135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

málefni ljósmæðra -- frumvarp um matvæli.

[10:56]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa yfir afdráttarlausum stuðningi mínum við baráttu ljósmæðra fyrir viðurkenndum leiðréttingum á kjörum sínum, virðingu fyrir starfi sínu og ábyrgð sem þessi ein elsta stétt landsins býr nú við og gekkst fyrir að bæta. Ljósmæður réðu miklu og störf þeirra hafa skipt sköpum fyrir bætt heilbrigði þjóðarinnar, í þeim mikla árangri sem við höfum náð í að ná niður barnadauða, barnsfararsóttum o.s.frv. Þessi stétt á stuðning minn eins og okkar allra í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði.

Varðandi hitt málið sem er hér til umræðu, landbúnaðarmálin, vil ég ítreka að það var fyrir harðfylgi og samstöðu bænda, íslenskra matvælaframleiðenda, neytenda og sérfræðinga í heilbrigði dýra sem tókst að stöðva þetta illræmda frumvarp ríkisstjórnarinnar um óheftan innflutning á hráu kjöti síðasta vor. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs börðust af alefli gegn því hér á Alþingi og áttu sinn þátt í því að málið var stöðvað.

Ég furða mig á þeim áhuga hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur að hún skuli koma hér upp til þess að ýta á eftir þessu frumvarpi sem er ógn við landbúnaðinn, ógn við matvælavinnslu í landinu, ógn við matvælaöryggi í landinu. Svör við fyrirspurnum frá fulltrúum vinstri grænna í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd um bréfaskipti á milli utanríkisráðuneytisins, landbúnaðarráðuneytisins og samninganefndarinnar við Evrópusambandið um þessar kröfur komu ekki. Þessi bréf komu ekki. Þetta virðist eingöngu ráðast (Forseti hringir.) af hnjáliðamýkt Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins og einhvers hluta forustu Framsóknarflokksins (Forseti hringir.) fyrir Evrópusambandinu.