135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

málefni ljósmæðra -- frumvarp um matvæli.

[11:00]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég gerði mér nú engar vonir um að fulltrúar Vinstri grænna mundu taka málefnalega afstöðu til þessa máls eða (JBjarn: Málefnalega! .... á móti ...) taka á einhvern hátt ábyrgð á málinu. Þeir hafa ekki tekið ábyrgð á neinum málum nema girðingarlöggjöfinni hérna fyrir nokkrum árum. Það voru þau lög sem voru samþykkt (Gripið fram í.) í tíð fyrrverandi ríkisstjórnar. Mér er þetta mjög minnisstætt. En þetta er bara svona. Við stöndum frammi fyrir því að þurfa að innleiða þessa löggjöf og aflétta stjórnsýslulegum fyrirvara.

Erindi mitt hér upp var náttúrlega fyrst og fremst það að heyra frá formanninum hvernig hún sér fyrir sér vinnu við málið, ekki síst vegna þess að ég hef áhuga á því að sjávarútvegur á Íslandi geti starfað óhindrað áfram. Það er stóra málið í þessu öllu saman. Það þýðir ekkert fyrir hv. formann Vinstri grænna að koma hér fram og skella skollaeyrum við staðreyndum sem blasa við. Það er ekki einu sinni fyndið. Það er klaufalegt að svona reyndur þingmaður skuli ekki reyna að horfa á málið út frá staðreyndum og átta sig á aðalatriðunum. (Gripið fram í.)

Ég hef eins og fleiri hér áhyggjur af stöðu bænda, ekki síst núna á haustdögum og ekki síst sauðfjárbænda þar sem þeir eru náttúrlega í sviðsljósinu á haustdögum af eðlilegum ástæðum vegna hækkunar á áburðarverði og vil spyrja formanninn vegna þess að ég reikna með því að hún eigi eftir að tala hér aftur hvort einhverjar aðgerðir séu fyrirhugaðar af hálfu stjórnvalda til að koma til móts við erfiða stöðu bænda vegna aukins kostnaðar.