135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[11:43]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Forseti. Það segir sig sjálft að þegar bráðabirgðalöggjafi sem beitir sínu löggjafarvaldi liggur það vald hjá honum en ekki hjá þinginu. Það er eðli slíkrar lagasetningar eins og hv. þingmaður ætti að vita. En ég er nú beinlínis með fyrir framan mig þar sem er talað um hverjir hefðu stutt staðsetningu bráðabirgðalaganna sem lutu að breytingum á lögum um lax- og silungsveiði. Þar greiddi hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson atkvæði með staðfestingu þeirra bráðabirgðalaga. Mér finnst hv. þingmaður því vera kominn í fullkomna mótsögn við það sem hann ber á borð fyrir okkur hér í dag.

Mig langar einnig í þessu seinna andsvari mínu að koma inn á það hver skilyrðin eru fyrir því að hægt er að setja bráðabirgðalög. Í bók Gunnars G. Schrams, Stjórnskipunarrétti, er talað heilmikið um þessi fræði og þar segir, með leyfi forseta:

„Þessi skilyrði eru að Alþingi sitji ekki, að brýn nauðsyn sé til lagasetningar og að bráðabirgðalögin brjóti ekki í bága við stjórnarskrána.“

Ég tel að öll skilyrðin þrjú séu uppfyllt. Alþingi sat ekki í sumar. Brýn nauðsyn var til lagasetningarinnar og bráðabirgðalögin brjóta að mínu mati ekki gegn stjórnarskrá.

Þarna stendur einnig, með leyfi forseta:

Eftir orðanna hljóðan er ekki nægilegt að löggjöf sé æskileg, skynsamleg eða jafnvel nauðsynleg heldur að þörfin á löggjöf sé svo brýn að ekki megi bíða þar til þing hefji aftur störf. Einhverjir verulegir hagsmunir verða að vera í húfi.

Að mínu mati voru hér verulegir hagsmunir í húfi eftir stærsta jarðskjálfta í Íslandssögunni, eitt mesta eignatjón í Íslandssögunni. Litlu neðar stendur í þessu sama riti:

„Annað sem skýrir þetta sem brýna nauðsyn er óneitanlega matskennt og teygjanlegt.“

Varðandi hvort brýna nauðsyn beri til setningar bráðabirgðalaga segir Gunnar G. Schram að mat á því þurfi að verulegu leyti að byggjast á því að hvaða markmiðum er stefnt hverju sinni í stjórnmálum og hvernig þeim skuli náð. Því marki er verulegur hluti almennrar löggjafar brenndur. Verður m.a. af þeim sökum að líta svo á að bráðabirgðalöggjöfin (Forseti hringir.) hafi allfrjálsar hendur um slíkt mat en þó ekki óbundnar með öllu. Hér er því á ferðinni mat bráðabirgðalöggjafans sem að mínu áliti uppfyllir að öllu leyti þau ákvæði sem við erum hér að tala um.(Forseti hringir.)