135. löggjafarþing — 117. fundur,  3. sept. 2008.

stefna ríkisstjórnarinnar í virkjana- og stóriðjumálum.

[15:51]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að hreyfa þessu máli þó svo að við séum hvor á sínum hólnum og sjáum þetta hvor með sínum augum. Ég hef lengi talið að við þyrftum að auka framleiðslu, við þyrftum að auka útflutningstekjur þjóðarinnar. Til þess að það sé hægt verðum við að virkja vatnsföll og þess vegna neðri hluta Þjórsár, sem er sennilega eitthvað það arðbærasta sem hægt er að gera í virkjunarmálum þessa stundina.

Við þurfum að virkja jarðhita hvar sem er í landinu. Til gaman má geta þess að á Suðurnesjum erum við að nýta í dag um 200 megavött úr bæði Svartsengisvirkjun og Reykjanesvirkjun en það er talið að við getum nýtt þar 2.000 megavött, sem sagt tíu sinnum meira. Þá er ég ekki að tala um djúpborholuverkefni sem eru í gangi og munu kannski skila okkur enn þá meiri og jafnvel ódýrari orku í framtíðinni.

Fallvötn, jarðhita, hugsanlega vindorku, hugsanlega flóð og fjöru getum við virkjað í framtíðinni. Við erum með velferðarkerfi sem við viljum flest bæta og laga og það verður ekki hægt nema með því að auka framleiðslu- og útflutningstekjur. Það er ólíklegt að okkur takist að gera það með öðrum hætti en að skapa fleiri störf sem gefa okkur skatttekjur og fyrirtæki geti nýtt sér orkuna til þess að skapa störf víðs vegar á landinu.

Það má taka undir það eins og hefur komið fram hjá ræðumönnum að það er auðvitað ekki góður kostur að virkja austur á fjörðum eða fyrir vestan og flytja orkuna yfir allt landið. Það er eðlilegt að virkjað sé þar sem orkan er nýtt enda verða afföll af orkuflutningum þá minnst. Það er t.d. eitt sem er dálítið skondið að þrátt fyrir að Búrfellsvirkjun, efst í Gnúpverjahreppi, hafi starfað í 35 ár þá skuli ekki vera þriggja fasa rafmagn á efstu bæjum í hreppnum, þrátt fyrir að við séum búin að vera með raforkuframleiðslu þarna allan þennan tíma. Sama á við um efstu bæi í Rangárvallasýslu. Þetta er dæmi sem gengur ekki alveg upp í huga manns.

Það sem er kannski vandamálið og hefur verið er að við höfum ekki fengið nein svör hér í dag. Það hefur verið spurt um ýmislegt, t.d. hvort menn ætli að fara á fundinn í Danmörku í haust og sækja um undanþágu eins og gert var í sambandi við Kyoto á sínum tíma, við fáum ekki svör við því. Við fáum ekki svör við því hvort við getum fengið undanþágur út á vistvænu orku, þ.e. að við mengum ekki með sama hætti og þeir sem þurfa að nota kol eða olíu til að knýja álver sín eða stóriðjur sem verið er að byggja hér og þar. Við höfum ekki fengið nein svör við þessu. Við höfum heldur ekki fengið svör við því hvort mengunarkvóti dugi fyrir Helguvík eða Bakka eða hugsanlega olíuhreinsistöð á Vestfjörðum. Okkur hefur ekkert verið svarað með þetta og það er auðvitað mjög bagalegt að ríkisstjórnin skuli ekki geta sagt okkur eða ráðherrar úr ríkisstjórninni skuli ekki geta sagt okkur hvað þeir telji að sé hægt að gera í þessum málum.

Auðvitað fagnar maður því að Vestfirðingar fari að virkja Hvalá í Ófeigsfirði og nái þar jafnvel 37 megavöttum ef allt gengur að óskum en það vantar svör frá ríkisstjórninni, enda kannski ekkert skrýtið að ríkisstjórnin eigi erfitt með að svara. Það virðast vera skiptar skoðanir innan Samfylkingarinnar um hvernig eigi að standa að þessum málum. Sumir ráðherrar vilja virkja og aðrir ekki og sumir vilja álver og aðrir ekki. Síðan er það Sjálfstæðisflokkurinn en 50% ráðherranna kemur úr þeirra röðum (Forseti hringir.) og þeir vilja allir virkja.