135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[11:15]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það má segja að um þau atvik sem urðu í sumar sé eðlilegt að stjórnvöld leggi sig fram um að skoða áhrif þeirra á eignir og afkomu einstaklinga og fyrirtækja og bregðast við eftir föngum með löggjöf þar sem það á við með tillögum sem eru vel ígrundaðar og ætlaðar til að bæta úr þeim ágöllum sem fram hafa komið í framhaldi af viðkomandi atburðum. Það verður þó að segjast um þetta mál að snautlegri framsögu hef ég ekki heyrt um nokkurt mál en þetta bráðabirgðalagafrumvarp. Þetta er í annað skiptið sem sami ráðherrann setur bráðabirgðalög um atburði í eigin kjördæmi á aðeins einu ári. Í fyrra skiptið mætti hann ekki til umræðunnar, hvorki til 2. né 3. umr., og hann sagði við 1. umr. málsins að rökstuðningur fyrir því að hann teldi sig hafa heimild til að setja bráðabirgðalög væri sá að málið væri svo lítilfjörlegt. Það var vissulega lítilfjörlegt í augum hans því að hann mætti ekki, hvorki til 2. né 3. umr. um málið þá. Ég veit ekki hvað honum finnst um þetta mál og hvernig hann rökstyður þörfina á því að setja bráðabirgðalög en hann mætir ekki einu sinni til 1. umr. Ég verð að segja að ég gagnrýni þetta harðlega, virðulegi forseti, skeytingarleysi ráðherrans gagnvart málinu og lítilsvirðingu hans gagnvart þinginu, bæði með því að grípa tvisvar sinnum til bráðabirgðalagavalds af tilefni sem hingað til hefur ekki verið talið fullnægja rökstuðningi sem þarf að vera fyrir því að beita þessari bráðabirgðalagaheimild og svo hinu, að mæta ekki einu sinni til að mæla fyrir eigin máli.

Það eru nokkur atriði sem þarf að skoða í þessu máli.

1. Átti að setja bráðabirgðalög?

2. Breytingarnar sem eru í bráðabirgðalögunum.

3. Afturvirkni breytinganna.

Við skulum aðeins fara yfir þessa þætti málsins. Ég gerði rækilega grein fyrir því á síðasta þingi þegar við ræddum bráðabirgðalagafrumvarp ráðherrans þá hvernig löggjafinn gekk frá bráðabirgðalagaheimildinni við stjórnarskrárbreytinguna 1991, las upp úr þingtíðindum í rökstuðningi þingmanna þá fyrir því hvernig ætti að skilja bráðabirgðalagaheimildina og hvernig ætti að beita henni. Ég vísa til ræðu minnar þá þannig að ég þarf ekki að endurtaka það sem þá kom fram en vil þó endurtaka einn kafla.

Áður fyrr, fyrir stjórnarskrárbreytinguna 1991, var eðlilegt að ráðherrar hefðu bráðabirgðalagavald vegna þess að fram að þeim tíma var Alþingi slitið á vorin og það var ekki sett aftur fyrr en 10. október. Þegar Alþingi var slitið misstu þingnefndir umboð sitt, forseti Alþingis missti umboð sitt þannig að ekkert þing var starfandi í marga mánuði, ekkert löggjafarvald var og auðvitað varð einhver að hafa vald til að geta gefið út bráðabirgðalög þegar þess þótti þurfa og þess vegna höfðu ráðherrarnir það á þeim tíma.

Árið 1991 er þessu breytt þannig að Alþingi situr allt árið, þingnefndir sitja allt árið, forseti er kjörinn allt árið. Það er alltaf hægt að kveðja Alþingi saman ef þörf er á og sérstaklega ef brýn þörf er á. Það hlaut því að breyta inntakinu og skilningnum á bráðabirgðalagavaldsheimild ráðherranna. Sá þingmaður sem gerði það kannski best í fæstum orðum þá, að mæla fyrir samkomulagi allra flokka, bæði í efri og neðri deild, var framsögumaður málsins í neðri deild sem var Margrét Frímannsdóttir. Ég hugsa að viðskiptaráðherra ætti kannski að hlusta dálítið á þann fyrrverandi þingmann. Framsögumaðurinn sagði, með leyfi forseta:

„Að vísu er það svo að ríkisstjórn mun áfram hafa heimild til þess að leggja til við forseta að gefa út bráðabirgðalög meðan þingfrestanir standa, en það er skilningur allra sem að þessu máli hafa staðið að til þess komi ekki nema í sérstökum neyðartilvikum, heldur verði tekinn upp sá nýi siður að verði þörf á skjótri löggjöf utan venjulegs starfstíma Alþingis, t.d. yfir sumartímann, þá verði Alþingi kallað saman til aukafunda til að afgreiða hana með eðlilegum hætti.“

Ég held að það væri rétt að gefa viðskiptaráðherra þessi ummæli Margrétar Frímannsdóttur innrömmuð til að hann geti sett þau upp á vegg hjá sér og lært þau, farið yfir þennan texta kvölds og morgna þannig að frá honum hverfi sú freisting að setja bráðabirgðalög þegar eitthvað gerist í hans eigin kjördæmi sem honum finnst ástæða til að bregðast við.

Í öðru lagi eru efnisatriðin. Það er verið að lækka sjálfsábyrgð tjónþola í tjónum á lausafjármunum, innbúi. Það er efnisleg breyting frumvarpsins, að lækka tjón einstaklinga sem þeir bera vegna skaða á innbúi. Þetta er búið að vera í lögum síðan þau voru sett 1992, nákvæmlega þessi sjálfsábyrgð sem var í gildi fram að bráðabirgðalögunum. Allir þeir sem þurftu á lögunum að halda fram að þeim tíma, í sumar, báru þessa sjálfsábyrgð. Aldrei hafði neinn viðskiptaráðherra fram að þeim tíma talið þörf á að breyta þessu lagaákvæði og lækka sjálfsábyrgðina.

Þeir sem urðu fyrir tjóni í snjóflóðunum á Vestfjörðum 1995, á Flateyri, báru þessa sjálfsábyrgð. Þeir sem urðu fyrir tjóni í snjóflóðunum á Vestfjörðum 1995, í Súðavík, báru þessa sjálfsábyrgð. Þeir sem urðu fyrir tjónum í jarðskjálftunum á Suðurlandi 17. júní og 21. júní árið 2000 báru þessa sjálfsábyrgð. Nú spyr ég: Hvers vegna þurfti að lækka sjálfsábyrgðina árið 2008? Hvað gerði það að verkum að tjónþolar voru verr í stakk búnir til að bera sjálfsábyrgð sína þá en þeir sem áður höfðu þurft að bera þessa sömu sjálfsábyrgð? Ég ætla ekki að leggjast gegn því að það kunni að vera rétt að lækka þessa sjálfsábyrgð, en ég segi ekki já nema það komi rökstuðningur í málinu. Hann kemur ekki fram í bráðabirgðalögunum og hann kom ekki fram í snautlegri framsöguræðu varaviðskiptaráðherrans, enginn rökstuðningur um það hvers vegna þurfti, og þarf, að mati ráðherrans að lækka þessa sjálfsábyrgð í þessu eina tilviki.

Virðulegi forseti. Ég skora á ráðherrann að draga fram rökin. Þau skipta máli. Þess vegna á ráðherrann að vanda sig. Hann á að koma með þau. Það er ekki boðlegt gagnvart þeim sem hafa búið við þessi lög fram til þessa og borið þessa sjálfsábyrgð þegjandi og hljóðalaust að segja nú að þetta sé of há sjálfsábyrgð. (Gripið fram í: Þetta er ekki boðlegur málflutningur.) Jú, þeir sem taka sér lagavald verða að beita því þannig að það sé sanngjarnt gagnvart öllum þegnum landsins. (Iðnrh.: Það er ekki sanngjarnt … að draga … með þessum hætti inn í þetta.) (Gripið fram í.) Þeir báru þessa sjálfsábyrgð og það er von að hv. þingmaður sé órólegur yfir þessu þegar hann er minntur á að þessum lögum hefur verið beitt gagnvart þeim sem hafa á þeim þurft að halda í öðrum tilvikum, á öðrum tíma og annars staðar á landinu. Menn sem setja bráðabirgðalög verða að færa rök fyrir því hvers vegna þarf að víkja frá því sem gilt hefur til þessa, í þessu eina afmarkaða tilviki.

Svo setur ráðherrann líka efnislega inn í bráðabirgðalögin heimild til sjálfs sín um að hann geti breytt sjálfsábyrgðinni. Sú heimild er ekki í lögunum sjálfum. Alþingi hefur hingað til ekki veitt ráðherra heimild til að ákvarða sjálfsábyrgðina eftir einhverju mati hans sem er svo sem engin leiðbeining um hvernig eigi að ákvarða. Hvers vegna telur ráðherrann sig hafa þörf á því að hafa þessa heimild? Hvers vegna?

Í þriðja lagi er það afturvirknin. Í þessu máli er tryggt eftir á, það er óumdeilt. Það hefur komið til kasta Alþingis áður. Árið 1995 flutti heilbrigðisráðherra sem þá fór með þennan málaflokk frumvarp þar sem lagt var til að tryggja eftir á, mannvirki sem höfðu verið ótryggð yrðu færð inn í tryggingu og fengju greiðslu úr sjóðnum. Heilbrigðis- og trygginganefnd fór yfir það mál á sínum tíma og formaður nefndarinnar þá, Gunnlaugur Stefánsson, mælti fyrir því. Segir í nefndaráliti frá 22. febrúar 1995 sem öll nefndin stóð, með leyfi forseta:

„Hv. heilbr.- og trn. telur ekki rétt að lögfest sé afturvirkt ákvæði sem byggir á því að munir séu tryggðir eftir á eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.“

Nefndin var algerlega sammála um það árið 1995 að taka út úr stjórnarfrumvarpinu ákvæði um að tryggja eftir á. Þess í stað lagði nefndin til, til að mæta sjónarmiðum ráðherrans, fjárveitingu sem var eingreiðsla til að bæta viðkomandi aðila það tjón sem hann hafði orðið fyrir og það var samþykkt. Alþingi samþykkti þá fjárveitingu. Ég held að svo oft sé búið að ræða það í þessum þingsal að afturvirkni er eitthvað sem gengur ekki gagnvart stjórnarskránni. Ég er undrandi á ríkisstjórninni að koma hér með frumvarp með afturvirkni. Hún hefði frekar, ef hún hefur talið ástæðu til, átt að leggja til í frumvarpinu að fá fjárveitingu sem eingreiðslu til að greiða þá tjónþolum það tjón sem talið var nauðsynlegt að þeir fengju bætt betur en lögin kveða á um. Þá fara menn fram hjá afturvirkninni. Þetta finnst mér óvönduð lagasmíð sem er ekki ráðuneytinu boðleg, að koma með stjórnarfrumvarp sem gerir ráð fyrir afturvirkni. Ég veit að hæstv. iðnaðarráðherra veit það, þekkir það frá umræðunni í þingsölum að það er ekki talið standast stjórnarskrá lýðveldisins að leggja slíkt til. Ég skora á þá þingnefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar að taka á þessu atriði málsins, taka það út úr frumvarpinu og koma þá með aðrar breytingar sem hún telur að geti mætt þeim sjónarmiðum með lögmætum hætti sem sóst er eftir.

Ég skora líka á nefndina að taka út úr frumvarpinu heimild til ráðherrans til að ákvarða sjálfsábyrgðina. Ég tel að ekki eigi að ganga svo langt í lagasetningu að fela ráðherranum það vald að geta haft breytilega sjálfsábyrgð að eigin mati. Í svona málum verða landsmenn sem reiða sig á þessa tryggingu að geta treyst því að allir sitji við sama borð.

Því miður verð ég að segja að mér finnst ríkisstjórnin vera farin að ganga nokkuð langt í þá átt að líta svo á að löggjafarvaldið sé í hennar höndum. Þessi bráðabirgðalög eru til marks um það að ef eitthvað kemur upp á sem ráðherrann telur sig þurfa að bregðast við setji hann bara bráðabirgðalög sem ég tel náttúrlega alveg fráleitt.

Ég get nefnt nokkur dæmi af öðrum toga sem lýsa því sama hjá ráðherrum í núverandi ríkisstjórn. Fyrir nokkrum dögum var gefin út fréttatilkynning frá menntamálaráðuneytinu. Þar sagði að ríkisstjórnin hefði ákveðið að styrkja handknattleikslandslið Íslands um 50 millj. kr. Ríkisstjórnin fer ekki með fjárveitingavald en hún talar eins og hún hafi það. Félagsmálaráðherra ákvað að stofna nýjan lánaflokk við Íbúðalánasjóð, setja 5 milljarða kr. í hann. Hann hefur núna viðurkennt í svari við fyrirspurn minni að það sé engin fjárveiting fyrir þessum 5 milljörðum, það þurfi að sækja um (Forseti hringir.) hana á fjáraukalögum núna í haust. Engu að síður er búið að veita fé inn í stofnunina og byrjað að greiða það út. Þó vitum við að stjórnarskrá Íslands segir að fjárveitingavaldið sé hjá Alþingi en ekki ríkisstjórn.