135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

málefni ljósmæðra -- frumvarp um matvæli.

[10:51]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vil taka það fram að það er dálítið erfitt að fara hér inn í umræðu um allt annað mál vegna þess að þetta er stórt mál sem við vorum að ræða áðan. Þessi þingsköp sem við höfum samþykkt hér eru þó þannig að þetta er það sem ætlast er til og að þetta er leyfilegt.

Ég ætla að fá að ræða hér, hæstv. forseti, örlítið við formann sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar um matvælalöggjöfina sem við frestuðum í vor og hefur ekki komið til umfjöllunar á hv. Alþingi nú í haust. Og ekki er útlit fyrir að það verði eftir því sem ég best skil. Það er ekki fundur í nefndinni á mánudag en hins vegar mun verða fundur á þriðjudaginn.

Ástæða þess að ég spyr um þetta er m.a. sú að því hefur verið haldið fram, a.m.k. í nefndinni, að það sé ákveðin hætta á því ef þetta frestast mjög að það geti bitnað á okkar mikilvægu atvinnugrein sem er sjávarútvegurinn og að Evrópusambandið geti beitt sér gegn innflutningi á sjávarafurðum frá Íslandi ef þetta dregst úr hófi. Þess vegna er mikilvægt fyrir þingið og alla sem láta sig þessi mál varða að fá svör frá hv. formanni um það hvernig hún sér í fyrsta lagi fyrir sér vinnu við þessa löggjöf og svo í öðru lagi hvort einhver hætta sé á að þessi frestun sem nú þegar hefur orðið geti komið sér illa fyrir sjávarútveginn.

Nú veit ég að það er von á umsögn frá Bændasamtökunum um þetta mál. Þau hafa lagt gríðarlega mikla vinnu í það og vonandi verður vel tekið þeim ábendingum sem þaðan koma. En mér finnst ómögulegt annað en að hv. formaður nefndarinnar greini frá því hvernig hún sér fyrir sér áframhaldandi vinnu við þetta mál.