135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

málefni ljósmæðra.

[10:38]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það mál sem við ræðum hér, verkfall ljósmæðra, er gríðarlega alvarlegt mál. Um það deilir enginn, held ég, sem er í þessum sal, hvort sem fólk er í stjórn eða stjórnarandstöðu. Það sem deilt er um hér bæði í dag og í gær er til hvaða aðgerða hægt er að grípa.

Hæstv. fjármálaráðherra lýsti því hér í gær hver hans sýn væri á málin. Mín sýn er sú, og ég tek undir með hv. þm. Ástu Möller, hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur og öðrum hv. þingmönnum sem hafa rætt þetta mál, að staðan er algjörlega óviðunandi. Og það er auðvitað algjörlega óviðunandi að störf ljósmæðra séu ekki metin að verðleikum, um það deilir enginn. Við deilum hins vegar um það hvað hægt sé að gera í þessari stöðu núna.

Ég tala af reynslu eftir störf mín hjá Reykjavíkurborg þegar ég segi: Þar sem er vilji til þess að leiðrétta þessi mál, þar er vegur. Það liggur fyrir að það er pólitískur vilji núna hjá núverandi ríkisstjórn til að leiðrétta laun kvennastéttanna. Það liggur fyrir (Gripið fram í.) í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar (Gripið fram í.) og ég segi það núna sem ég sagði (Gripið fram í.)hér í vor að innbyggt óréttlæti verður ekki leiðrétt í einni svipan. Það er bara ekki þannig og ég tala af mikilli reynslu þegar ég segi það.

Það liggur fyrir stefnuyfirlýsing um það og það liggja fyrir yfirlýsingar um það að á þessum málum verði tekið í haust á jafnréttisþingi þar sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur sagt að kynntar verði tímasettar aðgerðir og dagsetningar varðandi þessi mál.

Hins vegar þarf að sjálfsögðu að leysa þá kjaradeilu sem við stöndum frammi fyrir núna. Ég átti samtöl í morgun við deiluaðila og ég treysti því að málið muni leysast á eins farsælan hátt og mögulegt er miðað við núverandi aðstæður á allra næstu dögum þannig að við þurfum ekki að horfa upp á það að þetta verkfall verði lengra en þeir tveir sólarhringar sem stefnir í núna.