135. löggjafarþing — 118. fundur,  4. sept. 2008.

Viðlagatrygging Íslands.

651. mál
[11:45]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ekki hægt að fara í gegnum þessa rökræðu í andsvörum og vísa ég til þess sem ég sagði á síðasta þingi, þess sem ég dró þar fram um afstöðu Hæstaréttar og einstakra lögfræðinga um bráðabirgðalög sem þá voru til umfjöllunar.

Það sem ég greiddi atkvæði með, virðulegi forseti — ég vil ítreka það — voru bráðabirgðalögin, svo breytt. Bráðabirgðalögin sem ráðherrann gaf út höfðu ekki þingmeirihluta, það er kjarni málsins, sem ráðherrar eiga kannski að taka eftir svo að þeir forðist að lenda í þeirri stöðu aftur. (Gripið fram í.) Þau voru ekki staðfest, þeim var breytt, staðfest þannig, og menn geta velt því fyrir sér í hvaða stöðu ráðherra er sem lendir í því.

Fyrst talið var nauðsynlegt, og brýna nauðsyn bera til, að setja bráðabirgðalög til að lækka sjálfsábyrgð í innbúi hvers vegna var það sama ekki gert varðandi tjón á fasteignunum sjálfum, því að sjálfsábyrgðin er óbreytt í því? Þar er þó tjónið miklu meira. Ekki var talin þörf á því. Rök hæstv. iðnaðarráðherra hér áðan falla um sjálf sig vegna þessa. Menn verða að færa rök fyrir máli sínu og menn verða að beita lögum á þann veg að samræmi sé í lögunum gagnvart þegnum landsins frá einum tíma til annars, frá einu tjóni til annars. Menn geta ekki haft breytileg lagaákvæði eftir stöðum eða atburðum, það er það sem er verulega gagnrýnisvert í þessu máli, virðulegi forseti.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að upplýsa um það að þingflokkur Samfylkingarinnar var ekki kallaður saman og hefur ekki samþykkt fyrir fram setningu bráðabirgðalaganna þannig að forseta Íslands er falið að gefa þau út (Forseti hringir.) án þess að hafa neina vitneskju eða vissu fyrir því að þingmeirihluti sé á bak við þau.