135. löggjafarþing — 117. fundur,  3. sept. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í virkjana- og stóriðjumálum.

[14:53]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þau sjónarmið sem hér hafa komið fram í umræðunni að það sé bæði rétt og skylt að nýta auðlindir lands og sjávar til að skapa þjóðinni betri lífskjör en hún hefur búið við fram til þessa. Það á ekki að vera neinn vafi, a.m.k. ekki í mínum huga og í mínum flokki, að ráðast á í það að nýta auðlindir landsins, orkuauðlindina, hvort heldur það eru fallvötnin eða jarðhitinn, til þess að vinna að því að skapa störf og verðmæti hér á landi. Menn eiga auðvitað að gæta að umhverfisáhrifum við ákvörðun slíkra mála og sjónarmið manna í þeim efnum hafa breyst mjög mikið á undanförnum áratugum og viðhorf til umhverfisverndar hafa styrkst skulum við segja frá því sem var fyrir t.d. 20 eða 30 árum þegar umræðan var líka mikil um þessi mál ekki síður en núna. Allt hefur það áhrif á mat manna á því hversu mikið umhverfisrask menn treysta sér til að þola við ákvörðun um nýjar framkvæmdir í þessum efnum. Meginatriðið á að vera að menn eiga að nýta auðlindir landsins. Þær eru best nýttar með því að breyta þeim í lífskjör fyrir þjóðina.

Virðulegi forseti. Þær framkvæmdir sem hér hefur helst verið rætt um á undanförnum missirum, við Helguvík og Bakka, eru þess eðlis að enginn vafi er í huga míns þingflokks að við eigum að ráðast í þær. Við eigum auðvitað að gera það með hliðsjón af efnahagsmálum og gæta þess að setja ekki of mikinn þrýsting á þau eins og menn gerðu reyndar því miður með Kárahnjúkavirkjun. Um nokkurra ára skeið var of hátt gengi sem er að koma okkur dálítið í koll um þessar mundir og þess vegna er mikilvægt að tímasetningin sé rétt þegar ráðist er í framkvæmdir.

Það er það langt í framkvæmdir við Bakka að engin ástæða er til að búast við því við núverandi aðstæður að hægja þurfi á þeirri framkvæmd frá því sem spár líta út um hvenær framkvæmdir geti hafist. En það þarf að skoða Helguvíkurframkvæmdir og setja þær af stað á þeim tíma að við bætum ekki í þenslu heldur verði búið að ná henni niður tryggilega sem vonandi verður ekki seinna en í vetur þannig að þær framkvæmdir muni ekki á nýjan leik setja í gang þenslu og verðbólgu sem við höfum mátt búa við síðan á vormánuðum.

Ég held að við þurfum líka að huga að því að nýta þessar auðlindir landsins á þann veg að það styrki búsetu um landið. Auðvitað er þetta eign þjóðarinnar og það þarf að setja það inn í stjórnarskrá lýðveldisins að þessar náttúruauðlindir séu þjóðareign en þær á að nýta líka þannig að þær styrki búsetu í þeim landsfjórðungum þar sem auðlindirnar eru. Við leggjum mikið upp úr því að orkan í Þingeyjarsýslu verði nýtt með þeim hætti að það styrki búsetu á því landsvæði. Við bendum líka á að Sunnlendingar leggja mikið af orkuauðlindum til þjóðarinnar og það er eðlilegt að litið sé til þess við frekari nýtingu þeirra til atvinnuuppbyggingar í þeim landsfjórðungi.

Þessi sjónarmið eiga rétt á sér og það á að hafa þau í huga, virðulegi forseti. Það er fráleitt eins og var á sínum tíma sem ég held að séu sem betur fer horfin viðhorf að það væri eðlilegt að virkja jökulárnar á Austurlandi og flytja raforkuna með línu þvert um landið endilangt til Keilisness á Reykjanesi eins og áform voru uppi um fyrir um 20 árum. Þetta þótti eðlilegt á þeim tíma, ég tel þetta ekki eðlilegt í dag. Ég teldi það algjörlega fráleitt ef menn væru að ráðast í Kárahnjúkavirkjun um þessar mundir að gera það með þeim áformum að láta alla atvinnusköpunina sem af framkvæmdinni verður koma fram í allt öðrum landsfjórðungi.

Ég held að menn eigi ekki að hika mikið í þessum efnum og ég tek undir þær áhyggjur sem komu fram í ræðu áðan að kannski er ágreiningurinn um virkjunar- og stóriðjumálin í ríkisstjórninni hluti af ástæðunni fyrir því að ákveðið var að flytja stóriðju, sem til stóð að reisa í Þorlákshöfn, til Kanada. Kannski komu fleiri atriði þar að en ég er því miður uggandi um að sá harði ágreiningur sem verið hefur í þessum málaflokki í íslenskum stjórnmálum og er að finna í þeirri ríkisstjórn sem nú situr hafi dregið úr vilja manna til að ráðast í slíkar framkvæmdir í því umhverfi sem leiðir af slíkum átökum. Og þá held ég að komið sé að því sem er kannski aðalumræðuefni þessarar umræðu. Hver er stefna núverandi ríkisstjórnar? Hvað ætlar hún sér að gera í þessum efnum? Það er það sem skiptir máli. Það er alveg rétt sem komið hefur fram í þingsölum að það skiptir miklu máli að halda áfram að nýta auðlindir landsins til að skapa ný verðmæti til að bæta lífskjörin til lengri tíma litið og það hjálpar okkur til að komast út úr þeim þrengingum sem við göngum í gegnum um þessar mundir. En hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í þessum efnum? Ef við lítum á stjórnarsáttmálann þá er ekki eitt orð í honum um að halda eigi áfram að virkja með þeim krafti sem verið hefur. Það eina sem segir í stjórnarsáttmálanum um það efni, virðulegi forseti, er að stórframkvæmdir eigi að tímasetja í ljósi markmiða um lága verðbólgu og lága vexti. Það verður ekki skilið á þann veg að það sé yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um að hún ætli sér að ráðast í tvær nýjar stóriðjuframkvæmdir á næstu árum, á þessu kjörtímabili. Hins vegar er langur kafli í stjórnarsáttmálanum um umhverfismál, um áherslur ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Þar segir, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin einsetji sér að Ísland verði í fararbroddi þjóða heims í umhverfismálum og að ná víðtækri sátt um verndun verðmætra náttúrusvæða landsins og gera skýra áætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Við vitum að ef það er markmið ríkisstjórnarinnar að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum þá verða ekki byggð fleiri álver. Ég held að það sé alveg ljóst. Það sem lesa má úr sáttmála ríkisstjórnarinnar er því ef eitthvað er stefna Samfylkingarinnar í stóriðjumálum.

Ég er hér með áherslur umhverfisráðherra, virðulegi forseti, sem gefnar voru út á síðasta ári. Þar er sérstök áhersla lögð á það að vinna að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og að styrkja þurfi stöðu náttúru og umhverfisverndar á Íslandi og tímabært að rétta hlut náttúruverndar sem farið hefur halloka gagnvart hagsmunum stóriðju. Þetta er stefna umhverfisráðherra ríkisstjórnarinnar. Það kom líka fram í ræðu þess ráðherra á umhverfisþingi á síðastliðnu hausti að sátt milli nýtingar og verndar verði að byggjast á því að jafna aðstöðu náttúruverndar gagnvart þeim öflum sem knýja á um frekari stórframkvæmdir. Hver eru þau öfl? Sjálfstæðisflokkurinn? Þar segir, með leyfi forseta:

„Við sem nú lifum höfum ekki leyfi til að ráðstafa stórum hluta orkuauðlinda okkar og arfi komandi kynslóða á sem skemmstum tíma. En það hefur sýnst vera stefnan á undanförnum árum — full kapps og án forsjár.“

Tvö álver á þessu kjörtímabili og virkjanaframkvæmdir. Er það stefnan sem umhverfisráðherrann er að lýsa? Er það stefnan sem menn sjá í stjórnarsáttmálanum? Nei, virðulegi forseti, það sem menn sjá í stjórnarsáttmálanum og heyra á máli umhverfisráðherra ríkisstjórnarinnar er stefna Samfylkingarinnar.

Og hvað verður gert á þessu kjörtímabili, virðulegi forseti? Verða auðlindir lands og sjávar nýttar til þess að bæta lífskjörin? Ég fæ ekki betur séð en að Sjálfstæðisflokkurinn sé í úlfakreppu. Hann kemur hér engu fram. Hann verður að láta það yfir sig ganga að stóllinn er settur fyrir álver á Bakka og hann verður að kyngja því. Ég fæ ekki séð að það sé líklegt að núverandi ríkisstjórn geri mikið á þessu kjörtímabili í að nýta orkuauðlindir landsmanna.