135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

málefni ljósmæðra -- frumvarp um matvæli.

[10:58]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil bara vegna fyrra málsins sem hér var rætt, af því að allmargir hv. þingmenn tóku þannig til orða að „við konur“ hlytu að hafa skilning á þessari stöðu og mikilvægi ljósmóðurstarfsins og þess að rétta kjör ljósmæðra, segja að í mínum huga er sá þáttur málsins ekki kynbundinn og ég held að við karlar hljótum að taka það til okkar alveg jafnt og konur hér á þingi.

Varðandi frumvarpið um óheftan innflutning á hráu kjöti er ég þvert á móti ekki að reka á eftir því hér, heldur fagna því sérstaklega að afgreiðslu málsins var þrátt fyrir allt frestað í vor. Sömuleiðis væri það að mínu mati algert óráð að fara að hrapa að einhverri afgreiðslu hér á þessu stutta haustþingi. Þetta er einfaldlega mál sem þarf að skoða miklu betur.

Menn mega ekki líta svo á — það er kannski gott fyrir menn að læra það af þessu máli, bæði samningamenn okkar og ráðuneytin — að afgreiðsla Alþingis á málum sem samið er um með stjórnskipulegum fyrirvara sé formsatriði. Það er ekki sjálfgefið að Alþingi taki alltaf við hverju sem er. Sá möguleiki er til staðar að Alþingi Íslendinga segi nei, hann er innbyggður í samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði, og segi einfaldlega við okkar samningamenn og ráðuneytin: Nei, takk. Þið stóðuð ykkur ekki nógu vel. Farið aftur og reynið að ná betri samningum. Það væri stórkostlega lærdómsríkt ef þetta mál færi í þann farveg.

Ég er líka þeirrar skoðunar að það sé hægt að skipta þessu upp og innleiða þetta fyrir sjávarútveginn. Undanþága Íslands, sú sem varin var með kjafti og klóm á sínum tíma, var varðandi innflutning á hráu kjöti og hrámeti og hana hefði aldrei átt að gefa eftir. Að mínu mati hefði það ekki þurft að valda neinum vandræðum þótt Ísland hefði staðið fast á þeirri afstöðu.

Það vantar enn gögn í málinu og það gætir ótrúlegrar tregðu úr ráðuneytunum að afhenda fullnægjandi gögn um feril málsins. Og auðvitað er óþolandi fyrir Alþingi að það skuli kosta (Forseti hringir.) margra mánaða eftirrekstur að fá slík grunngögn. Áður en þau eru komin kemur að sjálfsögðu ekki til greina að afgreiða þetta mál.