbúskaparins og útflutningsviðskiptanna í heild þá er mikið lagt undir í þessari einu álkörfu. Og eru menn þá tilbúnir til þess að gera Ísland á sinn hátt jafnháð heimsmarkaðsverðsveiflum á áli og óvissu sem því tengist inn í framtíðina eins og við vorum kannski fyrir 30–40 árum háðir sjávarútveginum einum? Hvað segja menn um ruðningsáhrifin gagnvart öðru atvinnulífi og þá staðreynd að ef svo heldur sem horfir þá verður orkan meira og minna öll frátekin í tvö til tvö og hálft álver á næstu árum? Norðurland er frátekið fyrir Alcoa, ég tala nú ekki um ef þar á að reisa 346 þúsund tonna álver. Suðurnesin, Reykjanesið og suðvesturhornið verða frátekin ef fyrsti áfangi álvers fer þar af stað sem auðvitað verður byrjað að undirbúa að stækka áður en þeirri uppbyggingu verður lokið því það byggir enginn og rekur 125 þúsund tonna álver í dag. Hvað segir Samfylkingin þá sem gekk til kosninga með háleitum loforðum, ekki voru þau minna glæsileg þar, um hátækniáratuginn? Hún vann verðlaun á nýsköpunarþingi fyrir hátækniáratuginn. Hvað átti að felast í honum? Að fjórfalda framlög til Tækniþróunarsjóðs. Það var ekki með fyrstu fjárlögunum sem Samfylkingin stóð að. Það var hækkað um skitnar 80 millj. kr. og samkvæmt þeim forsendum á að hækka um 500 millj. kr. á kjörtímabilinu. Það vantar sem sagt allmikið upp á að stóru orðin standi þar. Hvað er orðið um hátækniáratug Samfylkingarinnar ef í fyrsta lagi eru ekki settir í hann neinir peningar og í öðru lagi er orkan öll meira og minna frátekin fyrir álver? Það er búið að taka Ísland frá fyrir tvö til tvö og hálft stykki álver næstu árin.

Þá kem ég að virkjunarþættinum því að gangi þessi ósköp öll eftir þarf að virkja og virkja mikið. Er það þá stefna ríkisstjórnarinnar að virkja að fullu í neðri hluta Þjórsár og mun iðnaðarráðherra veita heimildir til eignarnáms ef þær þarf til sem allt bendir til? (GÁ: Þú mæltir með því.) Vegna þess að … Þegiðu nú Guðni, aldrei nokkurn tíma. Það á ekki að vera með svona fleipur hér, það er allt í lagi að kalla fram í ef það er eitthvert minnsta vit í því sem er sagt. (Gripið fram í.) Já. Hef ég talað fyrir eignarnáminu í Þjórsá? Nei. (GÁ: Í samvinnurekstrinum.) Neðri hluti Þjórsár, er hún undir og mun iðnaðarráðherra veita heimildir til eignarnáms? Skjálfandafljót, verður því fórnað? Jökulánum í Skagafirði, verða þær teknar? Hvaðan á að koma orka í 346 þúsund tonna álver á Norðurlandi sem allar vísbendingar benda til að háhitasvæðin í Þingeyjarsýslu munu gefa minna en áformað eða áætlað var? Er það kannski þannig að menn renni enn hýru auga til hluta vatnanna sem falla til Jökulsár á Fjöllum? Er það þess vegna sem stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er ekki barn í brók, að það vantar kaflann frá jöklum og niður að þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum? Af hverju er Jökulsá á Fjöllum með Kreppu og Kverká ekki með? Er það kannski vegna þess að menn renna enn hýru auga til þess að veiða þaðan vatn? (BJJ: Hræðsluáróður.) Hvað með Bitruvirkjun? Fer hún ekki á fulla ferð? (BJJ: Að sjálfsögðu.) Og svæðið upp að Hveragerði? Já, að sjálfsögðu, kalla menn glaðbeittir fram í, sem sagt, það er allt undir, öll stóriðjuáform sem voru á fyrra kjörtímabili og allar helstu virkjanir og virkjunarmöguleikar sem menn hafa látið sér detta í hug. Engu að síður er það svo að þrátt fyrir allt talið um kreppu, erfiðleika og fréttir af uppsögnum og atvinnuleysi vill þjóðin ekki fleiri álver. Það er nóg komið, segir þjóðin. Skýr meiri hluti svarar því í nýjustu könnun Gallups og þó að menn séu að sjálfsögðu ekki andvígir hófsamlegri orkunýtingu og hlynntir því t.d. að nýjar greinar geti bæst við, eins og netþjónabú eða annað slíkt, þá finnst mönnum nóg komið af hinni blindu álverastefnu. Það er veruleikinn og þetta ættu ráðamenn að hafa í huga.

Ágreiningurinn um þessi mál snýst ekki um það hvort eigi að nýta á einhvern skynsamlegan hátt og í hófsamlegum mæli orkulindir Íslendinga hér eftir sem hingað til. Hann snýst ekki um það heldur um hvort það verði gert á hverjum stað fyrir sig, hvernig, hvenær, í hve miklum mæli og í þágu hvers. Það er ekki ágreiningur um það að sjálfsögðu, að ef fyrst verði gengið frá rammaáætlun og hún lögfest, ef varúðarreglan og meginreglur umhverfisréttarins verði í heiðri hafðar, og hér stuðlað að sjálfbærri þróun í orkubúskap okkar og þjóðarbúskap almennt, þá getur einhver beislun orkulinda þar sem sæmileg sátt er um áfram verið hluti af valkostum okkar í atvinnuuppbyggingu, að sjálfsögðu. Það er afvegaleiðandi tal og það eru vísvitandi útúrsnúningar að halda öðru fram. (Gripið fram í: Hvar?) Þetta upplýsa þeir sem skrifa og fjalla um umhverfismál. Þetta er okkar afstaða, okkar vinstri grænna. En við höfnum þeim ósköpum sem nú eru á teikniborðunum og á þeim forsendum sem þetta á að gerast og áður en nokkur rammaáætlun og nokkurt almennilegt verklag í þessum efnum lítur dagsins ljós. Við höfnum því að Skjálfandafljót, jökulvötnin í Skagafirði, Bitruvirkjun, neðri hluti Þjórsár og fleiri og fleiri svæði sem menn eru að reyna að læsa klónum í séu lögð undir. (BJJ: Hræðsluáróður.) Og það er dapurleg staða fyrir þá sem unnu til verðlauna fyrir tillögur um hátækniáratuginn ef veruleikinn nakinn og kaldur birtist okkur þannig að það er búið að taka alla orkuna frá næstu árin í álver og ekkert nema álver og biðlistarnir sem hæstv. umhverfisráðherra státar af að séu á skrifstofunni hjá sér af mönnum sem eru með ýmsar aðrar hugmyndir, lítil og meðalstór fyrirtæki, nota miklu minni orku, hrein framleiðsla, þau komast ekki að, þau hrökklast jafnvel til Kanada.

Meginspurningarnar um stefnu ríkisstjórnarinnar eru þá þessar: Er hún sem sagt þessi, getur þá hæstv. iðnaðarráðherra svo dapurlegt sem það er, staðfest að þetta sé allt í gangi? Er það niðurstaðan að öll stóriðjuáformin sem voru í undirbúningi á síðasta kjörtímabili, á tíma ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks séu á fullri ferð?

Í öðru lagi með hvaða veganesti ætla ráðherrar og ekki síst ráðherra Samfylkingarinnar til Kaupmannahafnar annað haust? Er það þá þannig að menn ætla að keyra langt fram úr öllum viðmiðum, langt fram úr íslenskum undanþágum, langt fram úr heimildunum fram til 2012 og með hvaða veganesti ætlið þið til Kaupmannahafnar? Verður meira og minna öll virkjanleg orka næstu árin og er hún fyrir fram frátekin fyrir álver? Verður staðan þannig ef menn banka upp á hvort sem heldur er á Suðurnesjum, suðvesturhorni landsins, Norðurlandi, segjast hafa áhuga á iðnaðaruppbyggingu með hreinni framleiðslu og þurfi nokkra tugi megavatta raforku að þá verði áfram sagt: Nei, því miður, við erum búnir að skuldbinda okkur til að tala ekki við aðra?

Er ríkisstjórnin þá að lokum og með stuðningi Samfylkingarinnar staðráðin í að ástunda þessar hrossalækningar líka í efnahagslegu tilliti, að keyra inn í hagkerfið með tilheyrandi þenslu, verðbólguhættu og hærri vöxtum en ella væri, tvö þrjú risavaxin stóriðjuverkefni á næstu missirum?