135. löggjafarþing — 117. fundur,  3. sept. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í virkjana- og stóriðjumálum.

[15:24]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kjartan Ólafsson sagði áðan að frá Alþingi þurfi að koma skýr skilaboð í virkjunar- og landnýtingarmálum og ég er honum algjörlega sammála. Þess vegna var hæstv. iðnaðarráðherra verulegur vandi á höndum þegar hann hóf hér mál sitt og fjallaði um þessi mál vegna þess að stefna ríkisstjórnarinnar og málefnasamningur hennar gefur satt að segja mjög takmarkaðar vísbendingar um hvað ríkisstjórnin hyggst fyrir í þessu efni. Þar hefðu þurft að koma fram skýr skilaboð, hv. þm. Kjartan Ólafsson. Þar var viðfangsefnið og þar áttu hlutirnir að koma fram.

Ég fór sérstaklega yfir stjórnarsáttmálann með tilliti til þess hvar talað væri um virkjunarmál í stjórnarsáttmálanum og ég fann að fjallað var um það á einum stað þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun áfram kappkosta að virkja kraftinn í menningarlífi landsmanna ...“ (ÁI: Er það ekki gott?) Það er mjög gott, verðugt viðfangsefni.

Í kafla stjórnarsáttmálans Kraftmikið atvinnulíf er fjallað um þekkingarsköpun, að styðja menningu og listir, útrás íslenskra fyrirtækja, útrás orkufyrirtækja, mikilvægi öflugs landbúnaðar og stöðugleika í sjávarútvegi en það er ekki fjallað um stefnu ríkisstjórnarinnar í virkjunar- og stóriðjumálum. En í kaflanum Í sátt við umhverfið er sérstaklega fjallað um gerð rammaáætlunar og hvar ekki megi skerða eitt eða neitt.

Þetta er ósköp rýrt og það er í sjálfu sér engin furða að hv. þm. Ellert B. Schram hafi rekið upp ramakvein í sumar og gert kröfu um að útbúinn yrði nýr stjórnarsáttmáli í samræmi við nýjan veruleika sem hv. þingmaður hafði áttað sig á að var orðinn til í þjóðfélaginu.

Þá liggur fyrir að ráðherrar hafa gefið misvísandi yfirlýsingar. Hæstv. iðnaðarráðherra gefur út viljayfirlýsingu um álver í Bakka og lýsir því yfir að það sé stefna ríkisstjórnarinnar. Viðskiptaráðherra tekur skóflustungu að álveri í Helguvík. Formaður Samfylkingarinnar segist ekki vera hrifin af hugmyndinni um álver í Helguvík og umhverfisráðherra setur álvershugmyndina í Bakka í uppnám með kröfu um umhverfismat. Síðan kemur forsætisráðherra hér í gær og segir að við eigum að framleiða, framleiða og framleiða og rakti það í ræðum sínum í efnahagsmálunum að við ættum að nýta náttúruauðlindir okkar og virkja — eftir því sem ég gat best skilið — hvar sem því væri helst við komið.

Ég hlustaði með óvenju mikilli athygli á ræðu hæstv. iðnaðarráðherra áðan um hvaða tökum hann mundi taka þetta mál vegna þess að vandamálið er að ekki hefur legið ljóst fyrir hvað ríkisstjórnin ætlaðist fyrir í þessu efni eða hvort það væri yfir höfuð samstaða um það hvernig ætti að taka á þessu viðfangsefni af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Hæstv. iðnaðarráðherra, eins og hans var von og vísa, flutti hér ágæta ræðu og smeygði sér fimlega fram hjá þeim vandamálum sem þurfti að smeygja sér fram hjá. (Iðnrh.: Hverjum?) Öllum þeim vandamálum sem hann þurfti að smeygja sér fram hjá. En eins og komið hefur fram hér í þessum umræðum þá erum við sammála um það — það er ekki ágreiningur um það — og það kom reyndar fram hjá hv. málshefjanda að við erum sammála um að landnýting verði í sátt við skynsamlega landvernd. Það er bara spurning hvernig við skilgreinum skynsamlega landvernd.

Ég tel nauðsynlegt — og um það er einhugur í mínum flokki — að við virkjum fallvötn og orku í iðrum jarðar til að skapa atvinnu og bæta lífskjör. Við eigum hins vegar aldrei að ganga of nærri landinu þannig að aðgerðir okkar í dag leiði ekki til að unnið verði óbætanleg skemmdarverk eða tjón á landi eða vistkerfi. Það er grundvallaratriði. Það er hins vegar síðan skilgreiningaratriði hvar og hvenær við teljum að um slíkt geti verið að ræða.

Það er tvímælalaust skynsamlegt nú að halda áfram með áform um álver á Bakka og í Helguvík og að virkja í neðri hluta Þjórsár til að tryggja nægilega orku. Alvarlegasti hluturinn í nútímasamfélagi er víðtækt atvinnuleysi. Við þurfum að reyna og vinna að því að koma í veg fyrir það (Forseti hringir.) með öllum tiltækum ráðum.