135. löggjafarþing — 117. fundur,  3. sept. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í virkjana- og stóriðjumálum.

[14:45]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Í þeirri efnahagslægð sem gengur yfir veröldina leita allar þjóðir þeirra leiða sem færar eru til að verja og helst bæta lífskjör sín. Íslendingar njóta þeirrar gæfu að landið býr yfir miklum auðlindum sem gefa okkur færi á því að glíma við aðsteðjandi vanda á nokkuð öðrum forsendum en margar aðrar þjóðir. Við eigum alla möguleika á að auka verðmætasköpun þjóðarinnar með þeim hætti að nýta auðlindir landsins til þess að auka atvinnustarfsemi og útflutningstekjur þjóðarbúsins.

Orkustofnun hefur lagt mat á mögulegar virkjanir eða orkuframleiðslu Íslands. Niðurstaða sérfræðinga er sú að við eigum möguleika á því að virkja allt að 50 teravattstundir í vatnsafli og jarðhita. Í dag nýtum við einungis um 16 teravattstundir eða einn þriðja af virkjanlegri orku og eigum því ónýtta möguleika sem nema tveimur þriðju af virkjanakostum þjóðarinnar. Þann fyrirvara verður þó að hafa á þessu mati að nokkur óvissa getur verið um mat á jarðhitaorkunni og í því sambandi má nefna að unnið er að rannsóknum á enn frekari nýtingu jarðhita með svokölluðum djúpborunum og ef þær gefa góða raun er ljóst að tækifæri okkar í orkuframleiðslu gætu aukist til stórra muna.

Möguleikar okkar í þessum efnum eru því afar miklir og aðrar þjóðir líta þessa stöðu öfundaraugum. Nálægar þjóðir svo sem Norðmenn og Svíar hafa þegar nýtt um 60% framleiðslugetu sinnar í vatnsafli og líkast til er Sviss að nýta u.þ.b. 90% af getu landsins til að framleiða rafmagn í vatnsaflsvirkjunum. Þrátt fyrir að þessi lönd hafi virkjað svo stóran hluta vatnsfalla sinna geta sjálfsagt flestir verið sammála um að ekkert þessara landa þykir hafa haft uppi landeyðingarstefnu. Þvert á móti eru þetta traustar og vel stæðar þjóðir í löndum sem rómuð eru fyrir náttúrufegurð.

Skoðanir eru mjög skiptar um nýtingu þeirrar orku sem landið býr yfir og oftar en ekki láta andstæðingar virkjana þeirra verðmæta sem hér um ræðir á þá lund að Íslendingar gangi svo hratt á þessi verðmæti að í óefni stefni og að hér á landi sé rekin nokkurs konar landeyðingarstefna. Nægir í því sambandi að minna á umræðu um Kárahnjúkavirkjun, neðri hluta Þjórsár, Bitru og e.t.v. mætti margt fleira tína til.

Ég tel alveg ljóst að þrátt fyrir að vissulega höfum við þurft að færa ákveðnar fórnir til að byggja upp stóriðju hér á landi undanfarin ár, þá sé ábatinn og sá vöxtur sem hún hefur skilað okkur mun meiri. Það er hollt fyrir menn að velta því fyrir sér hvernig við stæðum í dag varðandi útflutning og viðskiptajöfnuð ef ekki hefðu komið til framkvæmdir og álverið fyrir austan. Við stæðum miklu verr að vígi og ættum lengra í land að ná því jafnvægi í hagkerfi sem við erum öll sammála um að þurfi að komast á. Ég minni líka á að ef ekki hefði verið fyrir Kárahnjúka sæjum við fram á færri tækifæri fyrir ungt menntað fólk til að snúa heim til landsins og nýta þekkingu sína og færni í þágu þjóðarinnar því að þessi atvinnustarfsemi hefði verið byggð upp í öðru landi hvort sem er þar sem rík þörf er í veröldinni fyrir framleiðslu stóriðjunnar.

Þeirri spurningu er stundum velt upp hvort við Íslendingar eigum nokkuð að vera að standa í uppbyggingu í stóriðju og hvort við getum ekki gert eitthvað annað. Sumir halda því jafnvel fram að hér ráði för blind trú á álbræðslur í atvinnustefnu stjórnenda landsins. Ég tel að þessi málflutningur sé ekki skynsamlegur. Aðalatriðið er að hlutverk okkar stjórnmálamannanna er að móta það umhverfi sem ýtir undir blómlega atvinnustarfsemi Íslendinga, ekki að leggja stein í götu tiltekinna framkvæmda eða fyrirtækja. Hér á landi getur hæglega farið saman að reisa álver og gagnaver eða álþynnuverksmiðjur og þar fram eftir götunum. Það er ábyrgðarhluti okkar stjórnmálamannanna að standa ekki í vegi fyrir framkvæmdum og uppbyggingu.

Nýlega fréttum við af vali norska fyrirtækisins REC um stað fyrir framleiðslu á sviði kísilhreinsunar. Líkur þóttu til að þessi starfsemi mundi byggjast upp í Þorlákshöfn en því miður varð sú ekki raunin heldur varð Kanada fyrir valinu og menn geta spurt sig hvers vegna. Gæti það hafa stafað af því að fyrirtækinu hafi þótt óspennandi að ganga inn í þetta verkefni í ljósi þeirra umræðna sem verið hafa um orkuöflun til starfseminnar, innbyrðis deilum í sveitarfélögunum eða gátu Kanadamenn boðið eitthvað annað eða betra en Íslendingar sem gerði útslagið?

Það er sem betur fer liðin tíð að reist sé níðstöng gegn áformum sem þessum líkt og gert var þegar Járnblendiverksmiðjan í Hvalfirði var reist en engu að síður heyrast oft stórkarlalegar mótbárur gegn atvinnuuppbyggingu sem fremur eru byggðar á tilfinningum en staðreyndum. Það er illt til þess að vita að enn í dag eru stjórnmálaöfl í landinu sem leyfa sér að fagna því að unnið sé gegn ákveðinni tegund atvinnurekstrar sem sagan sýnir að fellur vel að íslenskum aðstæðum. Á þessum sviðum bíða ótal tækifæri og ábyrgðarhluti er að mínu mati að láta þau ganga sér úr greipum vegna seinagangs og þvermóðsku.

Ég tek undir með forsætisráðherra sem sagði í gær að það væru hagsmunir almennings að stjórnvöld liðki fyrir arðbærri nýtingu auðlinda. Þegar litið er yfir sviðið sést ágætlega að Íslendingar hafa staðið sig framúrskarandi vel í þessum efnum og eru enn að sem betur fer. Unnið er að verkefnum á Bakka við Húsavík og við Helguvík sem hvort tveggja eru álbræðslur. Við stöndum á þröskuldi þess að fá einnig til landsins orkufreka starfsemi sem er meiri hátækni. Ég nefni sem dæmi Becromal á Akureyri, netþjónabú, sólarkísil eða hreinkísilframleiðslu fyrir sólarrafala og svo mætti áfram telja. Ég fagna öllum þessum áformum og vona svo sannarlega að fleiri tækifæri stór og smá sem styrkja og bæta lífskjör þjóðarinnar muni líta dagsins ljós á næstu missirum.

Það liggur fyrir að mikill efnahagslegur ávinningur er að því að byggja upp stóriðju hér á landi. Það sem skiptir máli er nettóávinningurinn, þ.e. það sem verður eftir í landinu þegar búið er að greiða erlend aðföng og eftir þessu var spurt hér áðan af hv. framsögumanni Steingrími J. Sigfússyni. Það er fróðlegt að bera þetta saman við sjávarútveginn og áliðnaðinn á árinu 2008 út frá spám um útflutning á árinu. Þannig spáir Kaupþing að útflutningstekjur af áli verði 135 milljarðar og 119 milljarðar af sjávarútvegi. Að gefnum þeim forsendum að launahlutfall í áliðnaði sé um 10% þá mun þetta þýða að launagreiðslur í sjávarútvegi verði um 41 milljarður á móti 13,5 milljörðum í áli. Út frá þessum sömu spám um útflutningstekjur er unnt að áætla hvað áliðnaðurinn gefur af sér fyrir þjóðarbúið. Almennt er reiknað með að vöruútflutningur á Íslandi hafi skilað um 50% nettó í þjóðarbúið. Líklegt þykir að innlendi þátturinn sé um eða yfir 40% fyrir álið en gera má ráð fyrir 80% hlutfalli í sjávarútvegi. Hér er athyglisvert að setja það í samhengi við þorskinn, þá skepnu sem allt fram undir lok síðustu aldar réð mestu um lífsafkomu þjóðarinnar. Þorskafurðir hafa á undanförnum árum verið um 40% af útfluttum sjávarafurðum sem verður væntanlega lægra á árinu 2008 út af skerðingu. Samt sem áður þýðir þetta að nettóávinningur þjóðarbúsins samkvæmt þeim forsendum sem ég gat um áðan frá Kaupþingi er sá að 38,4 milljarðar skila sér í þjóðarbúið fyrir þorskinn á móti 54 milljörðum fyrir álið, þ.e. að á árinu 2008 mun þetta þýða að áliðnaðurinn gefur töluvert meira af sér umfram þorskinn inn í þjóðarbúið.

Í framhaldi af þessu er óhjákvæmilegt að minnast á álverið á Bakka og hvernig undirbúningi framkvæmda þar miðar. Eins og ég hef áður sagt taldi ég úrskurð umhverfisráðherra vera óþarfan og óheppilegan. Með honum fór ráðherra gegn niðurstöðu og mati Skipulagsstofnunar og umsögnum fleiri aðila. Raunar er það svo þegar úrskurðurinn er lesinn í gegn og skoðað hvað umsagnaraðilar segja að einungis Umhverfisstofnun mælir með því að farið sé í heildarmat á umhverfisáhrifum en Skipulagsstofnun hafði talið heppilegra að hver þáttur framkvæmdanna yrði metinn sjálfstætt. Það sem er athyglisverðast er að Skipulagsstofnun taldi að það verklag mundi ekki einungis spara tíma heldur skila efnislega sömu niðurstöðu og heildarmatið sem mun tefja framkvæmdir töluvert. Lykilatriðið í þessu máli er að úrskurðurinn seinki ekki framkvæmdum við Bakka á Húsavík. Þar er grundvallaratriði að unnt verði að ráðast í rannsóknarborholur á næsta ári, á árinu 2009, og það ber að hafa í huga að þær er ekki hægt að vinna nema að sumri til. Og ég veit og ég treysti ríkisstjórn Íslands til þess að hafa forustu um að svo verði.

Hæstv. forseti. Ég vil ljúka máli mínu með því að skora á þingheim að sýna ábyrgð og framsýni í þeim aðstæðum sem við stöndum nú frammi fyrir hvað varðar efnahagsmál þjóðarinnar. Við Íslendingar búum yfir miklum náttúruauðlindum sem við höfum margoft sýnt að við kunnum að nýta á skynsamlegan og arðbæran hátt og hefur þeim aðferðum og þeirri þekkingu sem er beitt hér á landi raunar ítrekað verið hampað og hrósað erlendis. En verðmætin vaxa ekki á trjánum og til þess að auka lífskjör í landinu verðum við að byggja upp.