135. löggjafarþing — 117. fundur,  3. sept. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í virkjana- og stóriðjumálum.

[15:41]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Í gær fór fram umræða hér í þinginu þar sem minnst var á stóriðjumálin. Það er mjög athyglisvert að skoða leiðarana í morgun varðandi þau mál af því þeir fjalla um þau skilaboð sem hér voru færð fram á mjög misjafnan hátt.

Í Morgunblaðinu segir að það sé athyglisvert hversu samstiga stjórnarflokkarnir voru í umræðunum á Alþingi í gær um að frekari virkjun vatnsafls og jarðhita væri nærtækasta leiðin til að koma Íslandi upp úr núverandi efnahagslægð. Það er nú varla þannig að við sem hlustuðum á umræðurnar í gær getum alveg kvittað upp á það því að þar var ekki samhljómur.

Leiðarinn í 24 stundum dregur það líka fram og hefur eftir Geir H. Haarde hæstv. forsætisráðherra að það séu hagsmunir almennings í landinu að stjórnvöld liðki fyrir arðbærri notkun orkuauðlindanna. Svo segir leiðarahöfundur í 24 stundum: Nú reynir á að samstarfsflokkurinn hans, þ.e. Sjálfstæðisflokkurinn, hlusti á hann. Það segir leiðarahöfundur í 24 stundum.

En hver voru skilaboð forsætisráðherra í gær? Hvað sagði forsætisráðherra í ræðu sinni? Skilaboð hans voru eiginlega ákall til Samfylkingarinnar. Það er ekki hægt að túlka hans skilaboð öðruvísi. Hæstv. forsætisráðherra sagði að það bæri að liðka fyrir arðbærri nýtingu orkuauðlindanna. Skilaboð til hvers eru það? Það eru skilaboð til Samfylkingarinnar. Það eru skilaboð til hæstv. umhverfisráðherra að liðka fyrir, ekki leggja stein í götu og ekki að hinkra. Þetta eru mjög skýr skilaboð sem ekki er hægt að misskilja.

Hvað segir hæstv. forsætisráðherra meira? Hæstv. forsætisráðherra fjallar um að nýta beri orkuauðlindirnar o.s.frv. og svo segir hann: Besta leiðin til að vinna okkur út úr tímabundnum erfiðleikum er framleiðsla, framleiðsla og aftur framleiðsla.

Hvaða skilaboð eru þetta? Var ekki nóg að segja bara að nærtækasta leiðin væri framleiðsla, punktur? (EMS: Hann var í stuði.) Þarf að þrítaka þetta? (Gripið fram í.) Það þarf að tyggja þetta ofan í Samfylkinguna? Og það er það sem hæstv. forsætisráðherra var að gera í ræðunni í gær. Það er ekkert hægt að túlka þetta öðruvísi. En það er kannski ekkert skrýtið að sjálfstæðismenn þurfi að segja það með svo skýrum hætti við Samfylkinguna af því við vitum öll sem hér erum inni að Samfylkingin er klofin í þessum stóriðjumálum og hefur verið það lengi. Það er allt í lagi. Stjórnmálaflokkar geta verið klofnir um mörg stór hagsmunamál en Samfylkingin (Gripið fram í.) er klofin í þessu máli.

Ég ætla minna hv. þingmenn Samfylkingarinnar á að þeir studdu Kárahnjúkavirkjun meira og minna í þinginu. Það voru 44 sem greiddu atkvæði með henni, níu á móti og tveir sátu hjá. Össur Skarphéðinsson, hæstv. iðnaðarráðherra, greiddi atkvæði með Kárahnjúkavirkjun en það var nú mjög holur hljómur í því öllu saman af því að sami hv. þingmaður þá og nú hæstv. ráðherra vann ötullega gegn íslenska ákvæðinu í Kyoto-bókuninni og taldi allt því til foráttu að koma því ákvæði á. Hann sagði hér digurbarkalega í þinginu að þetta ákvæði yrði hlegið út af borðinu, það væri svo fráleitt og allt fundið því til foráttu. Á sama hátt talaði núverandi hæstv. umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir, en hún greiddi reyndar atkvæði á móti Kárahnjúkavirkjun og talaði líka gegn íslenska ákvæðinu í Kyoto-bókuninni. Það var auðvitað ákvæði sem var ein af forsendunum fyrir því að við gátum farið í þessar framkvæmdir. Samfylkingin hefur verið klofin í þessu máli um langan tíma og hefur að hluta til stutt Kárahnjúkavirkjun. Hún hefur þó líka talað gegn íslenska ákvæðinu sem var nú forsenda þess að við gátum farið í þær framkvæmdir.

Núna stöndum við frammi fyrir næsta verkefni, þ.e. hvað á að segja í Kaupmannahöfn í haust. Kyoto-bókunin rennur út árið 2012. Það var samið um tímabilið 2008–2012. Í Kaupmannahöfn á að fara í næsta tímabil. Hvað verður þá sagt? Það eru fjórir hæstv. ráðherrar í nefnd sem á að undirbúa hagsmunabaráttu Íslands þar og við höfum ekki fengið skýr svör um hvernig á að halda á þeim málum. Samtök atvinnulífsins og fleiri hafa miklar áhyggjur af þessu. Það er alveg ljóst að hæstv. umhverfisráðherra vinnur ekki að hagsmunum Íslands að mínu mati í þessu máli, ekki frekar en varðandi undanþágur í fluginu. Þar gerði hæstv. umhverfisráðherra ekki neitt, ekkert. Og hæstv. samgönguráðherra er búinn að viðurkenna opinberlega að við náðum ekki að tala fyrir hönd Íslands innan Evrópusambandsins til þess að fá undanþágur á fluginu. Þingmenn Samfylkingarinnar hafa meira að segja sagt að Ísland hafi (Forseti hringir.) misst af strætisvagninum í þessu máli. Ég vil því spyrja hæstv. iðnaðarráðherra: Hver verða skilaboðin okkar í Kaupmannahöfn?