135. löggjafarþing — 117. fundur,  3. sept. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í virkjana- og stóriðjumálum.

[14:19]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon skrúfaði eins og vænta mátti upp desíbelin í ræðu sinni en það var mjög erfitt að fylgja hinum rökræna þræði í ræðu hv. þingmanns. Í fyrsta lagi sagði hv. þingmaður að það væri ekki ágreiningur um að það mætti virkja svo fremi sem það yrði ekki til þess að skaða náttúruperlur. Í öðru lagi sagði hv. þingmaður að hann vildi gjarnan virkja til þess að fá hingað grænan hátækniiðnað til Íslands. Í þriðja lagi kom hv. þingmaður hér og jós úr skálum reiði sinnar yfir einhverja hugaróra síns eigin sjálfs um það hvað væri á teikniborðinu. Hv. þingmaður kom hér t.d. og velti því upp að þessi ríkisstjórn hefði áform um að virkja Jökulsá á Fjöllum. Það liggur alveg skýrt fyrir að það eru engin áform um það, þvert á móti er það einbeittur ásetningur núverandi ríkisstjórnar að allt vatnasvið Jökulsár á Fjöllum verði partur af Vatnajökulsþjóðgarði til þess að vernda þessa mikilúðlegu jökulelfi til framtíðar sem dæmi um ósnortna jökulá á Íslandi.

Að því er varðar ýmsar aðrar spurningar vísa ég þeim til þeirra sem eiga og geta svarað þeim. Ég hef ekki hugmynd um hvað borgarstjórn Reykjavíkur ætlar að gera varðandi Bitru. Ég hef orðið þess áskynja að það er kominn endurnýjaður vilji, a.m.k. í parti borgarstjórnarinnar, til að skoða Bitru en ég veit ekkert um það.

Afstaða mín t.d. til olíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum hefur legið fyrir í meira en ár. Ég tel að það sé ekki jákvætt að fá þess konar iðnað inn á Ísland m.a. vegna mengunarhættu. Ég vísa til þess þegar ég lagði fram svar við skriflegri fyrirspurn að ég var ekkert að fela það að mér gekk illa að fá upplýsingar um hvers konar mengun kynni að stafa af þeirri verksmiðju miðað við það hvernig menn hafa hugsað sér hana.

Hv. þingmaður fór skoplegum orðum um stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi hátækni og græna iðju á Íslandi. Ég vil vekja eftirtekt hv. þingmanns á því og hann sá það strax í fjárlögum í fyrra að þar er ríkisstjórnin að hrinda í framkvæmd sinni yfirlýstu stefnu um að tvöfalda framlög til Tækniþróunarsjóðs á Íslandi. Það var m.a. út á það sem Samfylkingin vann til þeirra verðlauna sem hv. þingmaður nefndi hérna. Það er rétt að geta þess líka að okkur í ríkisstjórninni tókst að koma á laggir samlagssjóði upp á 4,6 milljarða sem á að vinna fyrir hátækniiðnað á Íslandi. Það tókst fyrri ríkisstjórn ekki en þetta hefur okkur tekist.

Að því er varðar síðan það sem hv. þingmaður nefnir skort á orku fyrir það sem hann kallar lítil og meðalstór fyrirtæki í nýjum iðnaði þá vil ég að það komi alveg skýrt fram að það er alveg ljóst að á næstu árum, miðað við það sem blasir við, verður hægt að afla orku til þessara fyrirtækja.

Hv. þingmaður spyr mig m.a. um Þjórsá og afstöðu mína til Þjórsár. Hvernig dettur hv. þingmanni í hug að óska eftir því að ég gefi yfirlýsingu um Þjórsá hér og nú í dag? Ég, samkvæmt lögum, er sá ráðherra sem að lokum á að skera úr um það í fyrsta lagi hvort þeir sem vilja virkja í Þjórsá fái virkjunarleyfi og í öðru lagi ef þörf krefur til þess að fá eignarnámsheimild, þá á ég að úrskurða það. Það kemur einfaldlega fram þegar ég hef uppfyllt þær lagalegu skyldur sem á mér hvíla varðandi það efni hvort til þess verður gripið. En það verður að upplýsa það í þessari umræðu að það var hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem sagði hér í þessum sölum fyrir nokkrum missirum að Þjórsá og virkjanirnar sem nú er deilt um í Þjórsá væru ákjósanlegri valkostur en margir aðrir. Það hefur enginn þingmaður í stjórnarliðinu tekið jafnmikið upp í sig og hv. þingmaður varðandi lofsöng til virkjunarkostanna í neðri hluta Þjórsár. Reyndar er það svo ef farið er yfir sviðið að þá blasir það einfaldlega við þegar ég skoða þá sem sitja í þessum sal að hér er enginn þingmaður staddur sem hefur jafnoft á sínum ferli stutt stóriðju á jafnmörgum stöðum á landinu og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. (Gripið fram í.)

Það er að vísu þannig að hv. þingmaður er búinn að skipta um skoðun núna og hann verður bara að eiga það við sig. En hann er búinn að vera í flokkum sem hafa stutt stóriðju á Húsavík, að vísu ekki ál, sem studdu stækkun Straumsvíkur á sínum tíma, sem hafa stutt álver á Grundartanga og þessi hv. þingmaður, sem kemur hér með öllum þessum hávaða, var í ríkisstjórn sem studdi álver á Keilisnesi sem að vísu aldrei varð. (Gripið fram í.) Það var hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem flutti hérna miklu meiri lofsöng en núverandi iðnaðarráðherra hefur nokkru sinni flutt um gæði áls sem sérstaks umhverfisvæns málms. Þegar hv. þingmaður kemur núna þegar við stöndum andspænis atvinnuleysi, meiru en við höfum staðið andspænis ákaflega lengi og þegar það liggur fyrir að við þurfum að slá undir verðmætasköpunina, og bókstaflega skopast að þeim möguleikum sam blasa við, bæði í hefðbundinni stóriðju en líka í grænum hátækniiðnaði, þá segi ég í fyrsta lagi: Heyr á endemi. Í öðru lagi segi ég: Það var þessi þingmaður, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, sem í ræðu úr þessum stóli lagði til við Alþingi og stjórnarliðið sem hann studdi þá að þeir styddu framgang álvers á Keilisnesi. Af hverju? Vegna þess að hv. þingmaður sagði og sló enga varnagla varðandi náttúrvernd og umhverfi, hann sló einn varnagla og hann sagði: „Ef hagstæðir samningar nást er stóriðja á Keilisnesi valkostur í atvinnumálum.“ (Gripið fram í.) Þetta verða menn bara að hafa hugfast þegar þeir hlusta á þennan endemis málflutning.

Hv. þingmaður kemur síðan og ber mér og hæstv. utanríkisráðherra, sem er formaður Samfylkingarinnar, það á brýn að hafa gert einhverja leynisamninga við þessa herramenn í Sjálfstæðisflokknum. Það voru engir leynisamningar gerðir. Það sem við náðum var kjarninn í því sem kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og honum finnst eftirsóknarvert vegna þess að hann segir: „Það má virkja og jafnvel til hefðbundinnar stóriðju ef það samrýmist loftslagsmarkmiðunum og ef það samrýmist rammaáætluninni.“

Meginkjarninn í því sem núverandi ríkisstjórn náði saman um á Þingvöllum þegar hún var mynduð var að í hvaða framkvæmdir sem menn ráðast, hefðbundna stóriðju, virkjanir vegna stóriðju nýja atvinnulífsins, grænu stóriðjunnar, hátækniiðnaðarins, þá verður ekki farið inn á verðmæt náttúrusvæði sem ekki er búið að raska. Og hv. þingmaður, þrátt fyrir allan hávaðann í honum, getur ekki bent á eitt einasta dæmi um það að þessi ríkisstjórn hafi gert það hingað til. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir kom hér tvisvar sinnum í fyrra með stöllu sinni hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og hélt mikla ræðu um hin yfirvofandi svik iðnaðarráðherra varðandi merkilegt svæði fyrir norðan, Gjástykki. Jæja, afstaða mín liggur fyrir í því efni. Það kom sumum á óvart og sumum líkaði það ekki. Það sem ég sagði þá var að vísa til þess sem við náðum saman um við myndun ríkisstjórnarinnar og ég stóð við það. Ég lýsi því alveg klárt og kvitt yfir að þessi ríkisstjórn mun halda áfram að byggja upp íslenskt atvinnulíf með því að nýta auðlindir íslenskrar náttúru, þar á meðal auðlindir orkugjafa, af varúð og skynsemd gagnvart auðlindinni en líka af mikilli umhyggju gagnvart náttúrunni sjálfri. Það er leiðarstefið í öllu því sem við erum að gera, þ.e. að gæta þess að ekki verði með nokkrum hætti farið inn á þær náttúruperlur sem við teljum, þjóðin, Alþingi, að séu þess eðlis að það megi ekki raska þeim. (Gripið fram í: Bitra?) Og það er þess vegna … (SJS: Þjórsá?) Hv. þingmaður talar um Þjórsá. Það var hv. þingmaður — ég ætla nú ekki að vísa í ræðu hans hér um árið — sem með mér og ýmsum öðrum hér kallaði eftir því að farið yrði í rammaáætlun til þess að meta kostina. Það var gert varðandi vatnsaflið. Sú rammaáætlun sem við erum í núna varðar fyrst og fremst háhitasvæðið. Það er vinnuaðferð sem hv. þingmaður talaði mest um í þessum sölum og sótti til Noregs og dásamaði þar hina góðu norsku krata sem hefðu tekið þetta upp með góðum stuðningi flokkssystkina hans.

Hvar var Þjórsá og þær þrjár virkjanir sem við deilum núna um í þeirri röð? Númer eitt og númer tvö og Urriðafoss númer níu. Það var í krafti þeirrar niðurstöðu sem hv. þingmaður leyfði sér að segja það sem ég hef aldrei sagt að efri virkjanirnar tvær í neðri hluta Þjórsár væru ákjósanlegri virkjunarkostir en aðrir vegna þess að þá var hann samkvæmur sjálfum sér. Hann hafði óskað eftir ákveðinni vinnuaðferð, menn fóru í það, það kom niðurstaða og þá studdi hann það. Nú er bara annað uppi hjá hv. þingmanni, það er svo einfalt, það er ekkert öðruvísi.

Núverandi ríkisstjórn hefur tekið sér sterkari stjórntæki en fyrri ríkisstjórnir hafa gert varðandi samspil náttúruverndar og stóriðju. Það er sú rammaáætlun sem ekki var búið að vinna gagnvart háhitasvæðunum. Það er þess vegna sem menn eru í þessari vinnu og þegar henni lýkur verður niðurstaðan lögð fyrir Alþingi Íslendinga og það verður hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem fær að fjalla um það, koma öllum sjónarmiðum sínum á framfæri, og það verða fulltrúar allra Íslendinga, löggjafinn, sem að lokum munu taka ákvörðun.

Þetta er opið, gagnsætt og lýðræðislegt fyrirkomulag. Þetta er ekki eins og áður þegar það var lokað inni í ráðuneytunum, þegar upphafsskrefin voru alltaf tekin af orkufyrirtækjunum og embættismönnum í ráðuneytum og þrýst hingað inn. Alþingi tók síðan ákvörðun án þess að þessi tegund af áætlun lægi fyrir. Þá var að vísu til varnagli sem var sá að iðnaðarráðherra þurfti að skrifa upp á orkusölusamningana og við vitum öll hvernig þeir varnaglar voru. Í kjölfar þessa, eftir að ríkisstjórnin hafði tekið þessa ákvörðun fleygði ég út úr ráðuneytinu öllum þeim óskum um rannsóknar- og nýtingarleyfi á nýjum óröskuðum svæðum sem þar lágu inni og höfðu sum legið árum saman. Það voru t.d. svæði eins og Grændalur, Kerlingarfjöll og Fremi-Námar sem ég veit að hv. þingmanni er annt um.

Það var líka þess vegna, til að undirstrika staðfastan vilja sinn í þessu efni, sem ríkisstjórnin tók sex mikilvæg háhitasvæði með einstakt verndargildi út fyrir sviga. Það voru svæði eins og Askja, Hveravellir, Torfajökulssvæðið. Ég man að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði að það skipti engu máli, engum dytti í hug að virkja þar. Ég upplýsi hann um það að innan Vatnajökulsþjóðgarðsins eru svæði sem ég hef séð skrifað í gömlum plöggum iðnaðarráðuneytisins sem ná allar götur til daga Hjörleifs Guttormssonar, fjögur, fimm svæði, að menn vildu virkja þar. Þökk sé honum og þinginu öllu að það er þó búið að vernda þessi svæði.

Ríkisstjórnin sagði líka að ekki yrði farið í Langasjó í virkjunarskyni og hv. þingmenn vita það. Það er kannski blæbrigðamunur á milli afstöðu minnar og ýmissa í Sjálfstæðisflokknum varðandi Norðlingaölduveitu. Menn vita afstöðu mína í því. En það er þó samstaða um að vernda hin viðkvæmu votlendi Þjórsárvera og það er mikilvægasti áfangi sem náðst hefur í 20 ára baráttusögu þess.

Aðeins varðandi þau tvö stóriðjuver sem nú eru í gangi. Þetta eru áform sem báðum var hrundið af stað í tíð síðustu ríkisstjórnar. Hvorki núverandi né fyrri ríkisstjórn hefur nokkru sinni komið með neinum formlegum hætti að Helguvík. Þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var að biðla til Sjálfstæðisflokksins um að komast í ríkisstjórn með honum í beinni útsendingu daginn eftir kosningar þá orðaði hann það með þeim hætti, það var ekki hægt að skilja það öðruvísi, að hann teldi að það væri tæknilega ókleift að stöðva Helguvík nema með lögum. Kristján Már Unnarsson fréttamaður spurði hann að því og hv. þingmaður, sem belgir sig hér út á kostnað félaga sinna í þinginu, sagði að það væri ekkert „ultimatum“ af hálfu VG. Með öðrum orðum, VG var á þeim tíma reiðubúið til þess að kaupa sig inn í ríkisstjórn gegn því að falla frá prinsippunum.

Um Bakka gegnir allt öðru máli. Fyrri ríkisstjórn kom að því, ég kom líka að því fyrir hönd núverandi ríkisstjórnar. Ég styð Bakka og ríkisstjórnin gerir það. Ég held að það skipti máli fyrir samfélagið á þeim stað að fá þessi 1.200 nýju störf. (Gripið fram í: En Helguvík?) Hins vegar lá það alveg ljóst fyrir að Alcoa vildi þriggja ára frest, ég sagði eitt ár. Við náðum 15 mánuðum vegna þess að það eru fleiri um orkuna en bara Alcoa. Alcoa vildi líka halda inni ákveðnu loftslagsákvæði frá fyrra samningi sem batt hendur ríkisstjórnarinnar. Það fór ekki inn. (Gripið fram í.)